Fréttasafn

Guðrún Helgadóttir rifjar upp fyrsta sjómannadaginn árið 1938

 

Öllum hátíðarhöldum í tilefni sjómannadagsins var aflýst á höfuðborgarsvæðinu í ár vegna COVID-19. Vísir ræddi við Guðrúnu Helgadóttur í dag í tilefni dagsins en Guðrún var gift Helga Guðmundssyni sjómanni og eignuðust þau sex börn. 

 

Viðtal við Guðrúnu Helgadóttur: Hin 100 ára Guðrún rifjar upp fyrsta sjómannadaginn

Hin 100 ára Guðrún rifjar upp fyrsta sjómannadaginn

Sjómannadagurinn fer fram með óhefðbundnum hætti í dag vegna kórónuveirunnar. Engin hátíðarhöld eru í Reykjavík en á landsbyggðinni eru hátíðarhöld víðast hvar minni en alla jafna. Dagurinn hófst á sjómannamessum víða um land. Meðal annars í Víðistaðakirkju þar sem séra Bragi Ingibergsson þjónaði fyrir altari. Víðast hvar hefur hátíðarhöldum verið aflýst vegna faraldurs kórónuveirunnar. Í Hrísey fóru hátíðarhöld þó fram með heldur óbreyttu sniði.

Guðrún Helgadóttir er 100 ára og man vel eftir fyrsta sjómannadeginum sem haldinn var árið 1938. „Þetta var yndislegur dagur, það var gott veður og það voru allir svo kátir og hlæjandi,“ sagði Guðrún Helgadóttir. „Það voru heilmikil hátíðarhöld en skal ég segja þér ég er bara farin að gleyma því. Ég man svo vel þegar ég skokkaði niður Hverfisgötuna í gula kjólnum og við vorum svo ánægð,“ sagði Guðrún. Hún var gift Helga Guðmundssyni sjómanni og man hún hve stoltur hann var af deginum. „og þá sagði hann: Nú eigum við sjómennirnir dag. Það var svolítið stolt í þessum orðum,“ sagði Guðrún. Þau Helgi Guðmundsson eignuðust sex börn. Hennar hlutverk var að sjá um heimilið á meðan hann var á sjó. „Ég var heima bara og hugsaði um börn og buru og sá um heimilið þegar maðurinn minn var úti á sjó,“ sagði Guðrún. „Hvað ætlar þú að gera í dag, í tilefni dagsins? Ekkert sérstakt. Ég er búin að borða hér fínan hádegismat. Ég veit ekkert hvort við Ellý dóttir mín spilum kannski Marías,“ sagði Guðrún. Hún óskar sjómönnum til hamingju með daginn. „Ég vil óska þeim öllum til hamingju. Nú á ég færri ættingja á sjónum en áður. Pabbi minn átti bara árabát þegar ég man fyrst eftir mér svo ég hef vaxið upp með ýmsu,“ sagði Guðrún.

 

Lesa meira...

Margrét Unnur Ólafsdóttir ráðin sem aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar í afleysingu á Hrafnistu Ísafold

 

Margrét Unnur Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar í afleysingu fyrir Rannveigu Hafsteinsdóttur sem bráðlega fer í fæðingarorlof. Margrét útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003.

Með námi vann hún á Hrafnistu Laugarási og á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Eftir útskrift vann hún á Barnaspítala Hringsins og hefur starfað á Hrafnistu Ísafold frá árinu 2013. Frá árinu 2018 hefur Margrét verið hluti af RAI-teymi Hrafnistu.

Bjóðum Margéti Unni velkomna í stjórnendahópinn.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsblaðið komið út þótt dagskrá hafi verið aflýst

 

Útgáfa Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins á Sjómannadagsblaðinu helst óslitin þótt skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn, sunnudaginn 7. júní, hafi verið aflýst í ár vegna heimsfaraldurs Covid-19. Blaðinu er dreift til viðtakenda í dag, föstudaginn 5. júní, en um er að ræða 83. árgang Sjómannadagsblaðsins. Útgáfa blaðsins hófst samhliða skipulagðri dagskrá í Reykjavík árið 1938.

„Að mati stjórnar Sjómannadagsáðs er það huggun harmi gegn að blaðið fái komið út þó svo að hátíðardagskrá falli niður í fyrsta sinn í áttatíu og þriggja ára sögu ráðsins,“ segir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs.

Í síðasta mánuði var frá því greint að dagskrá Hátíðar hafsins, sem halda átti 6. og 7. júní við Gömlu höfnina, félli niður. Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins hefur allt frá árinu 1938 gengist fyrir skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn með minningarathöfn um drukknaða sjómenn, skrúðgöngu að Dómkirkjunni, þar sem árleg sjómannamessa fer fram auk heiðrunar sjómanna.

Þá hefur Sjómannadagsráð jafnframt gengist fyrir fjölskylduhátíð á sjómannadaginn við Gömlu höfnina í Reykjavík með ýmsum leikjum og þrautum. Undanfarin sautján ár hefur sá hluti hátíðarhaldanna verið efldur með samstarfi við Faxaflóahafnir og Brim með veglegri tveggja daga hátíðarhöldum undir merki Hátíðar hafsins á gamla hafnarsvæðinu við Grandagarð. Þó svo að í ár verði ekki af hátíðinni vegna takmarkana sem nú gilda af heilbrigðisástæðum um návígi fólks eru aðstandendur hennar staðráðnir í að taka upp þráðinn á ný að ári með veglegri dagskrá á hafnarsvæðinu.

Í Sjómannadagsblaðinu í ár er að venju að finna fjölda vandaðra greina þar sem fjallað er um margvísleg málefni tengd sjósókn og fjölbreyttri starfsemi Sjómannadagsráðs. Meðal annars er rætt við Trausta Jónsson veðurfræðing um líkurnar á því að yfir landið gangi önnur hamfaraveður á borð við Básendaflóðið. Í máli hans kemur meðal annars fram að hlýnun á Íslandi hafi almennt verið í takti við þróunina annars staðar í heiminum. „Hins vegar fór að hlýna hér hraðar upp úr aldamótum en heimsþróunin segir til um. Við væntum þess að það hægi á henni og að hún komist í samræmi við heimsþróunina. Ef það gerist ekki má segja að illt sé í efni,“ segir hann.

Eins er í blaðinu rætt við Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, um þann búnað sem hér þarf að vera til staðar til að sinna eftirliti og aðstoð við sjófarendur. Fram kemur að í langtímaáætlunum Landhelgisgæslunnar sé gert ráð fyrir tveimur fullbúnum nútímalegum varðskipum á sjó, en í dag hafa Íslendingar aðeins yfir að ráða einu slíku skipi, Þór, sem kom til landsins árið 2011. Georg ræðir einnig mikilvægi alþjóðlegs samstarfs, þar á meðal vegna aukinnar skipaumferðar. Fram kemur að ólíklegt megi telja að Landhelgisgæslan muni nokkurn tímann ráða yfir búnaði til að sinna stórslysum á hafi úti ein og sér, svo sem vegna elds í skemmtiferðaskipi eða ef yrði stórt mengunarslys. „Það eru fá ríki sem hafa getu og búnað til að sinna slíkum málum ein,“ segir Georg í Sjómannadagsblaðinu. Í ritnefnd Sjómannadagsblaðsins eru Björn Finnbogason, Hjálmar Baldursson og Vilbergur Magni Óskarsson. KOM ehf., kynning og markaður, hefur umsjón með útgáfunni fyrir Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins. Ritstjóri blaðsins er Óli Kristján Ármannsson.

Sjómannadagsblaðið 2020 má nálgast á vef Sjómannadagsráðs: https://sjomannadagurinn.is/sjomannadagsbladid/

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, í síma 892-1771 og tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Um Sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð var stofnað 25. nóvember 1937. Það sinnir í dag velferðarmálum sjómanna og er jafnframt leiðandi aðili í öldrunarþjónustu á landinu. Ásamt og með dótturfélögum sínum; Hrafnistu, Naustavör, Happdrætti DAS og Laugarásbíói, veitir Sjómannadagsráð á annað þúsund manns í fimm sveitarfélögum daglega öldrunarþjónustu. Frá stofnun Sjómannadagsráðs til dagsins í dag hafa 1.329 sjómenn farist við störf sín og er sjómannadagurinn meðal annars tileinkaður minningu þeirra. Sjá nánar á www.sjomannadagsrad.is

 

 

Lesið Sjómannadagsblaðið 2020 – Smellið hér!

 

 

Lesa meira...

Hrafnista í þriðja sæti í átakinu Hjólað í vinnuna

Hrafnista hafnaði í þriðja sæti yfir fyrirtæki með 800 starfsmenn eða fleiri í átakinu, Hjólað í vinnuna sem fram fór dagana 6. – 26. maí 2020.

Oddgeir Reynisson rekstarstjóri Hrafnistu og Gígja Þórðardóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar á Hrafnistu í Laugarási, veittu verðlaununum viðtöku hjá ÍSÍ. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd voru þau hæstánægð með árangurinn, eins og við öll!

Hrafnista safnaði saman fjölda aukavinninga og voru vinningshafar dregnir út í gær. Í pottinum voru allir þeir sem skráðir voru til leiks í átakinu.

Vinningarnir samanstóðu af bíómiðum, mánaðarkortum frá World Class, dekur í Laugar Spa, aukabúnaði á reiðhjól, mittisveski, sokkum, hönskum og ennisböndum.

Eftirfarandi aðilar voru dregnir út. Vinningunum verður komið til þeirra á næstu dögum:

Alexis Mae Leonar
Anielyn Adlawan
Björg Snjólfsdóttir
Dagbjört Ingibergsdóttir
Diljá Mjöll Aronsdóttir
Diljá Rut Guðmundsdóttir
Erna Signý Daníelsdóttir
Fríða Karen Gunnarsdóttir
Guðlaug Dagmar Jónasdóttir
Guðrún Ragna Einarsdóttir
Hanna Kjartansdóttir
Jóhanna B. Guðmundsdóttir
Karen Sif Jónsdóttir
Katrín Heiða Jónsdóttir
Kristín María Autrey
Lena Sædís Kristinsdóttir
Margrét Unnur Ólafsdóttir
Maria Sosniak
Sara Pálmadóttir
Signe Reidun Skarsbö
Sigríður Inga Eysteinsdóttir
Sigrún Skarphéðinsdóttir
Svanhildur Ósk Halldórsdóttir
Svanhvít Guðmundsdóttir
Urður Ýr Þorsteinsdóttir

 

Lesa meira...

Dagdvölin Röst vígð við Sléttuveg

 

Í dag, þriðjudaginn 26. maí, vígði borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, formlega nýja og glæsilega dagdvöl hjúkrunarheimilis Hrafnistu við Sléttuveg í Fossvogi. Hjá Röst, eins og dagdvölin heitir, er heimild fyrir þrjátíu rýmum dag hvern og geta alls um sextíu sjálfstætt búandi einstaklingar í borginni nýtt sér þjónustuna þar nokkra daga í viku.

Hlutverk Rastar er að gera einstaklingum, sextíu ára eða eldri, kleift að búa lengur á eigin vegum með því að bjóða þeim að sækja þangað þjónustu sem hefur það að meginmarkmiði að auka lífsgæði með því að viðhalda og efla færni þeirra til sjálfsbjargar, en ekki síður að koma í veg fyrir eða rjúfa félagslega einangrun.

Starfsemi Rastar hófst fyrr í mánuðinum og þar geta gestir meðal annars nýtt sér aðstöðu í matsal þjónustumiðstöðvar Sléttunnar auk félagsstarfs og ýmissa viðburða sem þar fara reglulega fram. Dagdvalargestir hafa einnig greiðan aðgang að annarri þjónustu á Sléttunni, svo sem þjónustu verslunar, hárgreiðslustofu, fótaaðgerðastofu og fyrirhugaðrar líkamsræktarstöðvar sem tekur til starfa síðar í sumar.

Nánari upplýsingar veitir Bryndís Rut Logadóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri Dagdvalar Hrafnistu við Sléttuveg, í síma 6939593, netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag við athöfnina. 

Lesa meira...

Ragnhildur Árnadóttir íbúi á Hrafnistu í Laugarási fagnar 100 ára afmæli sínu í dag

 

Ragnhildur Árnadóttir býr á Hrafnistu í Laugarási og fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Við á Hrafnistu færum henni hjartans hamingjuóskir í tilefni dagsins.

 

Viðtal við Ragnhildi birtist í Morgunblaðinu í dag - Ragnhildur Árnadóttir sér fram á bjartari tíð.

 

Ragnhildur Árnadóttir sér fram á bjartari tíð. Heldur upp á 100 ára afmælið innilokuð vegna veirunnar.

„Þetta fer allt að lagast,“ segir Ragnhildur Árnadóttir, sem er 100 ára í dag. Hún býr á Hrafnistu í Reykjavík og vegna kórónuveirunnar hefur hún verið innilokuð á sinni hæð og heimsóknir takmarkaðar. En hún sér fram á bjartari tíð. „Þetta fer að lagast,“ segir hún.

„Boðið verður upp á kaffi og rjómatertu í tilefni dagsins,“ heldur afmælisbarnið áfram og segir að sonurinn Oddur Garðarsson flugvirki og tengdadóttirin séu væntanleg. „Oddur og Racel, kona hans, fá að koma en ég á ekki von á öðrum vegna flensunnar.“

Ragnhildur fæddist á Njálsgötu í Reykjavík en síðan flutti fjölskyldan upp í Þverholt, þar sem faðir hennar keypti hús. „Þverholtið þótti vera uppi í sveit,“ rifjar hún upp.

Ýmis minningarbrot koma upp í hugann og Ragnhildur segist hafa upplifað margt en lífið hafi gengið sinn gang, rétt eins og hjá öðrum. Hún hafi því enga sérstaka sögu að segja. „En Reykjavík hefur breyst mikið síðan ég ólst upp, var að leika mér, passaði krakka, fór í skóla og vinnu.“

Eftir tveggja ára nám í Ingimarsskóla að loknu barnaskólanámi fór Ragnhildur að vinna í Mjólkursamsölunni. Eiginmaður hennar, Garðar Ólafsson tannlæknir, sem andaðist 1978, fór í nám til Bandaríkjanna og bjuggu þau í Portland í fjögur ár. „Þegar við komum til baka var ekki hægt að fá gjaldeyri til að kaupa nauðsynleg tæki í tannlæknastofuna nema hún væri á Selfossi eða í Keflavík. Við vorum næstum því flutt út aftur en ákváðum síðan að setjast að í Keflavík. Þar var prýðilegt að vera og mér þykir vænt um Keflavík.“

Hjónin ferðuðust mikið á meðan, en Ragnhildur segir lítið um að vera um þessar mundir. „Ég hef lesið mikið, fræðibækur og fleira, en það er lítið hægt að gera annað en lesa svona innilokuð.“

Langlífi er þekkt í fjölskyldunni. „Mömmu vantaði bara þrjá mánuði upp á 100 árin,“ segir Ragnhildur, en foreldrar hennar voru Branddís Guðmundsdóttir, sem varð 99 ára, og Árni Jónsson verkamaður, sem varð 95 ára. Ragnhildur er yngst fjögurra systra og varð ein þeirra 94 ára. „Ég tóri enn og má þakka fyrir það,“ segir Ragnhildur.

 

Lesa meira...

Árangur hjúkrunarheimila á Íslandi í baráttunni við COVID

 

Í Fréttablaðinu í dag fjallar Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, um þann árangur sem náðst hefur á hjúkrunarheimilum á Íslandi í baráttunni við COVID.

Umfjöllun í Fréttablaðinu: Árangur hjúkrunarheimila á Íslandi í baráttunni við COVID

Það má með sanni segja að okkur hafi tekist vel á Íslandi að glíma við þennan vágest sem kórónu­veiran er og er það eftirtektarvert í samanburði við önnur lönd heimsins. Yfirvöld eiga hrós skilið með þríeykið í fararbroddi frá upphafi sem hefur leiðbeint með stuðningi fagfólks, yfirvegun og góðri daglegri upplýsingagjöf. Okkur tókst það sem stefnt var að, að draga sem mest var mögulegt úr smiti, fjöldanum og sinna þeim veiku með beinum og nýstárlegri hætti en áður hefur þekkst með COVID-göngudeild Landspítala. Heilsugæsla og Læknavakt unnu samræmt sem einn maður að uppvinnslu og sýnatöku auk hins mikla stuðnings sem fékkst frá Íslenskri erfðagreiningu og almannavörnum í viðbragði við faraldrinum. Þannig var stefnan að verja heilbrigðiskerfið fyrir ofálagi, og okkur hin, en einna mest þá sem veikastir voru fyrir. Þjóðin brást við og hlýddi Víði og félögum með mjög góðum árangri.

Á hjúkrunarheimilum var tekin sú ákvörðun snemma í faraldrinum líkt og á Landspítala og víðar að loka fyrir heimsóknir, slíkt hefur aldrei gerst áður í sögunni með þeim hætti og sætti talsverðri gagnrýni. Það var ekki það eina sem var gert heldur voru teknir upp verkferlar varðandi aðföng og innkaup, hólfun eininga og aðskilnaður innan hvers húss var skipulagður í þaula. Starfsmenn voru fræddir og þjálfaðir til meðvitundar um þá áhættu sem þeir sem slíkir báru með sér væru þeir smitaðir. Verulega var hert á skoðunum og uppvinnslu þeirra sem voru með minnstu einkenni og starfsmenn héldu sig heima þar til niðurstaða fékkst úr skimprófi fyrir veiru. Samstarf við Heilsugæslu og Læknavakt var mikið og framlínustarfsmenn hvort heldur sem voru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkra-/iðjuþjálfar, starfsfólk í aðhlynningu, eldhúsi, þrifum, húsverðir sem og læknar voru á tánum að verja hina veikustu. Árangurinn er að mínu mati heimsmet á þessum viðsjárverðu tímum þar sem flest lönd í kringum okkur hafa misst hvað flesta einstaklinga sem einmitt eru íbúar hjúkrunar- og dvalarrýma. Tölurnar eru ógnvekjandi þegar horft er til mismunandi landa í þessum hópum.

Það er mikilsvert að hrósa þeim sem það eiga skilið, það hefur vissulega farið mest fyrir umræðunni um hversu margir eru veikir í samfélaginu, liggja á spítala og gjörgæslu og í hvaða átt faraldurinn var og er að þróast, sem er eðlilegt. Heilbrigðisþjónustan hefur staðið sig með mikill prýði og verður áhugavert að sjá uppgjör að leikslokum, sumpart var mikið álag, annars staðar minna en í venjulegu árferði. Við höfum séð minna af ýmsum vanda eins og pestum, kvefi, flensu og slíku sem alla jafna fer vítt og breitt í samfélaginu. Á hjúkrunarheimilum höfum við orðið áþreifanlega vör við mun minni tíðni sýkinga en áður, en það á eftir að taka saman endanleg gögn og birta þar um.

Ég vil hrósa sérstaklega, og alls ekki gleyma, þeim hópi sem stóð vaktina með bravúr á hjúkrunarheimilum, allir sem einn um landið allt. Hrósa því hvernig hópurinn vann saman að bæði lokun heimsókna, nálgun á vinnu og ferla sína, erfiða umönnun í krefjandi kringumstæðum, stóð í fæturnar þrátt fyrir gagnrýni og gekk í málið með það að leiðarljósi að vernda íbúa sína, foreldra ykkar, ömmur og afa, bræður, systur, frænkur og frændur. Fólkið sem byggði þetta land og á allt gott skilið var verndað og þann undraverða árangur sem náðist ber mikið að þakka starfsfólki hjúkrunarheimila.

Hann er einsdæmi í heiminum nánast hvar sem við berum niður. Takk fyrir!

 

 

Lesa meira...

Síða 45 af 175

Til baka takki