Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 16. október 2020 - María Fjóla Harðardóttir, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 16. október 2020.

 

Heil og sæl öll,

 

Bleiki dagurinn er í dag

Ef ég þekki ykkur rétt þá eruð þið núna að taka bleika daginn alla leið. Ef þið gleymduð honum þá veit ég að þið reddið málunum með einhvers konar neyðarúrræði. Eins og fram kemur á heimasíðu bleiku slaufunnar er tilefni dagsins stuðningur við þær konur sem greinst hafa með krabbamein svo þær finni stuðning okkar og samstöðu. Allir landsmenn eru hvattir til að bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp með bleiku. Við ætlum að sjálfsögðu að leggja málefninu lið með því að klæðast bleiku, borða bleikt, nota bleiku röddina og njóta þess í botn að vera bleik….er það ekki?

Covid-19 deild

Síðustu vikur og mánuði hefur Neyðarstjórn Hrafnistu beitt sér fyrir því að opnuð verði einskonar Covid-19 deild utan hjúkrunarheimilanna, fyrir öll hjúkrunarheimili, sem hægt væri að flytja einstaklinga á ef upp kemur smit á einhverju heimilinu. Eins og við vitum þá er mikilvægt að aðgreina sýkta einstaklinga frá ósýktum í þeirri von að hægt sé að ná böndum á smitum. Við sjáum ekki fyrir okkur að hægt sé að einangra íbúa á hjúkrunarheimilinu inni á sínu herbergi í 14 daga eða jafnvel upp í mánuð, líkt og stundum er þörf á. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu leiða þetta mál og við leyfum ykkur að fylgjast með hvernig gengur.

Fjölgun Covid smita og smit á heimilum Hrafnistu

Eins og þið eflaust vitið þá kom upp Covid smit hjá íbúum og starfsmönnum á bæði Ísafold og Sléttuvegi. Einnig kom upp smit hjá gesti í dagdvöl á Sléttuvegi. Á Ísafold voru þrír íbúar lagðir inn á sjúkrahús en heimilið er nú komið úr sóttkví frá og með síðasta miðvikudegi. Flestir á hjúkrunarheimilinu á Sléttuvegi eru komnir úr sóttkví og er dagdvölin hægt og rólega komin aftur í gang. Hvorutveggja er mikið gleðiefni og ber að fagna.

Það er óhætt að segja að við urðum skelkuð þegar við uppgötvuðum að smit hefði stungið sér niður hjá íbúa inni á Hrafnistu. En hafið í huga, að það er eiginlega ótrúlegt að það hafi ekki gerst fyrr. Við erum að berjast við draug sem læðist aftan að okkur. Sumir einstaklingar eru alveg einkennalausir en eru samt smitaðir. Þess vegna er það í raun lygilegt hversu vel hefur gengið á Hrafnistu og hvað það gekk vel að útloka Covid-19 á ný. Það er hreint og klárt ykkur að þakka kæra starfsfólk hversu vel hefur gengið. Þið eruð með sýkingavarnir upp á tíu. Það sannast hér með. Þá erum við ekki aðeins að tala um hjúkrunardeildir heldur einnig öll stoðsvið.

Ég vil hvetja ykkur áfram á þeirri braut sem þið eruð. Við erum öll orðin svolítið þreytt á ástandinu og vægast sagt er ekki auðvelt að sitja á púðurtunnunni og vita aldrei hvenær neistinn kemst í tunnuna. Því minni ég ykkur á að við erum í þessu saman og við erum komin þetta langt. Við sjáum ljósið í enda gangana. Þangað til, leitum til hvors annars og fáum aðeins að pústa. Ef einhver pústar á ykkur ósanngjörnum orðum þá bið ég ykkur að sýna viðkomandi hlýju og sætta ykkur við að dagurinn í dag var hans tími til að pústa. Hjálpum hvort öðru í gegnum þetta og tökum ekki pústin nærri okkur vegna þess að lífið okkar er ekki bara vinnan og það er margt í gangi. Tökum svo upp hanskann og höldum áfram.

Ímyndið ykkur hvað það verður hrikalega gaman þegar við erum komin út úr þessum skafli.

Eigið yndislega helgi, 

María Fjóla Harðardóttir,

Forstjóri Hrafnistu

 

Lesa meira...

Síða 86 af 330

Til baka takki