Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 9. ágúst 2019 – Gestahöfundur er Margrét Malena Magnúsdóttir, deildarstjóri Miklatorgs og Engeyjar í Laugarási.

Föstudagsmolar
  Föstudagsmolar
Fyrir löngu síðan þegar ég var unglingur fóru margir af mínum vinum og kunningjum að vinna með skóla, nokkrir þeirra unnu á Hrafnistu. Ég hafði alltaf verið svolítið smeyk við heldri manna húsið á hæðinni, eins og Hrafnista við Laugarás var oft kölluð af krökkunum í hverfinu, og fór því aðrar leiðir í atvinnumálum. Það fór því svo að ég vann á bensínstöð þegar ég byrjaði í hjúkrunarfræðinámi.
 
Það fannst vinkonu minni sem ég kynntist í náminu alveg fráleitt að heyra. Hún reyndi því að sannfæra mig um að sækja um sumarstarf á vinnustað hennar, Hrafnistu. Henni fannst réttilega að Hrafnista væri réttur starfsvettvangur fyrir hjúkrunarnema þar sem að starf í aðhlynningu væri góður undirbúningur fyrir verknám í hjúkrun og hjúkrunarstarfið í framtíðinni. Þegar ég hugsa til baka finnst mér eins og ég hafi ekki fengið neitt val um það hvort ég vildi yfirhöfuð sækja um vinnu á Hrafnistu eða ekki en áður en ég vissi af var ég mætt í atvinnuviðtal. Það atvinnuviðtal var afar stutt og fólst nánast eingöngu í því að mér var réttur ráðningarsamningur með orðunum „þú skrifar undir þarna neðst“. Þarna var ég allt í einu orðinn starfsmaður á Hrafnistu eitthvað sem ég hafði ekki endilega ætlað mér.
 
Í dag rúmum 12 árum síðar er ég mjög ánægð með að hafa gefið eftir og mætt í þetta skrítna atvinnuviðtal og skrifað undir ráðningarsamninginn. Hrafnista er frábær vinnustaður. Það hefur verið mjög lærdómsríkt og gefandi að starfa á Hrafnistu í öll þessi ár og er enn og verður eflaust áfram. Ég hef unnið við aðhlynningu, sem hjúkrunarnemi, sem hjúkrunarfræðingur (á öllum deildum í Laugarási) og nú seinast sem deildastjóri á Miklatorgi og Engey. Í þessum mismunandi störfum hefur mér tekist að kynnast starfseminni smátt og smátt og hefur það verið mikill kostur. Hrafnista er stór vinnustaður og umhverfið sem fylgir starfseminni flókið. Það hefur margt breyst á þessum 12 árum og eflaust verða frekari breytingar á næstu árum samhliða því sem þjóðin eldist. Mér hefur fundist það mikill kostur hvað Hrafnista hefur verið stórt afl innan öldrunarþjónustunnar og markmið þeirra að vera leiðandi aðili í þjónustu við aldraða gerir það að verkum að starf á Hrafnistu er spennandi valkostur fyrir þá sem vilja starfa við öldrunarþjónustu.
 
Þegar ég hóf nám í hjúkrunarfræði datt mér ekki í hug að ég myndi enda sem öldrunarhjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á hjúkrunardeild. En starfið hér á Hrafnistu opnaði fyrir mér þessar dyr og í dag gæti ég ekki hugsað mér annað starf.
 
Svo að ég segi bara - takk Arna - fyrir að hafa dregið mig með þér á þennan frábæra vinnustað ;)
 
Margrét Malena Magnúsdóttir
Deildarstjóri á Miklatorgi/Engey
Hrafnista Laugarási

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur