Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 1. febrúar 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 1. febrúar 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Viðræður um að Hrafnista taki við Skógarbæ

Í byrjun vikunnar var starfsfólki hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar kynnt að Hrafnista hafi tekið jákvætt í beiðni frá Skógarbæ um að fara í viðræður um að Hrafnista taki við rekstri Skógarbæjar.

Skógarbær er hjúkrunarheimili rétt við Mjóddina í Reykjavík, stofnsett árið1997, með 81 hjúkrunarrými. Þar er meðal annars sérstök deild fyrir unga hjúkrunaríbúa. Rekstrarformið er sjálfseignarstofnun. Eigendur eru Reykjavíkurborg, Rauði Krossinn og Efling. Húsið er sambyggt félagsmiðstöðinni Árskógum sem starfrækt er á vegum Reykjavíkurborgar fyrir aldraða. Jafnframt er fjöldi íbúða fyrir aldraða í einkaeigu sambyggt við félagsmiðstöðina.

Reikna má með að viðræðurnar taki nokkrar vikur og auðvitað er ekkert sjálfgefið að aðilar nái saman.

Okkur hér á Hrafnistu finnst þetta sannarlega spennandi verkefni og verði af þessu verður Skógarbær sjöunda Hrafnistuheimilið.

 

Opnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi

Um þessar mundir er opnun á nýju hjúkrunarheimili á Seltjanarnesi í fullum undirbúningi.Á heimilinu eru fjórar hjúkrunardeildir, 10 manna eining hver (alls 40 rými) en einnig aðstaða fyrir dagdvöl í miðju húsinu. Öll aðstaða er hin glæsilegasta.

Nýtt hjúkrunarheimili hér á landi er sannarlega fagnaðarefni enda hefur skortur á rýmum verið mikill eins og fram hefur ítrekað komið í fréttum síðustu misseri.

Vegna fjölda fyrirspurna sem ég hef fengið frá ykkur starfsfólki, og þó annað hafi komið í fréttum, hefur Hrafnista ekki sýnt því sérstakan áhuga að reka þetta heimili. Þó það sé allt hið glæsilegasta er það stærðin sem gerir eininguna mjög erfiða í rekstri en hjúkrunarheimili undir 60 rýmum eru mjög erfið í rekstri. Vigdísarholt, sem er í eigu ríkisins og rekur Sunnuhlíð í Kópavogi, mun verða rekstraraðilinn.

Við sendum þó auðvitað góða strauma til Seltirninga og óskum öllum til hamingju með nýja hjúkrunarheimilið.

 

11 ár á Hrafnistu!

Í dag, fyrsta febrúar, á ég sjálfur 11 ára starfsafmæli á Hrafnistu.

Það var semsagt 1. febrúar árið 2008 sem ég settist í forstjórastól Hrafnistuheimilanna. Það er óhætt að segja að tíminn líði hratt, mér finnst ég stundum vera bara nýbyrjaður. Þrátt fyrir 11 ár finnst mér ég ennþá læra heilmikið nýtt á hverjum degi og það má sannarlega segja að engir tveir dagar séu eins. Ég hef líka lofað sjálfum mér að ef ég er kominn með þann þankagang að ég geti ekki lært neitt nýtt og búið sé að gera allt eins gott og mögulegt er – þá er kominn tími til að hætta; því það er alltaf hægt að gera eitthvað betur. Sjálfsagt ýmsum til ama en vonandi einhverjum til gleði, skal það upplýst hér að ég er ekki ennþá kominn að þessum tímapunkti.

Á þessum 11 ára starfsafmælisdegi mínum er gaman að hugsa til baka. Ég held að upp úr standi allur fjöldinn af framúrskarandi skemmtilegu, drífandi og kröftugu fólki sem heldur Hrafnistu gangandi. Það eru alger forréttindi að fá að vera í forsvari fyrir svona hóp og starfsemi þegar maður sér eldmóðinn og kraftinn við að vilja gera sífellt betur í þágu aldraðra og halda þannig áfram með Hrafnistu í leiðtogahlutverkinu í öldrunarþjónustu á Íslandi.

 

Góðar stundir!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur