Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 8. desember 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 8. desember 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Ný ríkisstjórn og nýr heilbrigðisráðherra

Í lok síðustu viku var kynnt ný ríkisstjórn og þar með nýr heilbrigðisráðherra sem er Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri grænum. Það er auðvitað alltaf mjög spennandi fyrir okkur þegar ný ríkisstjórn og nýr ráðherra okkar mála koma fram. Það verður líka spennandi að sjá hvort einhverjar breytingar verða á áherslum stjórnvalda í okkar málum.

 

Úr stjórnarsáttmálanum:

Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum.

Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni.

Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimilaen áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

 

Undirstrikun er mín en þessi hluti setningarinnar gefur sannarlega til kynna að hagur okkar geti kannski vænkast. Við fögnum þó ekkert fyrr en í hendi er komið.

Hrafnista hefur nú þegar, venju samkvæmt, sent nýjum heilbrigðisráðherra heillaóskir og boðið í heimsókn á Hrafnistu, sem vonandi verður í janúar. Í slíkri heimsókn kynnum við Hrafnistu og förum í skoðunarferð, en einnig er farið yfir okkar áherslumál.

 

 „Fullveldisbörnin“ á Hrafnistu

Þann 1. desember síðastliðinn voru 99 ár frá því Ísland varð fullveldi. Á árinu 2018 verður haldið upp á 100 ára fullveldisafmæli landsins með ýmsum hætti. Við á Hrafnistu verðum þar á meðal, í verkefni sem heitir „Fullveldisbörnin – aldarafmæli“.

Næsta sumar mun Hrafnista í Reykjavík bjóða öllum fullveldisbörnunum ásamt fylgdarmanni, þ.e. öllum þeim sem verða 100 ára á árinu, til veislu í Skálafelli þar sem fram fer skemmtidagskrá fyrir fullveldisbörnin og þá íbúa Hrafnistu (og gesti þeirra) sem áhuga hafa á að vera með. Nú er unnið að skipulagningu dagskrár. Verkefnið er meðal annars unnið í samvinnu við Jóa Fel og Landssamband bakarameistara. Ætlar landslið bakara að þróa uppskrift að fullveldisköku sem byggir á gömlum uppskriftum frá upphafi fullveldisins sem verður þróuð áfram og færð í nútímalegan búning. Í þessari veislu okkar verður nokkurskonar „generalprufa“ á fullveldiskökunni og fá fullveldisbörnin og íbúar Hrafnistu tækifæri á að koma með álit og ábendingar um þróun kökunnar áður en hún fer í almenna sölu. Líklega verður einnig boðið upp á fullveldisdagskrá á öðrum Hrafnistuheimilum en það verður kynnt betur síðar.

Þetta verður bara skemmtilegt krydd í Hrafnistulífið.

Hrafnista á Snapchat!

Ef einhver vissi það ekki þá er Hrafnista hrikalega “kúl”!

Á miðvikudaginn gerðist Hrafnista SnapChat-stjarna en þar er ætlunin að kynna og sýna okkar flotta starf frá ólíkum sjónarhornum. Hrafnistuheimilin munu skiptast á að vera með snappið í eina viku í senn en undirbúningshópur vann að þessu verkefni í nokkrar vikur og gerði meðal annars reglur og leiðbeiningar um hvað má „snappa“

og hvað ekki.

Það voru Sjávar- og Ægishraun í Hafnarfirði sem hófu leikinn á miðvikudaginn og gera það með miklum stæl eins og þeirra var von. Þegar þetta er skrifað eru komnir yfir 300 fylgjendur og þeim mun án efa fjölga hratt næstu daga. Í gær birtu til dæmis Fréttablaðið og visir.is skemmtilegar fréttir um þetta tiltæki okkar.

Endilega verið dugleg að fylgjast með: HrafnistaDAS. Þetta verður bara gaman!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 211 af 330

Til baka takki