Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 20. nóvember 2020 - Gestahöfundur er Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri Hrafnistuheimilanna

 

Mikilvægt er að hægt sé að mæla gæði í heilbrigðisþjónustu og hafa til þess einhver viðmið og mælikvarða. RAI matið sem nú er rétt yfirstaðið er það tæki sem við höfum til þess að mæla gæðin og gefur það okkur mikilvægar vísbendingar um þá þjónustu sem við erum að veita. Einn af þeim gæðavísum sem skoðaðir eru í RAI matinu eru byltur, þ.e. hversu margir íbúar á deildinni/heimilinu hafi dottið sl. 30 daga. Embætti landlæknis hefur sett þau viðmið að það teljist viðunandi ef á bilinu 6,1% til 17,3% íbúa á hjúkrunarheimilum hafi dottið sl. 30 daga miðað við lokadagsetningu mats. Ef hlutfall þeirra sem hafa dottið er hærra, þá þarf að skoða byltuvarnir hjá þessum einstaklingum og umhverfi þeirra.

Margar ástæður geta verið fyrir því að eldra fólk sé að detta. Algengustu orsakirnar eru þó að með auknum aldri þá skerðist jafnvægi þeirra en einnig geta ýmis lyf, sjúkdómar, vitræn skerðing og slysagildrur í umhverfinu valdið því að þau detti.

Byltuvarnir eru stór þáttur í öryggismálum á hjúkrunarheimilum og mjög mikilvægt er að allir starfsmenn kynni sér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að íbúarnir okkar detti. Mikilvægt er fyrir alla starfsmenn að kynna sér vel hvaða íbúar á deildinni þeirra hafi verið að detta vegna þess að ef fólk hefur einu sinni dottið, þá eru meiri líkur á því að viðkomandi detti aftur. Eins er mikilvægt að kynna sér hvaða íbúar séu í hættu á að detta, þó að þeir hafi ekki dottið, til að reyna að koma í veg fyrir að þeir detti. Næturvaktin þarf að kynna sér hvaða íbúar séu í byltuhættu, því hluti af byltunum eru að gerast á næturnar og þá oft þegar íbúarnir okkar eru að fara á salernið. Afleiðingar byltu geta verið mjög alvarlegar fyrir eldra fólk auk þess sem þau verða hrædd við að detta sem eykur enn á líkurnar að þau detti. Skrá á allar byltur hjá íbúum í atvikaskráningu í Sögukerfinu og skoða þarf leiðir til að koma í veg fyrir að íbúinn detti aftur.

Á Hrafnistuheimilunum er starfrækt þverfaglegt byltuteymi sem hittist nokkrum sinnum á ári, skoðar gæðavísa byltna hjá öllum deildum, sinnir ráðgjöf um byltuvarnir og útbýr fræðsluefni tengt byltuvörnum. Byltuteymið hélt úti byltuátaki í nóvember 2018 og er allt efni átaksins aðgengilegt á innri vef heimasíðu Hrafnistu. Ég hvet alla starfsmenn til þess að skoða fræðsluefnið og kynna sér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir byltur hjá íbúunum okkar. Einnig var alþjóðleg byltuvarnarvikaí september sl. og áhugaverð umfjöllunum byltur og þjálfun jafnvægis var í sjónvarpinu á sama tíma. Ég hvet ykkur líka til að skoða það fræðsluefni.

Ef spurningar vakna vegna byltuvarna, þá getið þið alltaf sent fyrirspurnir á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kær kveðja,

Nanna Guðný Sigurðardóttir, gæðastjóri Hrafnistuheimilanna.

 

Lesa meira...

Síða 81 af 330

Til baka takki