Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 22. júní 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 22. júní 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk,

 

Yfir 30% vantar í daggjöld dagdvala

Dagdvalir eru mikilvægur valkostur í þjónustu við aldraða sem stuðlað geta að lengri dvöl þeirra á eigin heimili. Þjónusta dagdvala er veitt af sveitarfélögum, hjúkrunarheimilum og félagasamtökum og eru rýmin ætluð einstaklingum 67 ára og eldri, en einnig í sértækum tilvikum yngri einstaklinga eða ákveðnum hópum. Þeir sem sækja þjónustuna koma að morgni og fara heim aftur síðdegis, ýmist daglega eða tiltekna daga í viku. Í dagdvölum er lögð áhersla á að efla líkamlega og andlega færni ásamt því að rjúfa félagslega einangrun sem margir á efri árum byrja að finna fyrir.

Mikilvægi þjónustunnar sem veitt er í dagdvölum er óumdeilt því auk þess að bæta lífsgæði og færni í gefandi félagsskap með öðrum geta dagdvalir í mörgum tilvikum líka dregið úr tíðni innlagna á sjúkrahús. Má því sannarlega segja að þjónustan hafi mikið forvarnargildi sem viðhaldi heilsu að ákveðnu marki og geri öldruðum kleift að búa lengur á eigin heimili. Í árslok 2016 voru samkvæmt tölum Sjúkratrygginga Íslands, heimildir fyrir 733 dagdvalarrýmum á landinu.

 

Samningaviðræður

Í byrjun þessa árs hófust samningaviðræður milli Sjúkratrygginga Íslands, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands íslenskra sveitarfélaga um nauðsynlega skilmála í rammasamningi fyrir þá þjónustu sem veitt er í dagdvalarrýmum. Nú þegar hafa velferðarráðuneytið og Sjúkratryggingar lagt fram drög að þjónustukröfum (kröfulýsingu) fyrir dagdvalarrými og er gengið út frá því að hægt verði að vinna með þær kröfur við samningaborðið.

 

Áherslur þjónustuaðila

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa um langt árabil gert þá kröfu til hins opinbera að ríkið greiði eðlilegt og sanngjarnt verð fyrir þá þjónustu sem ríkisvaldið kaupir með því að fela öðrum að inna þjónustuna af hendi fyrir sína hönd. Dagdvalir eru á meðal þjónustuþátta þar sem ríkið reiðir sig á sveitarfélög, hjúkrunarheimili og félagasamtök. Samtökin leggja áherslu á að til grundvallar ákvörðunar um eðlilegt endurgjald þurfi að liggja fagleg kostnaðargreining á þeim kröfum sem ríkisvaldið gerir til þjónustunnar. Þess vegna hafa samtökin ávallt og ítrekað lagt til að samningsaðilar fælu óháðum aðila að framkvæma slíka kostnaðargreiningu. Þeirri málaleitan hefur ríkisvaldið, því miður, ávallt hafnað fyrir sitt leyti. Á endanum tók stjórn Hrafnistu af skarið og fól ráðgjafafyrirtækinu Nolta að taka að sér verkefnið og framkvæma slíka kostnaðargreiningu á sinn reikning.

 

Greining Nolta

Í meginatriðum er niðurstaða skýrslu Nolta sú að til þess að unnt sé að veita þá þjónustu í almennu dagdvalarrými sem ríkið gerir kröfu um samkvæmt eigin kröfulýsingu þurfi fjárframlög ríkisins að hækka um á bilinu 30-40%. Greining Nolta byggir á upplýsingum frá sex þjónustuaðilum dagdvala á landinu til þess að fá eins raunsanna mynd af rekstrinum og unnt er. Tekin voru dæmi af 8 rýma einingu og 30 rýma einingu og miðað við 100% nýtingu plássa. Niðurstöðurnar gefa jafnframt til kynna að verulegur munur sé á rekstrarhagkvæmni þessara tveggja eininga. Þannig gefur skýrslan til kynna að 30 rýma einingarnar séu hagkvæmastar í rekstri enda þótt þar vanti um 30% hærri fjárframlög frá ríkinu til að veita þá þjónustu sem fram kemur í kröfulýsingu ríkisins. Jafnframt sýnir skýrslan að minni rekstrareiningarnar, sem flestar eru á landsbyggðinni, þurfi 40% meiri fjárframlög ofan á grunndaggjaldið sem ríkið greiðir í dag.

 

Krafa um raunverð

Skýrsla Nolta var kynnt fulltrúum Sjúkratrygginga í lok mars. Síðan þá hafa samningaviðræður í raun verið í lausu lofti enda er varla hægt að ætlast til þess að þjónustuaðilar skrifi undir samning þar sem vitað er fyrirfram að greiðslurnar eru að minnsta kosti 30-40% of lágar fyrir þá þjónustu sem verkkaupinn gerir kröfu um. Veitendur þjónustunnar reka starfsemi sína án hagnaðarsjónarmiða og því hlýtur það að vera sanngjörn krafa af þeirra hálfu að stjórnvöld móti betri og skýrar stefnu í hinni mikilvægu dagdvalarþjónustu og greiði fyrir hana sanngjarnt og gegnsætt verð sem byggir á raunkostnaði við þjónustuna.

 

Pétur Magnússon,

Höfundur er forstjóri Hrafnistuheimilanna og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur