Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 4. maí 2018 - Gestaskrifari er Harpa Björgvinsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu Hafnarfirði

Þann 5. apríl s.l. var haldið hér á Hrafnistu í Hafnarfirði málþing um iðjuþjálfun í öldrun sem við gáfum nafnið „Listin að lifa“ og mun það hafa verið það fyrsta um þennan málaflokk hér á landi. Við sem stóðum að undirbúningnum erum afar sátt við útkomuna og viðtökurnar sem það fékk, en um 100 manns úr hinum ýmsu fagstéttum innan heilbrigðisgeirans mættu á málþingið. Fjölbreytt erindi voru flutt þennan dag og má þar nefna erindi Magneu Tómasdóttur söngkonu og tónlistarkennara um tónlist sem farveg samskipta og erindi Fanneyjar iðjuþjálfa á Ási í Hveragerði sem kynnti fyrir okkur Lífsneistann í Ási og hvernig sólskinsklúbbarnir hafa hitt í mark í þjálfun með þeirra heimilismönnum. Valgý Eiríksdóttir, iðjuþjálfi á Eir kynnti áhugaverðan fyrirlestur um þjónandi leiðsögn og Svanborg Guðmundsdóttir, iðjuþjálfi á Hrafnistu í Boðaþingi kynnti fyrir hópnum faghóp iðjuþjálfa í öldrun.

Erla Dürr, Sara Pálmadóttir og undirrituð ræddu svo um sýndarveruleika og skynörvun og mig langar svolítið að segja ykkur í nokkrum orðum frá okkar sýn á þessum meðferðarformum og hvernig við sjáum að þau gætu orðið til góða með öldruðum.

Við heilabilun skerðist hæfileiki miðtaugakerfisins til að vinna úr upplýsingum frá skynfærunum og getur það meðal annars haft áhrif á getuna hjá einstaklingnum til að tjá sig með orðum, á minni hans og vitsmunalega færni. En þrátt fyrir þessa breytingu á skynúrvinnslu þá hættir fólk ekki að upplifa tilfinningar; gleði, hræðslu, sorg o.s.frv. og oft á tíðum er meiri þörf á örvun til að einstaklingurinn fái „útrás“ fyrir sínar tilfinningar, langanir og þarfir þar sem hann hefur ekki lengur getuna til að framkvæma þá örvun sjálfur.

Það hefur sýnt sig að skynörvun með einstaklingum með heilabilun getur haft góð áhrif til að ýta undir vellíðan og slökun meðal annars vegna þess að með þessu meðferðarformi eru ekki gerðar neinar kröfur um vitræna færni. Með skynörvun sem reglulegt meðferðarúrræði er hægt að auka færni einstaklingsins við hreyfingar og úrvinnslu upplýsinga, auka einbeitingu og sjálfsvitund, auka félags- og samskiptahæfni, örva taugakerfið, veita möguleika á tengslum, hlýju og nærveru og það getur dregið úr spennu svo fátt eitt sé nefnt. Ef unnið er vel með skynörvunina hjá einstaklingnum skilar það sér í betri líðan hjá honum sem þýðir að umönnun verður auðveldari og er það von okkar að  þörfin fyrir róandi lyfjum fari minnkandi í framhaldinu.

Iðjuþjálfar Hrafnistuheimilanna hafa verið að auka það undanfarin ár að veita þjálfanir í gegnum skynörvun og er mikill vilji meðal starfstéttarinnar að bæta þar í og auka þá þjónustu til muna með auknum tækjabúnaði og meiri þekkingu. En til þess að svona meðferðarúrræði gagnist okkar heimilisfólki sem best þurfa allir sem sinna einstaklingnum að geta komið þar að svo að útkoman verði sem best. Fræðsla til starfsfólks og aðstandenda vegur þar þungt svo hægt sé að veita meðferðina á öllum tímum sólarhringsins, alla daga ársins ef svo ber undir en ekki aðeins á vinnutíma iðjuþjálfans.  Sem dæmi um hvaða skynörvunaraðferðir við höfum notast við hingað til má nefna tónlistina, ilmolíumeðferð, nudd, endurminningahópa, hundaheimsóknir, kúlusængur og önnur hjálpartæki, sýndarveruleika með þar til gerðum gleraugum, garðyrkjuhópa og dúkkumeðferðir. Við sjáum fyrir okkur að geta aukið þjónustuna t.d. með skynörvunarherbergi eða þar til gerðum skynörvunarvagni sem hægt er að fara með á milli hæða og inn á herbergi til heimilismannsins. Það er mitt álit að á stórum heimilum eins og Hrafnistu í Hafnarfirði og Reykjavík myndi slíkur vagn reynast okkar fólki betur en herbergi staðsett á einni hæð þar sem við viljum geta fært þjónustuna nær fólkinu okkar og spara þannig þeirra orku að fara langar leiðir til að fá þjálfun. En þetta er dýrt úrræði og kannski fjarlægur draumur á þessari stundu en koma tímar – koma ráð ?

Fyrir áhugasama læt ég hér í lokin fylgja með tvo linka á nýlegar rannsóknir sem snúa að meðferðum án lyfja fyrir einstaklinga með heilabilun. Eigið góðar (skynörvandi) stundir um helgina ?

https://academic.oup.com/gerontologist/article/58/suppl_1/S88/4816740

https://www.intechopen.com/books/update-on-dementia/non-pharmacological-approaches-in-the-treatment-of-dementia

 

Bestu kveðjur,

Harpa Björgvinsdóttir

deildarstjóri iðjuþjálfunar Hrafnistu í Hafnarfirði

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur