Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 16. desember 2022 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

Lesa meira...

Föstudagsmolar í formi jólakveðju til ykkar

Jólin eru á „morgun“

Jólin hafa komið svolítið aftan að mér þetta árið og ég kenni snjóleysinu um það. Það er ekki þannig að ég sakni þess að skafa bunka af snjó af bílnum á hverjum morgni eða blotna í fætur í slabbinu, heldur sakna ég jólabúningsins sem snjórinn setur okkar umhverfi í og gerir allt jólalegt. Jólin koma samt, ótrúlegt en satt, jafnvel þótt þau komi aftan að mér og sparki í rassinn á mér.

Framtíðarsýn okkar og gildin – hvar erum við stödd í þeirri vegferð okkar

Við höfum öll lagt okkar fram árið 2022 við að gera framtíðarsýn okkar að veruleika og vinna eftir gildunum okkar. Mig langar því að rifja aðeins upp með ykkur hvar við erum stödd og segja ykkur hvað ég sé.

Til upprifjunar, þá hljómar framtíðarsýn Hrafnistu svona:

Árið er 2026

Hrafnista hefur fengið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum og umræðu meðal almennings á Íslandi fyrir að vera sannarlega í fararbroddi í þjónustu við aldraða. Orð eins og umbylting og virkilega jákvæð upplifun eru notuð. Heimilisfólk, aðrir þjónustuþegar og aðstandendur keppast við að hæla stjórnendum og starfsfólki Hrafnistu fyrir það umhverfi og þjónustu sem þar er veitt. Viðskiptavinir tala sérstaklega um það góða viðmót sem þeir mættu sem átti stóran þátt í að skapa öryggi, traust og vellíðan. Þrátt fyrir að þetta tímabil hafi oft og tíðum verið erfitt fjölskyldunni allri, þá er einhver glampi í augum þessara viðskiptavina þegar þau segja frá upplifun sinni, eitthvað djúpt þakklæti fyrir að hafa verið gefið færi á góðri upplifun í erfiðum aðstæðum – að finna að þau skiptu máli – enda um að ræða hluti sem snerta líf og hjarta fólksins sem um ræðir.

Síðast í þessari viku stöðvaði aðstandandi mig á ganginum til að upplýsa mig um hvað við á Hrafnistu eigum sérstakt starfsfólk, það sé alltaf stutt í brosið og einlægnina, og að þetta sé bara alls ekki sjálfgefið. Viðbrögðin sem viðkomandi aðstandandi var að fá frá starfsfólkinu var að þeim þótt fólkið svo gott í kringum þau sem nutu þess að gleðja eldra fólkið okkar. Glöggt er gests augað. Þessi viðbrögð frá aðstandendum er ég að heyra aftur og aftur.

Einnig sýnir þjónustukönnunin sem var gerð í sumar að 90% íbúanna og 80% aðstandenda eru ánægðir með aðbúnað og  þjónustu.

Ef þið flettið aftur upp og rennið yfir framtíðarsýn okkar og berið saman við viðbrögðin sem ég er að fá og niðurstöður þjónustukönnunarinnar þá sjáið þið árangur eins og verðskuldaða athygli, ífararbroddi í þjónustu við aldraða, jákvæð upplifun, keppst um að hæla starfsfólki og stjórnendum, góða viðmótið sem átti stóran þátt í að skapa öryggi, traust og vellíðan, finna að þau skiptu máli og allt þetta snertir líf og hjarta fólksins sem um ræðir.

Það er klárt mál að þessi árangur snertir hjartað í mér og ég er svo stolt að fá að vinna ykkur við hlið og tek hatt minn ofan fyrir ykkur.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og þakka ykkur fyrir árangursríkt og gleðilegt ár. Höldum áfram að taka okkur ekki of alvarlega og ég hlakka til að halda áfram vegferð okkar á nýju ári, 2023

Eigið dásamleg jól og áramót hvar sem þið eruð stödd í veröldinni.

 

Bestu kveðjur,

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

Lesa meira...

Síða 8 af 330

Til baka takki