Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 3. ágúst 2018 - Gestaskrifari Nanna G. Sigurðardóttir

Lesa meira...
Gestaskrifari: Nanna Guðný Sigurðardóttir gæðastjóri Hrafnistuheimilanna
Föstudaginn 3. ágúst 2018.
 
Á þessum tíma árs, þegar hyllir undir lok sumars og byrjun haustsins, þá hugsa margir með sér að ágætt væri nú að skipuleggja svolítið komandi mánuði þar sem haustið stendur í hugum margra fyrir nýrri byrjun rétt eins og um áramót. Flestir eru þá vonandi að koma endurnærðir til vinnu eftir sumarfrí og langar til að setja sér markmið fyrir komandi mánuði og mörgum líður best þegar þeir hafa eitthvað til að stefna á, hvort sem er í vinnu eða í einkalífi. Til eru margar aðferðir til þess að hjálpa fólki við að setja sér markmið og hægt er að lesa sér til um þær á veraldarvefnum. En mig langaði að setja niður á blað nokkur orð sem gætu aðstoðað þig við að setja þér markmið fyrir komandi mánuði. 
 
Í fyrsta lagi er mikilvægt að þú setjir þér skýrt markmið, þá er átt við að markmiðið sé þér mikilvægt og það þarf líka að vera skynsamlegt. Annars er hætta á að þú náir ekki að einbeita þér að því eða að markmiðið veiti þér ekki næga hvatningu til að ná því. Í öðru lagi þarf markmiðið að vera mælanlegt, með því er átt við að auðvelt sé að mæla það hvort þú sért að ná markmiðinu eða ekki og það hjálpar þér enn frekar við að einbeita þér að markmiðinu og það virkar einnig hvetjandi fyrir þig. Í þriðja lagi þarf markmiðið að vera raunhæft og það þarf að vera hægt að ná því. Það má ekki vera svo óraunhæft að þú getir ekki með nokkru móti náð því, því þá gefumst við fljótlega upp á því. Í fjórða lagi þarf markmiðið að vera viðeigandi fyrir þig og hugsanlega tengist þetta markmið öðrum markmiðum sem þú hefur. Að lokum þarf markmiðið að vera með einhver tímamörk, þ.e. að þú ætlir þér að ná þessu markmiði fyrir einhvern ákveðinn tíma. Það eru meiri líkur á að þú náir markmiðinu ef þú setur þér einhver raunhæf tímamörk til þess að ná því. 
 
Nú er bara að hefjast handa og láta hugann reika um það hvaða markmið þú vilt setja þér fyrir komandi mánuði.
 
Gangi þér vel!
 
 
 

Síða 183 af 330

Til baka takki