Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 7. apríl 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 7. apríl 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

Páskaeggin komin í hús

Þessa dagana eru að berast í hús á Hrafnistuheimilunum páskaegg. Eins og þið kannski munið hefur starfsfólk NóaSírus framleitt árlega um 2.500 gullegg fyrir Hrafnistuheimilin, með okkar eigin málsháttum.

Því miður hefur svona sérþjónustu verið hætt og því verða ekki sérstök Hrafnistu egg í boði þetta árið.

Það þarf þó enginn að örvænta, því við höfum pantað heljarinnar ósköp af hefðbundnum eggjum til okkar. Hugmyndin með þessu er að allir í Hrafnstusamfélaginu (starfsfólk, heimilisfólk og góðvinir) fá eitt egg í tilefni páskahátíðarinnar. Vísvitandi er ekkert sælgæti inn í eggjunum heldur einungis hugmyndin að virkja þann skemmtilega páskasið að fólk fái smá súkkulaði og sinn páskamálshátt, til hátíðarbrigða.

Eggjunum verður dreift á næstunni og við treystum því að allir leggi sitt að mörkum og að þau verði kláruð fyrr en síðar!

Páskarnir verða annars með hefðbundnu sniði og eftir helgina verður gefin út páskadagskrá Hrafnistu með helstu viðburðum og hátíðarmáltíðum.

Hrafnsitubréfið að koma út

Á næstu dögum berst okkur í hús nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Eins og þið sjálfsagt munið kemur það út tvisvar á ári í um tvöþúsund eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl. Smá breyting verður á blaðinu núna, það er bæði í stærra broti en verið hefur og heldur efnismeira vegna afmælisársins. Vonandi mælast breytingarnar vel fyrir.

Ég bið ykkur að dreifa því fljótt og vel til heimilisfólks þegar það berst inn á deildir til ykkar. Sjálfsagt er líka að leyfa því að liggja frammi í öllum setustofum annars staðar þar sem fólk kemur saman. Ef ykkur vantar aukaeintök er ykkur velkomið að snúa ykkur til Huldu S. Helgadóttur.

Merkilegt starfsafmæli – Dísa í 50 ár!

Á dögunum var merkisatburður í sögu Hrafnistuheimilanna en þá kvöddum við „Dísu í borðsalnum“ á Hrafnistu í Reykjavík, sem um leið er fyrsti starfsmaðurinn í 60 ára sögu Hrafnistuheimilanna, sem nær því að hafa starfað hjá fyrirtækinu í 50 ár! Þetta er auðvitað ótrúlega sjaldgæft en á næstunni mun annar starfsmaður Hrafnistu ná þessu áfanga. Sennilega mun það hins vegar aldrei gerast aftur enda eru það örfáar undantekningar í samfélaginu núorðið að einhver vinni allan sinn starfsaldur hjá sama fyrirtæki.

Í tilefni tímamótanna var Dísu haldin mikil veisla. Hún fékk 350.000 kr ferðainneign hjá ÚrvalÚtsýn í tilefni 50 ára starfsafmælisins, kveðjugjafir og Jóhannes Kristjánsson skemmtikratur kom og kitlaði hláturtaugar viðstraddra meðan tertum, snittum, kaffi og einhverju sterkara var skolað niður. Dísa byrjaði á Hrafnistu 18 ára gömul árið 1967 og kveður nú Hrafnistu eftir fjölbreyttan og merkan feril - Takk kærlega fyrir samstarfið Dísa.

Gleðilega páska!

Það styttist til páska.

Ég vil bara nota tækifærið og óska ykkur og fjölskyldum ykkar góðra og gleðilegra páskahátíðar. Ég vona að þið náið öll að eiga góðar stundir, hvort sem þið eruð á vöktum eða fáið kærkomið frí.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 1 af 92

Til baka takki