Á sjúkraþjálfunardeild Hrafnistu Laugarási í Reykjavík fer fram fjölbreytt starfssemi sem heimilismenn geta nýtt sér.
Sjúkraþjálfun
Sjúkraþjálfunin er staðsett í glæsilegu húsnæði á lóð við Hrafnistuheimilið. Deildin er útbúin góðum tækjasal, leikfimisal og meðferðarklefum. Sjúkraþjálfunin er opin alla virka daga milli kl. 08:00 og 16:00. Tækjasalurinn er opinn frá kl. 09:00-10:00 og 11:00-12:00 fyrir þá sem koma inn í hvíldarinnlögn og vilja nýta sér aðstöðuna. Sjúkraþjálfarar sinna einstaklingsmeðferðum og búa til æfingaáætlanir (þol, styrktar og jafnvægisþjálfun) fyrir heimilismenn og þá sem koma tímabundið í dagþjálfun. Þeir sjá einnig um sérhæfða endurhæfingu eftir beinbrot og í sértækum sjúkdómstilfellum (t.d. eftir heilablóðfall og hjartaáfall). Sjúkraþjálfararnir sjá um að panta hjólastóla, gönguhjálpartæki, spelkur og stuðningssokka fyrir heimilismenn og skjólstæðinga í dagþjálfun ef á þarf að halda. Þeir sjá einnig ásamt íþróttafræðingum um þjálfun fyrir dagþjálfunarhópa. Einnig sjá þeir um fræðslu (t.d. varðandi hjálpartæki og líkamsbeitingu) fyrir starfsfólk og skjólstæðinga. Aðstoðarfólk sjúkraþjálfara sér um að flytja skjólstæðinga í og úr þjálfun, aðstoða í tækjasal einstaklinga og hópa og gefa heita bakstra.
Deildarstjóri sjúkraþjálfunar er Gígja Þórðardóttir, gigja.thordardottir[hja]hrafnista.is
Íþróttastarf
Íþróttastarf á Hrafnistu í Reykjavík er öflugt en þar starfa tveir íþróttafræðingar sem sjá um íþróttir og almenna heilsurækt. Markmiðið er að viðhalda líkamlegri færni og bæta styrk og þol. Félagsleg tengsl, gleði og ánægja sem myndast í góðra vina hópi er líka stór hluti af því að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu.
Á hverjum virkum degi sjá íþróttafræðingar um stólaleikfimi bæði inni á endurhæfingardeildinni og á annarri hæð hússins. Auk þess sér aðstoðarmaður sjúkraþjálfara um leikfimi tvisvar í viku á þriðju og fjórðu hæð. Boccia er mikið stunduð ásamt pílu og pútti á sumrin. Allt eru þetta íþróttir sem margir geta stundað og efla bæði jafnvægi, styrk og ekki síst félagsleg tengsl. Í þessum greinum keppir fólk ýmist sín á milli eða við aðra. Á sumrin fara púttararnir í keppnisferðir á önnur heimili og myndast oft skemmtileg stemning í þeim ferðum.
Þjálfun í tækjasal er opin öllum á tilsettum tímum auk þess sem heimilisfólk fær þjálfun hjá íþróttafræðingi eða sjúkraþjálfara eftir þörfum. Áður en morgunleikfimin byrjar nýta margir sér aðstöðuna undir leiðsögn þjálfara. Íbúar í íbúðum Naustavarar og Kleppsvegi 62 geta nýtt sér aðstöðuna tvisvar í viku þar sem boðið er upp á leikfimi og þjálfun í tækjasal. Hefur það verið vel sótt og fólk almennt ánægt með aðstöðuna.
Netfang íþróttafræðinga: ithrottir[hja]hrafnista.is