Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Úthlutun úr Rannsóknarsjóði Hrafnistu

Nýlega fór fram úthlutun styrkja, samtals að upphæð 700 þúsund krónur, úr Rannsóknarsjóði Hrafnistu árið 2023. Tveir einstaklingar hlutu styrki að þessu sinni að upphæð 350 þúsund krónur hvor til að vinna að verkefnum eða rannsóknum sem tengjast málefnum aldraðra

Inga Valgerður Kristinsdóttir hlaut styrk fyrir verkefnið: Hvaða þættir spá fyrir um flutning einstaklings, sem nýtur heimahjúkrunar, á hjúkrunarheimili.

Markmið rannsóknarinnar er að greina hvaða þættir í heilsufari, færni og aðstæðum eldra fólks, sem nýtur heimahjúkrunar, spái fyrir um flutning þeirra á hjúkrunarheimili. Rannsóknin fór fram samtímis í sex Evrópulöndum; Íslandi, Belgíu, Finnlandi, Hollandi, Ítalíu og Þýskalandi sem gefur möguleika á samanburði milli landanna. Lagt verður mat á það hvort breytingar á ákveðnum þáttum InterRAI-HC matsins hjá skjólstæðingunum spái fyrir um flutning í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili. Þá verður skoðað hvort niðurstöður gefi vísbendingar um hvort heimahjúkrun, félagsleg heimaþjónusta eða aðstandendur geti mögulega brugðist við breytingum hjá skjólstæðingnum með það að markmiði að hann geti búið lengur á eigin heimili. Leitast er við að niðurstöður rannsóknarinnar gefi vísbendingu um hvaða þættir það eru í heilsufari, færni og aðstæðum eldri einstaklinga sem njóta heimahjúkrunar, sem leiða til þess að þeir þurfi að flytjast á hjúkrunarheimili . Þegar það er ljóst er hægt að greina leiðir til að efla heimahjúkrun og heimaþjónustu til að bregðast við þeim þáttum og koma til móts við þarfir skjólstæðinganna með það að markmiði að seinka flutningi á hjúkrunarheimili.

Sirrý Sif Sigurlaugardóttir hlaut styrk fyrir verkefnið: Heilsa, vellíðan og þarfir aðstandenda sem annast eldri einstaklinga sem þiggja heimahjúkrun.

Markmið rannsóknarinnar beinist að heilsufari, vellíðan og þörfum umönnunaraðila sem annast um einstaklinga sem eru 65 ára og eldri. Jafnframt verður skoðað hvort þættir hjá hinum öldruðu sem njóta þjónustu hafi áhrif á líðan og þarfir umönnunaraðila. Þátttakendur verða umönnunaraðilar þeirra sem eru 65 ára og eldri og þiggja heimahjúkrun. Gagnasöfnun styðst við tvö mælitæki, interRAI family carer needs assessment (interRAI-FCNA) þar sem heilsufar, líðan og þarfir umönnunaraðilar er metin og interRAI Home Care (interRAI-HC) sem veitir heildrænt mat á stöðu þeirra sem njóta þjónustunnar. Með því að tengja niðurstöður þessara mælitækja er mögulegt og kortleggja vandann og varpa ljósi á þætti sem hafa áhrif á umönnunaraðila. Loks verða 20 fjölskyldur þar sem fram koma miklar þarfir og krefjandi heilsufarserfiðleikar umönnunaraðila skoðaðar með eigindlegri aðferð. Niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst við stefnumörkun, þróun verklags persónumiðaðrar þjónustu og hönnun lýðheilsuaðgerða.

Um Rannsóknarsjóð Hrafnistu

  • Til baka takki