Fréttasafn

Heimsóknarreglur Hrafnistu haldast óbreyttar til 17. nóvember

 

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur ákveðið að halda skipulagi heimsóknartíma áfram óbreyttu fyrir aðstandendur til 17. nóvember. Fylgst verður með þróun COVID-19 smita í samfélaginu og beðið frekari fyrirmæla frá sóttvarnarlækni. Eftirfarandi upplýsingar hafa verið sendar til íbúa og aðstandenda.

HÉR má lesa bréfið sem sent hefur verið út til íbúa og aðstandenda.

 

Ágætu íbúar og aðstandendur,

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur ákveðið að hafa áfram sama skipulag á heimsóknartímum líkt og hefur verið síðustu vikur en mun fylgjast áfram náið með fjölda COVID-19 smita í samfélaginu ásamt frekari tilmælum frá sóttvarnarlækni.

Heimsóknarreglur og annað verklag innan Hrafnistu verður endurskoðað 17. nóvember.

Kærar þakkir fyrir samstöðuna.        

 

Með vinsemd og virðingu

Neyðarstjórn Hrafnistu*

 

* Í Neyðarstjórn Hrafnistu sitja aðilar úr Framkvæmdaráði Hrafnistu. Kallað er eftir ráðgjöf frá sérfræðingum og fleiri aðilum sem sitja fundi Neyðarstjórnar ef þörf þykir hverju sinni. Netfang neyðarstjórnar er neydarstjorn@hrafnista.is

 

Lesa meira...

Hrafnista styður hugmynd sóttvarnalæknis um hertar aðgerðir á landamærum

 

Sóttvarnalæknir vinnur nú að gerð nýs minnisblaðs til heilbrigðisráðherra þar sem lagt verður til að leita leiða til að sem flestir sem koma til landsins fari í skimun. Neyðarstjórn Hrafnistu styður heilshugar þetta sjónarmið sóttvarnalæknis, enda staðfest að ekki sé hægt að treysta því fullkomlega að ferðamenn viðhafi sóttkví neiti þeir skimun.

Náðst hefur góður árangur síðustu vikur við að ná niður innanlandssmitum sem gerir það að verkum að mögulega verði hægt að létta núverandi hömlum að einhverju leyti, þar á meðal takmörkunum á heimsóknum til Hrafnistu. Jólin eru á næsta leyti og væri mikill léttir fyrir alla ef unnt væri að rýmka heimsóknartakmarkanir og veita fjölskyldum kost á að njóta saman jólahátíðarinnar. Til að gera það kleift er nauðsynlegt að gera þá kröfu til þeirra sem koma til landsins, óháð þjóðerni, að gangast undir skimun ásamt því sem landsmenn allir þurfa að halda áfram að fara varlega og fylgja reglum Almannavarna til hins ítrasta.

Samþykkt á fundi neyðarstjórnar Hrafnistu 10. nóvember 2020.

 

 

Lesa meira...

Rannsóknarsjóður Hrafnistu auglýsir eftir umsóknum um styrki

 

Rannsóknarsjóður Hrafnistu auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna verkefna tengdum öldrunramálum. Umsóknarfrestur er til 20. desember 2020.

Umsóknareyðublað um styrk í Rannsóknarsjóð Hrafnistu

Umsókn skal senda rafrænt á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Nánari upplýsingar veitir gæðastjóri Hrafnistu, Nanna G. Sigurðardóttir í síma 585 9402.

Um rannsóknarsjóð Hrafnistu

Sjóðurinn heitir Rannsóknasjóður Hrafnistu og er í eigu Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins. Eitt af meginmarkmiðum sjóðsins er að stuðla að nýjungum og þróun í málefnum aldraða. Sjóðurinn er opinn öllum þeim sem að stunda rannsóknir, formlegt nám eða hvað annað sem mun efla þennan málaflokk hér á landi. Tekjur sjóðsins eru frjáls framlög frá velunnurum Sjómannadagráðs/Hrafnistu og ávöxtun fjármuna sjóðsins. Ekki er um fastan tekjustofn að ræða. 

Stjórn sjóðsins er skipuð til þriggja ára í senn, tveimur fulltrúum frá Sjómannadagsráði höfuðborgarsvæðisins og þremur fulltrúum frá Hrafnistu (tilnefndum af framkvæmdaráði). Allar breytingar og viðbætur við þessa reglugerð skulu samþykktar af Sjómannadagsráði og framkvæmdaráði Hrafnistu. 

Bæði einstaklingar og fyrirtæki geta sótt um í sjóðinn og er hann opinn bæði starfsmönnum Hrafnistu og almenningi. Að öllu jöfnu skal veita tvo styrki á ári, annan til starfsmanna Hrafnistu og hinn til aðila utan Hrafnistu. 

Með hverri umsókn skal fylgja stutt lýsing á verkefninu, tíma- og kostnaðaráætlun og aðrir styrkir sem sótt er um fyrir sama verkefni. Stjórn sjóðsins er ekki heimilt að ráðstafa framlögum úr sjóðnum umfram það sem hér er tilgreint. Hámarks upphæð úthlutunar er sú upphæð er verðbætur og vextir frá fyrra ári skapa, að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Í september ár hvert auglýsir sjóðurinn eftir umsóknum í sjóðinn. Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun hverju sinni hvernig auglýsingum um umsóknir um styrki skuli háttað og setur skilyrði um hvernig styrkþegar gera grein fyrir niðurstöðum úr hinu styrkta verkefni. Sjóðinn skal ávaxta á bankareikningum á eins öruggan hátt og mögulegt er. Prókúruhafi sjóðsins er framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs. 

Þrjú verkefni hlutu styrki

Í janúar 2019 var úthlutað einni milljón króna úr Rannsóknarsjóði Hrafnistu. Þrjú verkefni hlutu styrki úr sjóðnum að þessu sinni. Markmið sjóðsins, sem er í eigu Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins, eiganda Hrafnistuheimilanna, er að stuðla að nýjungum og þróun í málefnum aldraða. Sjóðurinn er opinn öllum, einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum, sem að stunda rannsóknir, formlegt nám eða annað sem stuðlað getur að jákvæðri þróun í málaflokknum.

https://www.hrafnista.is/um-hrafnistu/rannsoknarsjodur

 

Lesa meira...

Er það markmið stjórnvalda að sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimilum verði lokað?

 

Í Morgunblaðinu í gær birtist grein eftir Hálfdan Henrysson formann Sjómannadagsráðs* og Maríu Fjólu Harðardóttur forstjóra Hrafnistu þar sem þau fjalla meðal annars um skerðingu stjórnvalda fjórða árið í röð á rekstrarfé til hjúkrunarheimila með svonefndri aðhaldskröfu.

„Sé það vilji stjórnvalda að sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimili hætti starfsemi og ríkið yfirtaki reksturinn væri heiðarlegast að segja það beint út.“

Greinina í heild má lesa HÉR

 

*Um Sjómannadagsráð

Sjómannadagsráð var stofnað af sjómannafélögum í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember 1937. Í fyrstu var tilgangurinn að standa fyrir árlegum sjómannadegi, en mikill stuðningur almennings við samtökin strax í upphafi leiddi fljótlega til þeirrar ákvörðunar (1939) að ráðið skyldi beita sér fyrir byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn (DAS).

Í dag er tilgangur félagsins tvíþættur. Annarsvegar að standa að hátíðarhöldum Sjómannadagsins árlega og gefa honum verðugan sess í íslensku þjóðlífi. Hinsvegar felst megin þungi starfseminnar í að veita öldruðum húsaskjól og daglega öldrunarþjónustu. Á vegum félagsins eru átta starfsstöðvar í fimm sveitarfélögum með Hrafnistuheimilum og fjórar með leiguíbúðum Naustavarar. Starfmenn eru um 1500 og húsakostur um 90 þúsund fermetrar. Þjónustuþegar eru vel á annað þúsund.

https://sjomannadagsrad.is/

 

 

 

Lesa meira...

Opnun COVID deildar fyrir íbúa hjúkrunarheimila

 

Dótturfélag hjúkrunarheimilisins Eirar ásamt Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) hefur tekist að semja við Sjúkratryggingar Íslands um að opna Covid-19 deild. Deildin mun hafa það hlutverk að tryggja öryggi allra íbúa þeirra hjúkrunarheimila sem þar taka þátt og draga úr líkum á hópsmiti ef íbúi hjúkrunarheimilis er smitaður inni á hjúkrunarheimili. Markmiðið með opnun Covid deildar er að tryggja aðstöðu sem kemur í veg fyrir að einangra þurfi íbúa inni á herbergi í hálfan mánuð eða lengur sem ekki er boðlegt.

Öll hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni munu sinna vekefninu.

 

Tilkynning frá SFV – Opnun COVID deildar fyrir íbúa hjúkrunarheimila 

 

 

Lesa meira...

Heimsóknarreglur á Hrafnistu haldast óbreyttar enn um sinn

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur tekið ákvörðun um að halda þeim heimsóknarreglum sem settar voru á í síðustu viku óbreyttum enn um sinn. Íbúar og aðstandendur hafa verið upplýstir um þá ákvörðun.

HÉR má lesa bréfið sem sent hefur verið út til íbúa og aðstandenda.

 

Ágætu íbúar og aðstandendur,

 

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur ákveðið að hafa áfram sama skipulag á heimsóknartímum líkt og hefur verið síðustu daga en mun fylgjast áfram náið með fjölda COVID-19 smita í samfélaginu ásamt frekari fyrirmælum um hertari aðgerðir frá sóttvarnarlækni. Heimsóknarreglur og annað verklag innan Hrafnistu verður endurskoðað 12. nóvember, en fyrr ef ástæða þykir.

Kærar þakkir fyrir samstöðuna.        

 

Með vinsemd og virðingu

Neyðarstjórn Hrafnistu*

 

* Í Neyðarstjórn Hrafnistu sitja aðilar úr Framkvæmdaráði Hrafnistu. Kallað er eftir ráðgjöf frá sérfræðingum og fleiri aðilum sem sitja fundi Neyðarstjórnar ef þörf þykir hverju sinni.

Netfang neyðarstjórnar er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

 

Lesa meira...

Skammist ykkar

Á visir.is er vísað í pistil eftir Gísla Pál Pálsson, forstjóra Grundarheimilanna og formann Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, þar sem hann segist telja að ríkisstjórnin ætli sér að keyra öldrunarheimili landsins í þrot.

„Í stað þess að auka við fjárframlög umfram launa- og verðlagshækkanir, þá eru hjúkrunarheimilin, auk dvalar- og dagdeildarheimila, krafin um niðurskurð upp á hálft prósent á ári. Árin 2018, 2019, 2020 og nú stendur til að skera enn og aftur niður um hálft prósent skv. fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Á sama tíma hefur nær öll önnur heilbrigðisþjónusta fengið hækkanir á fjárlögum umfram launa- og verðlagshækkanir á meðan öldrunarþjónustan situr eftir.“

Telur ríkisstjórnina ætla að keyra öldrunarheimilin í þrot

Forstjóri Grundarheimilanna, dvalar- og hjúkrunarheimila fyrir aldraða, segir ríkisstjórnina viljandi svelta öldrunarheimilin með það að markmiði að rekstrinum verði skilað til ríkisins. Ríkisstjórnin geri allt hvað hún geti til að keyra öldrunarheimilin í þrot.

Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna sem reka Grund við Hringbraut og Ás í Hveragerði, er harðorður í föstudagspistli sínum þessa vikuna. Pistillinn ber titilinn „Skammist ykkar“. Þar vísar hann til stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar árið 2017.

„Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.“

Gísli Páll segir raunina hafa verið allt aðra. Rekstrargrundvöllurinn hafi raunar markvisst verið veiktur í tíð ríkisstjórnarinnar sem lýkur haustið 2021.

„Sumir segja sem betur fer,“ segir Gísli. Hann nefnir sérstaklega að hann kannist við tvo af þremur oddvitum ríkisstjórnarinnar. Af góðu einu en þann þriðja hafi hann aldrei hitt.

„Í stað þess að auka við fjárframlög umfram launa- og verðlagshækkanir, þá eru hjúkrunarheimilin, auk dvalar- og dagdeildarheimila, krafin um niðurskurð upp á hálft prósent á ári. Árin 2018, 2019, 2020 og nú stendur til að skera enn og aftur niður um hálft prósent skv. fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Á sama tíma hefur nær öll önnur heilbrigðisþjónusta fengið hækkanir á fjárlögum umfram launa- og verðlagshækkanir á meðan öldrunarþjónustan situr eftir.“

Gísli Páll er afdráttarlaus í pistli sínum

„Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé með vilja gert til að svelta öldrunarheimilin svo mikið að þau gefist upp og skili rekstrinum til ríkisins. Sem er nákvæmlega það sem er að gerast.“

Hann vísar til nýlegra fregna af því að ríkið taki við rekstri öldrunarheimila á Akureyri um áramótin.

„Hið sama er uppi á teningnum, misjafnlega langt komið, í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði, Fjarðarbyggð og víðar. Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli láta sig engu varða þessa grímulausu ríkisvæðingu öldrunarþjónustunnar. En lengi má manninn reyna og mér sýnist þessi ríkisstjórn ætla að gera allt hvað hún getur til að keyra öldrunarheimilin í þrot.“

Samhliða því neyðist stjórnendur þeirra til að draga úr þjónustu til heimilismanna, þeirra sem hafi byggt upp þetta ágæta þjóðfélag sem við búum í.

„Þau eiga það síst skilið.“

Þá hnýtur Gísli Páll um rekstur Landspítalans á biðdeild á Vífilsstöðum og segir ýmsa þjónustu þar lakari en á hjúkrunarheimilum landsins.

„Fyrir það greiðir ríkið, sjálfu sér, rúmlega 52 þúsund krónur á sólarhring. Fyrir meiri þjónustu í mun huggulegra húsnæði, í flestum tilfellum, á hjúkrunarheimilum landsins greiðir ríkið aftur á móti eingöngu rúmlega 38 þúsund krónur. Fyrir lakari þjónustu greiðir ríkið 36% hærra verð, sérstakt. Það er þetta með Jónana,“ segir Gísli Páll og vísar í orðtakið um Jón og Séra Jón.

 

Lesa meira...

Fordómar og COVID

 

Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, skrifaði á dögunum áhugaverða grein sem birtist á visir.is.

„Mikill kostnaður varð til vegna hólfaskiptingar á hjúkrunarheimilum, sóttkví starfsmanna, sóttvarna o.fl. en engar viðbótargreiðslur bárust til heimilanna. Þvert á móti fengu mörg hjúkrunarheimili lægri tekjur en í venjulegu árferði, þar sem nýting hjúkrunarrýma datt niður vegna COVID og ríkið sparaði sér greiðslur til hjúkrunarheimilanna. Ríkið greiddi sérstakar álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks en bara á opinberum heilbrigðisstofnunum, ekki á hjúkrunarheimilum.“

Fordómar og COVID

Í fyrstu bylgju COVID faraldursins varð um helmingur allra dauðsfalla í Evrópu inni á hjúkrunarheimilum og langlegustofnunum. Sá hópur eldri borgara sem þar býr, var skilinn eftir afskiptalaus og óvarinn af yfirvöldum. Ekki nóg með það heldur berast nú fregnir af því að í Svíþjóð hafi læknisþjónusta m.a.s. verið tekin af þessum hóp aldraðra með markvissum hætti og þeim meinaður aðgangur að spítalanum í samræmi við opinber fyrirmæli stjórnvalda í Stokkhólmi. Væntanlega hefur ætlunin verið að geyma plássið handa yngra fólki. Mikil umræða er um það innan öldrunarþjónustunnar að COVID faraldurinn hafi að mörgu leyti afhjúpað þá öldrunarfordóma sem eru til staðar í vestrænum samfélögum. Þeir fordómar eru einnig innan heilbrigðisþjónustunnar og gagnvart öldrunarþjónustu almennt.

Hér á Íslandi virðast þessir fordómar birtast með öðrum hætti. Hérlendis komu upp sáralítið af smitum inni á öldrunarstofnunum í fyrstu bylgju faraldursins, m.a. vegna mikils dugnaðar og árverkni starfsfólks í öldrunarþjónustu. Starfsfólk, íbúar og aðstandendur lögðust á eitt til að verja þjónustuna.

En hvað svo?

Mikill kostnaður varð til vegna hólfaskiptingar á hjúkrunarheimilum, sóttkví starfsmanna, sóttvarna o.fl. en engar viðbótargreiðslur bárust til heimilanna. Þvert á móti fengu mörg hjúkrunarheimili lægri tekjur en í venjulegu árferði, þar sem nýting hjúkrunarrýma datt niður vegna COVID og ríkið sparaði sér greiðslur til hjúkrunarheimilanna. Ríkið greiddi sérstakar álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks en bara á opinberum heilbrigðisstofnunum, ekki á hjúkrunarheimilum.

Heimilin takast nú á við þriðju bylgju faraldursins löskuð og sum hver komin að þrotum fjárhagslega. Fjárlög ársins 2021 hafa nú verið lögð fram. Fjórða árið í röð er ,,aðhaldskrafa“ á rekstrarfé hjúkrunarheimilanna. Öll svið heilbrigðisþjónustunnar, nema öldrunarþjónusta og endurhæfing, hafa undanfarin ár fengið hluta af ,,góðærinu“. Fengið nauðsynlegt viðbótarfjármagn til að styrkja reksturinn, koma til móts við erfiðleika við mönnun, bæta þjónustuna o.frv. En ekki öldrunarþjónustan. Landssamband eldri borgara segir að öldrunarfordómar séu rótgrónir í samfélaginu okkar og þá sé víða að finna. Er þá kannski líka að finna í fjárlagafrumvörpum?

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

 

Lesa meira...

Breyting á heimsóknareglum Hrafnistu sem gilda frá 22. - 29. október

 

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur tekið ákvörðun um að opna fyrir heimsóknir á heimilin með ákveðnum takmörkunum. Íbúa og aðstandendur hafa fengið sendar upplýsingar um opnun á hverjum heimili fyrir sig.

HÉR má lesa bréfið sem sent var út fyrr í dag.

 

Ágætu íbúar og aðstandendur,

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur ákveðið að opna fyrir heimsóknir á heimilin með ákveðnum takmörkunum, þar sem nýgengi COVID-19 smita er á hægri niðurleið  í samfélaginu. Samfélagið er enn á viðkvæmu stigi í faraldrinum, en við gerum okkur ljóst að samvera íbúa við sína nánustu eykur lífsgæði þeirra. Þessar heimsóknarreglur verða endurskoðaðar 29. október.

Heimsóknareglur sem gilda frá 22. – 29. október

  • Aðeins einn gesturhefur leyfi til að heimsækja hvern íbúa tvisvar sinnum frá 22. – 29. október og biðjum við um að sami gestur komi í heimsókn í bæði skiptin.
  • Heimilið er opið frá: (upplýsingar um heimsóknartíma veitir hvert heimili fyrir sig).
  • Allir gestir þurfa að koma með andlitsgrímu (maska). Óheimilt er að koma með taugrímu.
  • Þar sem flest smit í þjóðfélaginu eru á aldursbilinu 18-29 ára viljum við að heimsóknargestur sé ekki á því aldursbili. Börn undir 18 ára hafa ekki leyfi til að koma í heimsókn.
  • Undanþága frá þessari reglu er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf að fá leyfi vaktstjóra deildar.
  • Viðkomandi gestur þarf að spritta hendur um leið og komið er inn, í upphafi heimsóknar.
  • Við biðjum ykkur um að fara beint inn á herbergi til íbúans og ekki stoppa og spjalla á leiðinni. Ef íbúi er ekki inni á herbergi biðjið þá starfsfólk um að sækja hann, ekki gera það sjálf.
  • Virðið 2ja metra reglunaog forðist snertingu við íbúa eins og hægt er.
  • Að heimsókn lokinni farið þá beint út án þess að stoppa og spjalla á leiðinni. Vinsamlegast sprittið hendur við brottför.
  • Heimilt er að fara með íbúa út í göngutúr í nærumhverfi meðan á heimsókn stendur.
  • Ekki er heimilt að íbúi fari út í bíltúr eða í heimsókn með heimsóknargesti sínum.

Vinsamlega athugið:

  1. Ekki koma í heimsókn ef þú ert í einangrun eða sóttkví
  2. Ekki koma í heimsókn ef þú ert að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
  3. Ekki koma í heimsókn ef þú ert með flensueinkenni (kvef, hósta, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl).
  4. Ekki koma í heimsókn ef þú varst erlendis fyrir minna en 14 dögum.

Með vinsemd og virðingu, 

Neyðarstjórn Hrafnistu.*

 

* Í Neyðarstjórn Hrafnistu sitja aðilar úr Framkvæmdaráði Hrafnistu. Kallað er eftir ráðgjöf frá sérfræðingum og fleiri aðilum sem sitja fundi Neyðarstjórnar ef þörf þykir hverju sinni.

Netfang neyðarstjórnar er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

 

Lesa meira...

Síða 36 af 175

Til baka takki