Fréttasafn

Kvennahlaup ÍSÍ á Hrafnistuheimilunum

 

Undanfarnar vikur hefur Kvennahlaup ÍSÍ farið fram á Hrafnistuheimilinum líkt og mörg undanfarin ár. Á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ fór kvennahlaupið fram fimmtudaginn 11. júní. Þá ætluðu íbúar og starfsfólk að ganga hringinn í kringum Nesvelli sem þeirra framlag í kvennahlaupinu og vonuðust að sjálfsögðu eftir góðu og skaplegu veðri. Það varð það því miður ekki svo heldur ringdi í Reykjanesbænum þennan dag og því var brugðið á það ráð að fara í göngutúr innan dyra. Um 25 íbúar tóku þátt að þessu sinni og til stendur að halda áfram göngu utandyra í sumar þegar vel viðrar.  

Á Hrafnistu Skógarbæ fór kvennahlaupið fram mánudaginn 15. júní. Gengið var hringinn í kringum Skógarbæ eða samtals 900 metra og tóku 25 íbúar þátt í göngunni. Eftir gönguna var boðið upp á hressingu.  

Kvennréttindadaginn 19. júní fór kvennahlaupið fram á Hrafnistu í Laugarási, Hlévangi Reykjanesbæ og Ísafold í Garðabæ.

Í Laugarási var kvennahlaupinu fléttað saman við sumargleði í garðinum. Þrátt fyrir að sólin væri eitthvað hlédræg lét heimilisfólk engan bilbug á sér finna og margir mættu í hlaupið. Kokkarnir sáu svo um að grilla pylsur ofan í mannskapinn og sumargleði ríkti meðal íbúa og starfsmana.

Á Hlévangi í Reykjanesbæ var genginn hringur frá Hlévangi, um Ásabrautina og til baka á Hlévang. Hópurinn gekk framhjá fallegum garði á Ásabrautinni og allir nutu þess að skoða fallegu sumarblómin. Í lokin var öllum boðið upp á ís.

Á Ísafold í Garðabæ tók hópur fólks þátt í kvennahlaupinu og nutu góðrar útiveru og samveru. Í lokin var svo boðið upp á hollar veitingar.

 

Lesa meira...

Guðrún María Helgadóttir 20 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Sigurður, Sólborg, Guðrún og Árdís Hulda.

 

Guðrún María Helgadóttir, sjúkraliði á Báruhrauni Hrafnistu Hraunvangi, hefur starfað á Hrafnistu í 20 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Sigurður Garðarsson framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, Sólborg Tryggvadóttir aðstoðardeildarstjóri á Báruhrauni, Guðrún María og Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi. 

 

Lesa meira...

Tónleikar á 17. júní

 

Á 17. júní héldu Stefán Helgi óperusöngvari og Helgi Már píanóleikari tónleika á Hrafnistu Hraunvangi og á Hrafnistu Sléttuvegi héldu Böddi Reynis og Kristina Bærendsen tónleika á kaffihúsi Sléttunnar. Báðir tónleikarnir vöktu mikinn fögnuð með viðstaddra. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna. 

 

Lesa meira...

Sjómannadagurinn 2020 á Hrafnistuheimilunum

Dvalarheimili aldraðra sjómanna (D.A.S.) Hrafnista tók til starfa í Reykjavík á Sjómannadaginn 2. júní 1957. Tveimur áratugum síðar, á Sjómannadaginn 5. júní 1977, hóf Hrafnista í Hafnarfirði sína starfsemi. Heimilin eru bæði í eigu Sjómannadagsráðs.
Við á Hrafnistu höldum því ætíð hátíðlega upp á Sjómannadaginn en í ár var hann haldinn með breyttu sniði því ekki var opið hús eins og venja hefur verið í gegnum tíðina út af samkomu takmörkunum. Hrafnistuheimilin voru samt sem áður í skeytt í fullum hátíðarskrúða í tilefni dagsins. 

Á Hrafnistu í Laugarási lék Lúðrasveit Reykjavíkur út í garði, hátíðarmessa fór fram og harmonikkuleikur hljómaði um húsið. Gestir og heimilisfólk nutu sín við veisluföng og ljúfan dag.

Dagurinn á Hrafnistu Hraunvangi hófst á því að Lúðrasveit Hafnafjarðar spilaði á bílaplaninu fyrir utan. Því næst var hátíðarhelgistund í Menningarsalnum. Silfursveiflan kom kl. 14.30 og spilaði dásamlega fallega í Menningarsalnum við góðar undirtektir. Harmonikkuleikarar úr DASbandinu fóru upp á hæðir og spiluðu á meðan á hátíðarkaffi stóð þar sem boðið var upp á brauðtertu, marengstertu og kleinur. Og síðast en alls ekki síst var bíósýning í Menningarsalnum um sjómannadag síðustu ára í Hafnarfjarðabæ.

Á Hrafnistu í Boðaþingi var haldið upp á daginn með stuðboltunum okkar, Svenna og Hjördísi Geirs. Það var sungið, dansað og hlegi

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Nesvöllum og Hlévangi. Hátíðar helgistund var í umsjón Brynju Vigdísar og hluti af kirkjukór Njarðvíkurkirkju kom með og söng nokkur lög. Bandið Heiður kom og var með tónlistarskemmtun á hverri hæð og spilaði og söng og hélt uppi góðri stemningu fyrir íbúa og starfsmenn.

Á Hrafnistu Sléttuvegi hélt KK uppi stuðinu með skemmtilegum tónleikum við mikinn fögnuð viðstaddra.

Í hádeginu var boðið upp á dýrindis kótilettur og ís í eftirrétt. Við þökkum öllum þeim sem komu að því að gera daginn litríkan og skemmtilegan.

 

Lesa meira...

Barnakór Vídalínskirkju í heimsókn á Hrafnistu

 

Barnakór Vídalínskirkju söng fyrir íbúa og starfsfólk á Hrafnistu í Hraunvangi í Hafnarfirði og á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ þann 16. júní. Börnin sungu dásamlega og lagavalið var skemmtilegt. Þau Jóhanna Guðrún og Davíð leiddu kórinn og í lokin söng Jóhanna „Heyr mína bæn“ og vakti það mikla ánægju meðal áhorfenda. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.

 

 

Lesa meira...

Kartöflurækt, sumrablóm og listsköpun á Hrafnistu

 

Lífið er farið að ganga sinn vanagang á Hrafnistu. Söngstundir og útivist eru daglegir viðburðir og listahópur, tálgun og æfingasalur fastir liðir. Kartöflur voru settar niður á Hrafnistu í Boðaþingi óvenju seint í ár og veðrið lék ekki beint við kartöfluræktendur. Lundin var hins vegar létt og handbragðið gott.

Á Nesvöllum og á Hlévangi hafa íbúar og starfsólk plantað sumarblómum og eins nýttu íbúar í Skógarbæ tækifærið í blíðviðrinu um daginn og settu niður sumarblómin hjá sér. 

Á Hrafnistu Hraunvangi er listahópurinn kominn á fullt í að sinna sínum verkefnum í listinni.

 

Lesa meira...

Tónlistarfólk tíðir gestir á Hrafnistuheimilunum

 

Við á Hrafnistu erum svo lánsöm að reglulega kíkir til okkar tónlistarfólk sem léttir okkur lund. Á dögunum söng Valdimar Guðmundsson ásamt Erni Eldjárn nokkur hugljúf lög fyrir íbúa og starfsfólk á Hrafnistu í Boðaþingi. Einn íbúi okkar sagði frá því að hún væri búin að vera aðdáandi Valdimars lengi en átti ekki von á því að ná tónleikum hjá honum héðan af! Það er ekki slæmt að ná að uppfylla drauma á hvunndags eftirmiðdegi. Við þökkum þeim Valdimar og Erni kærlega fyrir komuna og tónlistarflutninginn.

Á Hrafnistu í Reykjanesbæ kíkti bandið Heiður í heimsókn og Bragi Fannar kom við og lék á nikkuna af sinni alkunnu snilld. Kærar þakkir fyrir ykkar framlag við að gleðja íbúa og starfsfólk Hrafnistu.

 

Valdimar og Örn syngja fyrir íbúa og starfsfólk á Hrafnistu í Boðaþingi

Bandið Heiður í heimsókn á Hrafnistu Nesvöllum og Hlévangi í Reykjanesbæ 

Lesa meira...

Nýr mannauðsstjóri Hrafnistuheimilanna

 

Jakobína H. Árnadóttir hefur verið ráðin í starf mannauðsstjóra Hrafnistuheimilanna og mun hún hefja störf um miðjan ágúst. Jakobína er með BA gráðu í sálfræði, meistaragráðu í heilsusálfræði ásamt diplóma í mannauðsstjórnun.

Jakobína hefur víðtæka reynslu af mannauðsmálum og stjórnun. Hún starfaði m.a. sem mannauðsstjóri Fjármálaeftirlitsins og sem sviðsstjóri og ráðgjafi hjá Capacent með áherslu á mannauðsmál. Hún hefur jafnframt sinnt kennslu á sviði vinnuheilsusálfræði.

Við hlökkum til að vinna með Jakobínu og bjóðum hana hjartanlega velkomna í fjöruga hópinn hér á Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Síða 44 af 175

Til baka takki