Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 21. febrúar 2020 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 21. febrúar 2020.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Hrafnista Sléttuvegi tekin í gagnið í næstu viku

Í næstu viku verða söguleg tíðindi í sögu Sjómannadagsráð og Hrafnistu þegar nýtt 99 rýma hjúkrunarheimili verður tekið í notkun. Fyrstu íbúarnir flytja inn um miðja vikuna og 2. mars fara nýjir íbúar að flytja inn í stríðum straumum.

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með síðustu vikum þegar um sjötíu starfsmenn nýja heimilisins ásamt tugum iðnaðarmanna hafa verið að leggja lokahönd á verkið.

Það er ekki oft sem verkefni af þessari stærðargráðu eru á undan áætlun og hvað þá undir kostnaðaráætlun en þessar staðreyndir í okkar tilfelli gerir verkefnið sérstaklega ánægjulegt.

Verkefnið er samstarfsverkefni þriggja aðila, þ.e. Heilbrigðisráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Sjómannadagsráðs/Hrafnistu. Samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg frá maí 2017 tók Sjómannadagsráð, með aðkomu Hrafnistu, að sér að hafa umsjón með framkvæmdum við byggingu á nýju 99 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg. Nú, aðeins 32 mánuðum síðar, er rekstur hins nýja hjúkrunarheimilis hafinn. Þetta er styttri framkvæmdatími en áður hefur þekkst, auk þess sem byggingarkostnaður verður talsvert undir þeim markmiðum sem sett voru í samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar í október 2016. Það gerist þrátt fyrir að bæði byggingar- og launavísitala hafi hækkað um 15-20% á tímabilinu og gengi krónunnar lækkað um 8-9%. Í samanburði við önnur áform við byggingu hjúkrunarheimila hefur framkvæmdin á Sléttuvegi gengið mun hraðar fyrir sig og byggingarkostnaðurinn verður tugum prósenta lægri en hjá öðrum hjúkrunarheimilum sem nú eru í byggingu, eða hafa nýlega verið tekin í notkun.

Það er ljúft og skylt að senda hugheilar þakkir til allra þeirra fjölmörgu sem komið hafa að þessu glæsilega og merkilega verkefni!

Opið hús á Sléttuvegi – föstudaginn 28. febrúar kl 16-18 - verið velkomin!

Gaman er að segja frá því að næsta föstudag, 28. febrúar, verður opið hús á Sléttuvegi. Þá gefst starfsfólki allra Hrafnistuheimilanna, sem og almenningi, tækifæri til að koma í heimsókn og skoða heimilið.

Húsið verður opið til skoðunnar kl 16-18 þennan dag og eru allir velkomnir.

Vonandi ná sem flest ykkar að nýta þetta tækifæri og kíkja í heimsókn. Strax eftir opna húsið byrjar svo hópur nýrra íbúa að flytja inn þannig að það er um að gera að nýta þetta tækifæri til að koma og skoða.

Gott silfur, gulli betra!

Að lokum er gaman að geta þess að starfsfólk Hrafnistu er að standa sig frábærlega í Lífslaupinu en Lífshlaupið er þriggja vikna hreyfiáskorun fyrir alla sem líkur næsta þriðjudag. Markmiðið er ekki endilega að fólk skili sem flestum mínútum í hreyfingu alla daga heldur er þetta hvatning til þess að hreyfa sig reglulega og auka þannig líkurnar á því að fólk haldi áfram að átaki loknu. Hreyfingin þarf alls ekki að vera af mikilli ákefð heldur getur fólk valið sér það sem hentar hverjum og einum, svo sem gönguferðir, jóga, sund og fleira. Til að hvetja fólk áfram er svo meðal annars vinnustaðakeppni sem við á Hrafnistu tökum auðvitað þátt í af krafti. Í flokki stórra vinnustaða (800 starfsmenn eða fleiri) erum við Hrafnistufólk í öðru sæti með um 20 lið og aðilar fyrir aftan okkur eins og Isavia, Landspítali og Icelandair eru varla að fara ná okkur núna þegar fjórir dagar eru eftir.

Það er mjög gaman að sjá hversu flott þið hafið verið í þessu verkefni og þó langt sé í starfsfólk Landsbankans sem væntanlega tekur fyrsta sætið má ekki gleyma máltækinu góða: Gott silfur, gulli betra ⯑

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur