Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 1. apríl 2022 - Gestahöfundur er Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Ísafold

Vorið er komið og bless covid.

Loksins, eftir 2 ár erum við á Hrafnistu Ísafold búin að aflétta öllum takmörkunum vegna heimsfaraldursins. Í fyrsta skipti í 2 ár erum við grímulaus og getum brosað framan í heiminn. Í fyrsta skipti í tvö ár geta íbúar okkar hitt eins marga og þeir vilja, á hvaða aldri þeir vilja og hvar sem þeir vilja.

Þegar frá líður þessum tíma eigum við örugglega eftir að sjá margar rannsóknir á áhrifum þessara takmarkana á líf og líðan fólks. Hefðum við átt að gera eitthvað öðruvísi, var þetta besta leiðin, gerðum við of lítið eða of mikið? Það eru margar spurningar sem brenna á okkur sem samfélagi og einstaklingar. Öll færðum við fórnir, lokuðum okkur af í allskonar kúlum, jólakúlum, páskakúlum, vinnukúlum og sumarkúlum, ferðuðumst innanlands og innanhúss, hittum ekki ástvini, gátum ekki verið við sjúkrabeð eða andlát ástvina. Hugsið ykkur að það eru börn sem þekkja ekki leikskólakennara sína nema með grímur og hafa ekki farið í búð nema að allir fullorðnir séu með grímur.

En nú eru aðrir og öðruvísi tímar. Þegar við vörpum öndinni léttar í lok faraldursins brestur á stríð við bæjardyrnar hjá okkur. Starfmenn Hrafnistu frá Úkraínu óttast um líf sinna nánustu, starfsmenn Hrafnistu frá Rússlandi óttast um sitt fólk. Það þarf ekki rannsóknir til að vita að áhrif styrjalda er hræðileg, hugur minn er hjá öllu þessu fólki.

Að öðru aðeins léttara, þá er vorið að koma, sól hækkar óðum á lofti, það er búið að hreinsa garðinn okkar á Ísafold, sumarstarfsmenn eru að koma í viðtöl og starfsmenn farnir að hlakka til sumarleyfa. Þar sem starfi mínu sem forstöðumaður á Ísafold líkur í lok maí og þetta verða því síðustu föstudagsmolarnir mínir langar mig að nota tækifærið og þakka öllum kærlega fyrir samstarfið. Síðustu fimm ár hafa verið skemmtileg, krefjandi og gefandi. Ég óska þess að Ísafold eigi eftir að dafna og verða áfram frábært hjúkrunarheimili.

 

Hrönn Ljótsdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu Ísafold.

 

 

 

 

Til baka takki