Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 29. mars 2019 - Gestaskrifari er Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir, persónuverndarfulltrúi Hrafnistuheimilanna og lögfræðingur hjá SFV

Gróa á Leiti lærir um persónuvernd

 

Um sögupersónuna Gróu á Leiti í skáldsögunni Piltur og stúlka (1850) eftir Jón Thoroddsen segir:  „Gróa var fengsöm og húsgöngul; hún var vitur kona og svo fróð um alla hluti, að hún vissi fyrir víst, hvað skammtað var hvert mál á flestum bæjum í öllu því byggðarlagi; aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum; og svo var hún orðvör, að aldrei greindi hún sögumann; var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: „Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því, blessuð!“ Ávallt vissi hún að haga svo orðum sínum við hvern, sem hún talaði, að hverjum fyrir sig virtist sem Gróa ætti engan betri vin hér á jörðu en sig og að hún væri engum trú nema sér einum.“

Það má því segja að persónuvernd hafi löngum verið okkur Íslendingum nokkuð framandi. Okkur finnst eðlilegt að við vitum sem mest um okkar nánustu, um frændfólk okkar og nágranna og jafnvel hana Jónu gömlu, ömmu hennar Siggu, sem er frænka Gunnu, vinkonu Nonna bróður.

Ný lög um persónuvernd tóku gildi hér á landi í júlí á síðasta ári. Með lögunum var innleidd umfangsmikil reglugerð frá Evrópusambandinu um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Það má segja að með tilkomu laganna hafi orðið þónokkur vitundavakning meðal landans og er persónuverndin nú á vörum allmargra. Oft er umræðan á jákvæðu nótunum en stundum eru þær raddir háværari sem líta á þessa löggjöf sem heljarinnar vesen og almenn leiðindi.

Vissulega eru kostir og gallar við svona umfangsmiklar reglur og ýmsar spurningar vakna, þar á meðal varðandi samskipti heilbrigðisstarfsfólks við aðstandendur sjúklinga. Starfsfólk hjúkrunarheimila þekkir þá stöðu vel að þurfa að svara spurningum aðstandenda, vina og jafnvel gesta og gangandi um líðan íbúa á hjúkrunarheimili. Flestir vilja vel og eru einungis með hag íbúans í huga en því miður þekkjum við einnig dæmi þess að óviðkomandi leiti upplýsinga um fólk í miður góðum tilgangi.

Það getur verið erfitt fyrir starfsmann að meta hvaða upplýsingar má veita hverjum. Strangt til tekið er starfsmanni óheimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um málefni íbúa nema viðkomandi íbúi hafi veitt samþykki sitt fyrir því eða fyrir hendi eru aðstæður sem skilgreindar eru í lögum, svo sem lögum um réttindi sjúklinga, til dæmis ef íbúi getur ekki og mun ekki geta móttekið upplýsingar um eigið heilsufar.

Samtal við íbúa og aðstandendur um persónuvernd er því mikilvægt í þessu samhengi. Að ræða um persónuverndarmálin á jákvæðan hátt mætir almennt skilningi fólks um mikilvægi þeirra. Að íbúi tilnefni þá aðstandendur sem starfsmenn mega ræða við minnkar líkurnar á því að upplýsingarnar rati í hendur óviðkomandi aðila. Vissulega þykir sumum það undarlegt að þurfa að veita sérstaka heimild fyrir því að ræða megi við maka þeirra, dætur eða syni, en með viðeigandi fræðslu og umræðum sýna allflestir þessu skilning. Enda er markmið okkar ekki að vera með almenn leiðindi heldur að standa vörð um réttindi og hag íbúans.

Við munum þó líklegast aldrei ná að þagga alveg niður í Gróu á Leiti en við getum reynt að takmarka þær upplýsingar sem hún fær með því að líta jákvæðum augum á persónuverndarmálin, aðlaga okkar verkferla og hugsa okkur tvisvar um áður en við veitum upplýsingar um íbúa til þriðja aðila, Gróa leynist nefnilega oft á næsta leiti.

 

Góða helgi

Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir,

persónuverndarfulltrúi Hrafnistuheimilanna

og lögfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur