Fréttasafn

Rafkisurnar Nói, Hlýja, Valli og félagar bæta mannlífið á Hrafnistu

 

Svokallaðar rafkistur eða meðferðarkisur hafa verið til staðar á Hrafnistuheimilunum nú um nokkurt skeið og hafa þær notið mikilla vinsælda meðal íbúa á Hrafnistu. Þessar kisur eru sérstaklega hannaðar fyrir einstaklinga með heilabilun. Þær mjálma, mala, lyfta loppunni, velta sér yfir á bakið og elska að láta klappa sér.

Kötturinn Valdimar, sem búið hefur á Hrafnistu í Boðaþingi frá árinu 2013 í góðu yfirlæti, hefur einnig tekið vel á móti rafkisunum sem búa með honum í Boðaþinginu. Hann kúrir oft með þeim eins og íbúar Hrafnistu gera jafnan einnig.

RÚV heimsótti Hrafnistu á Sléttuvegi í gær og ræddi við Elsu Björgu, deildarstjóra á Fossi sem sagði að rafkisurnar veittu íbúum mikla ánægju og góða nærveru. Sýnt var frá heimsókninni í fréttatímanum á RÚV í gærkvöldi. Hægt er að spila fréttina með því að smella HÉR

 

Nói, Hlýja, Valli og félagar bæta mannlífið á Hrafnistu

Tíu rafkettir eru til húsa á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Sléttuvegi. Deildarstjóri segir að þeir séu góð viðbót á heimilið, þeir gleðji íbúa og veiti mikilvæga nærveru, einkum þeim sem eru með heilabilanir.

Elsa Björg Árnadóttir deildarstjóri á Fossi á Hrafnistu á Sléttuvegi segir rafkettina hafa vakið mikla lukku hjá heimilisfólki.  „Sérstaklega hjá þeim sem eru með heilabilun,“ segir Elsa. „Þetta veitir þeim svo mikla nærveru. Margir eru að glíma við félagslega einangrun.“

Rafkisurnar mjálma, hreyfa sig og mala þegar þeim er strokið. Þær eru í nokkrum litum og hafa allar fengið nöfn, fimm stráka- og fimm stelpunöfn. Í þessum fríða flokki eru Njáll, Tómasína, Valli, Tómas, Káta, Vigdís, Hlýja, Snjólfur, Snælda og Nói.

Kisurnar fá gjarnan að kúra í rúmum íbúa og þegar fer að hægjast á þeim er einfaldlega skipt um rafhlöðu. Þær eru meðfærilegri en gengur og gerist með ketti, hvorki klóra né fara á flakk. „Og enginn er með ofnæmi fyrir þeim, sem er stór kostur,“ segir Elsa.

Hún segir að með því að handfjatla rafkisurnar og heyra þær mala fái margir nauðsynlega örvun. „Þetta er þessi nærvera sem vantar oft. Það er alveg ótrúlegt að sjá marga, sem eru kannski að tjá sig lítið og sitja í hjólastólnum, að fá þessar kisur í fangið. Þá bara lifnar yfir þeim. Það er svo fallegt að sjá það.“

Þannig að kisurnar eru að gera gagn? „Algerlega. Við erum mjög lukkuleg með þessar tíu sem við eigum hér á Sléttuveginum.“

 

Lesa meira...

Heimsóknartakmörkunum aflétt á Hrafnistuheimilunum frá og með 15. september

 

Í ljósi stöðunnar í samfélaginu hefur Neyðarstjórn Hrafnistu ákveðið að létta verulega á þeim takmörkunum sem settar voru á í sumar. Bréf til íbúa og aðstandenda varðandi þessa afléttingu hefur verið sent út og má lesa HÉR

 

Kæru íbúar og aðstandendur.                                                                

Flestir íbúar Hrafnistu hafa fengið þriðja skammtinn af bóluefni við Covid-19. Samkvæmt sóttvarnaryfirvöldum er staðan á Íslandi varðandi heimsfaraldur Covid-19 á réttri leið. Þetta eru gleðifréttir og hefur Neyðarstjórn Hrafnistu ákveðið að aflétta allverulega þeim heimsóknartakmörkunum sem settar voru á í sumar.

Frá og með 15. september verða heimilin opnuð að nýju. Ekki verða takmarkanir á fjölda heimsóknargesta og aðstandendur hafa heimild til að vera í sameiginlegum rýmum deilda með íbúum og starfsfólki.

ATHUGIÐ að óbólusettir / hálfbólusettir starfsmenn, gestir og gangandi þurfa að vera með andlitsgrímur.

Hafið ávallt í huga:

Alls ekki koma í heimsókn ef:

  • Þú ert í sóttkví.
  • Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
  • Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  • Þú ert með COVID-19 lík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).
  • Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

Nú, sem ávallt þarf að muna að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.

Eins og áður er mikilvægt að vera meðvitaður um að veiran er enn til staðar í samfélaginu og verðum við öll að vera áfram á varðbergi. Ef smitum fjölgar í samfélaginu gæti Neyðarstjórn Hrafnistu þurft að grípa aftur til ákveðinna aðgerða og takmarkana.

Það er með gleði í hjarta sem við fögnum þessum áfanga.

 

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Lesa meira...

Grímuskylda bólusettra afnumin á Hrafnistuheimilinum frá og með deginum í dag

 

Grímuskylda er afnumin á Hrafnistuheimilunum frá og með deginum í dag,

 13. september 2021.

 

ATHUGIÐ:

Þeir sem eru óbólusettir þurfa þó áfram að bera andlitsgrímur inn á heimilunum. Það á við um:

  • Starfsfólk
  • Ættingja
  • Gesti
  • Verktaka
  • Alla þá aðra sem hafa erindi inn á heimilin s.s. með vörur, póst.

Íbúar / hvíldargestir / gestir dagdvala og dagþjálfunar Hrafnistuheimilanna eru undanþegnir grímuskyldu þótt þeir séu ekki bólusettir, nema í undantekningartilfellum.

 

Bestu kveðjur,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Lesa meira...

Styðja við áframhaldandi sjálfstæða búsetu

 

Í Fréttablaðinu, föstudaginn 3. september sl. var umfjöllun um dagendurhæfingarúrræði á Hrafnistu. Rætt var við þær Finnbjörgu Skaftadóttur deildarstjóra dagendurhæfingar og Gígju Þórðardóttur deildarstjóra sjúkraþjálfunar á Hrafnistu Laugarási. Greinina má lesa HÉR

Dagendurhæfingarúrræði á Hrafnistu á sér ekki hliðstæðu hér á landi og er þverfagleg teymisvinna fjölda fagaðila með það markmið að endurhæfa og styðja við eldri aldurshópa.

Dagendurhæfing á Hrafnistu Laugarási er endurhæfingardeild fyrir eldri aldurshópa þar sem áhersla er lögð á líkamlega þjálfun, andlega líðan og félagslega virkni. Sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og íþróttafræðingar sjá um markvissa endurhæfingarþjálfun sem er sérsniðin í samræmi við þarfir hvers og eins segja þær Gígja Þórðardóttir, deildarstjóri sjúkraþjálfunar og Finnbjörg Skaftadóttir, deildarstjóri dagendurhæfingar Hrafnistu. „Markmið dagendurhæfingar er meðal annars að einstaklingurinn auki og/eða viðhaldi færni sinni á athöfnum daglegs lífs sem styðji við áframhaldandi stjálfstæðri búsetu. Endurhæfingin er tímabundið úrræði, oftast 8-10 vikur í senn og einstaklingar geta verið 3-5 daga vikunnar,“ segir Gígja.

Fjölbreytt félagsstarf

Þær segja starfsmenn Hrafnistu vera einstaklega heppna að vera með reynda bílstjóra sem sæki fólk heim að morgni og hjálpi við að halda utan um þennan fjölbreytta hóp. „Þátttakendum býðst einnig að taka þátt í fjölbreyttu félagsstarfi yfir daginn og má þar nefna söng, bingó, kvikmyndasýningar, spil, upplestur, slökun og samveru. Ekki má gleyma næringunni sem er ein af undirstöðum góðrar heilsu en maturinn á Hrafnistu í Laugarási er bæði bragðgóður og næringarríkur auk þess sem matsalurinn er notalegur,“ bætir Finnbjörg við.

Einstakt úrræði

Dagendurhæfing er að þeirra sögn opin fyrir alla eldri borgara sem þurfa og vilja bæta heilsu sína og vinna markvisst að því að efla sig andlega og líkamlega. „Umsókn um dagendurhæfingu þarf að fylgja læknabréf og/eða hjúkrunarbréf ásamt beiðni um iðju- og/eða sjúkraþjálfun.“

Þær segja dagendurhæfingarúrræði á Hrafnistu ekki eiga sér hliðstæðu hér á landi. „Það eru til fjölmörg úrræði um land allt þar sem áherslan er fyrst og fremst á félagslegt samneyti og virkni en hjá okkur er að auki þverfagleg teymisvinna og einstaklingsmiðuð nálgun á líkama og sál.“ Þannig sé gert heilsufarsmat og mælingar á stöðu fólk í upphafi og lok dvalar og sett upp æfingaáætlun út frá þeim. „Hver og einn fær sína sérsniðnu dagskrá og við leggjum mikla áherslu á að fylgja fólki eftir, styðja og hvetja, sendum skýrslu til umsóknaraðila um árangur dvalarinnar og finnum úrræði í þeirra nærumhverfi sem þau geta nýtt sér að dvöl lokinni hjá okkur.“

Andleg líðan batnar

Þéttur hópur starfsmanna er vakinn og sofinn yfir velferð skjólstæðinga Hrafnistu að þeirra sögn og má þar helst nefna starfsfólk dagendurhæfingar, skjúkraþjálfara, íþróttafræðinga, þroskaþjálfa og iðjuþjálfa að ógleymdu framlagi og alúð annars starfsfólks Hrafnistu Laugarási. „Teymið fer reglulega yfir stöðu mála hvers og eins á meðan á dvölinni stendur. Með því móti er hægt að grípa inn í ef einhverjar breytingar verða eða ef okkur finnst ekki hlutirnir ganga eftir óskum.“

Þær segja fólk vera afar ánægt með dvöl sína og margir óska eftir að koma þangað reglulega til sjálfseflingar. „Helstu breytingarnar sem við sjáum eru meiri virkni og framfarir í líkamlegri færni svo sem styrk, þoli og jafnvægi, verkir minnka oft og andleg líðan batnar til muna enda er allra meina bót að umgangast annað fólk og finna fyrir stuðningi starfsfólks í átt að auknum lífsgæðum.“

 

Umsagnir notenda dagendurhæfingarinnar

Anna Tryggvadóttir McDonald

„Fjölbreytt endurhæfing á Hrafnistu varð til þess að eftir liðskiptaaðgerð get ég nú stigið upp í bílinn minn og er ekki bundin heima eins og áður. Líkamlega þjálfunin er margvísleg og hefur styrkt mig á allan hátt. Á Hrafnistu er félagslega hliðin einnig áríðandi. Þetta er allt að þakka sérstöku starfsfólki sem leggur sig fram með dugnaði og þolinmæði við að aðstoða eins og mögulegt er. Þjálfarar eru frábærir á allan hátt og ég þakka kærlega fyrir þeirra góðu hjálp.“

Jón Otti Sigurðsson

„Ég er afskaplega ánægður með dvölina hér og tel Hrafnistu vera brautryðjanda í öldrunarmálum því þetta úrræði leggur áherslu á ræktun líkama og sálar og lagt er upp með að efla fólk til sjálfstæðrar búsetu sem lengst. Það er mikil og þörf umræða í þjóðfélaginu núna í aðdraganda kosninga um fjölbreytt úrræði fyrir minn aldurshóp og ég datt í lukkupottinn að komast hér að því þetta er úrræði sem virkar vel. Ég stefni að því að hlúa að heilsunni áfram og búa sem lengst heima og þessi dagendurhæfing er kærkominn bakhjarl í viðleitni minni til þess. Öll þjálfun er framúrskarandi og eftirfylgnin er góð, maturinn er góður og starfsfólkið einstakt.“

 

Mynd

Finnbjörg Skaftadóttir (fyrir miðju) er deildarstjóri dagendurhæfingar og Gígja Þórðardóttir (lengst til hægri) er deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Laugarási. Með þeim á myndinni eru Jón Otti Sigurðsson og Anna Tryggvadóttir McDonald.

 

 

Lesa meira...

Engar aldurstakmarkanir eru á heimsóknargestum sem koma inn á heimili Hrafnistu

Kæru íbúar og aðstandendur.

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur samþykkt eina breytingu á heimsóknarreglum heimilanna þess efnis að engar aldurstakmarkanir eru á heimsóknargestum sem koma inn á heimili Hrafnistu.

 

Áfram eru í gildi neðangreindar reglur sem gefnar voru út 31.ágúst síðastliðinn: 

 

  1. Andlitsgrímuskylda gesta á herbergjum íbúa.
    • ALLIR gestir þurfa að bera andlitsgrímu við komu á heimilin.
    • Bólusettir gestir: Geta tekið niður andlitsgrímu inn á herbergi íbúa.
    • ATHUGIÐ að óbólusettir / hálfbólusettir gestir þurfa að vera með andlitsgrímur inn á herbergi íbúa.
    •  Ekki er heimilt að vera með margnota grímur.
  2. Fjöldi gesta í heimsókn.
    • Fleiri en einn aðstandandi/gestur getur komið í heimsókn á hverjum tíma. Neyðarstjórnin biðlar áfram til aðstandenda/gesta að sýna skynsemi og horfa til stöðunnar í samfélaginu á hverjum tíma.
  3. Hópastarfs/samkomur og stórar samverustundir
    • Leyfilegt er að vera með hópastarf/samkomur og stórar samverustundir á Hrafnistuheimilunum.
    • Sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun íbúa getur farið fram í þeim rýmum sem til þess eru ætluð á hverju heimili fyrir sig.
  4. Ekki er heimilt að nýta setustofur og borðstofur eininga/deilda til heimsókna né önnur alrými á heimilunum s.s. borðsali.
  5. Virða þarf 2ja metra regluna í samskiptum við starfsfólk.
  6. Íbúum er áfram heimilt að fara út í garð og í gönguferðir með sínum nánustu, en einnig er heimilt að fara með íbúa út af heimilinu í bílferðir eða heimsóknir. Neyðarstjórnin biðlar þó til íbúa, aðstandenda og annarra gesta að fara ekki í fjölmenna mannfagnaði eða aðrar fjölmennar samkomur með íbúa.
  7. Fullbólusettir aðstandendur sem dvalið hafa erlendis– eins og áður mega þeir koma í heimsókn að höfðu samráði við stjórnendur deilda og að því tilskyldu að þeir séu með öllu einkennalausir. Neyðarstjórn Hrafnistu vill samt biðla til þeirra og jafnframt benda á mikilvægi þess,  að fara í skimun eftir að þeir koma til landsins og að niðurstaða liggi fyrir áður en þeir koma í heimsókn inn á heimili Hrafnistu.
  8. Óbólusettir aðstandendur sem eru að koma erlendis frá mega ekki koma í heimsókn inn á heimilin fyrr en 14 dagar eru liðnir frá heimkomu (undanþágu er hægt að fá í samráði við stjórnendur deildar ef um skyndileg veikindi/lífslokameðferð er að ræða hjá íbúa).
  9. Undanþága frá reglum um heimsóknir hverju sinn, er aðeins veitt við alvarleg veikindi íbúa og þarf leyfi frá vaktstjóra deildar.
  10. Alls ekki koma í heimsókn ef:
    • Þú ert í sóttkví.
    • Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku.
    • Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
    • Þú ert með COVID-19 lík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).
    • Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun.

Bólusettir geta líka smitast af Covid og smitað aðra.

 

Enn og aftur leggur neyðarstjórn Hrafnistu áherslu á að staðan getur breyst mjög hratt og mögulegt er að grípa þurfi til frekari aðgerða og takmarkana ef þörf krefur.

 

Kær kveðja,

 Neyðarstjórn Hrafnistu

 

 

Lesa meira...

Helena Björk og Lena Sædís 20 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Árdís Hulda, Íris Huld, Helena Björk og Lena Sædís

 

Þær Helena Björk Jónasdóttir íþróttafræðingur og Lena Sædís Kristinsdóttir starfsmaður í sjúkraþjálfun hafa báðar starfað á Hrafnistu Hraunvangi  í 20 ár. Um leið og við óskum þeim til hamingju með áfangann er þeim þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem þær hafa sýnt heimilinu.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi, Íris Huld Hákonardóttir deildarstjóri sjúkraþjálfunar, Helena Björk og Lena Sædís.

 

 

Lesa meira...

Hrafnista mun áfram reka hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ

 

Kæru samstarfsfélagar,

Það gleður okkur að fá að upplýsa ykkur um að Hrafnista mun áfram reka Hrafnistu Ísafold.

Hlutirnir gerast hratt þegar fyrirtæki eins og Hrafnista er á hraðri siglingu. Í síðustu viku var send út tilkynning um að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hefðu, föstudaginn 20. ágúst, tilkynnt stjórnendum Hrafnistu að nýr samningsaðili, Vigdísarholt, myndi taka við rekstri Ísafoldar frá og með næstu áramótum.

Forsagan er sú að bæjarstjórn Garðabæjar hafði áður tekið þá ákvörðun að skila rekstri hjúkrunarheimilisins til ríkisins. Hrafnista var með samning við Garðabæ um rekstur heimilisins og hafði síðastliðin þrjú ár fengið greiðslur frá Garðabæ meðan verið var að ná rekstrinum niður í samræmi við þær tekjur sem við fáum greiddar samkvæmt þjónustusamning við SÍ. Hrafnista sagði því í kjölfarið upp þjónustusamningnum við SÍ, þar sem talsvert vantaði upp á til að ná endum saman, en óskaði jafnframt eftir samtali við SÍ um áframhaldandi rekstur þar sem margt var óljóst í rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila almennt. Eins og áður hefur komið fram var öðrum rekstraraðila falið að taka við Ísafold.

Mat stjórnenda Hrafnistu og Sjómannadagsráðs var að ekki var vilji fyrir hendi að hætta rekstri Ísafoldar þar sem heimilið passar vel inn í hugmyndafræði Hrafnistu og þar búa og starfa einstaklingar sem okkur er annt um. Því var ákveðið að óska eftir því við SÍ að draga uppsögn á þjónustusamningnum til baka og hefur SÍ nú samþykkt það frá og með seinni part dagsins í gær.

Við göngum keik inn í það verkefni með starfsfólki og stjórnendum að ná rekstri heimilisins á rétt ról án þess að það bitni á líðan íbúa og starfsfólks. Við bindum einnig vonir til þess að rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila fari batnandi í ljósi niðurstöðu Gylfaskýrslu heilbrigðisráðuneytisins. Saman getum við siglt þessari glæsilegu skútu sem Ísafoldin er á rétta braut, við höfum fulla trú á því þar sem við vitum hvers konar mannauð við eigum.

 

Með kærri kveðju,

María Fjóla Harðardóttir

Forstjóri Hrafnistuheimilanna

 

 

Lesa meira...

Fleiri en einn gestur getur komið í heimsókn á hverjum tíma

Kæru íbúar og aðstandendur.

Neyðarstjórn Hrafnistu hefur fengið ábendingu um að í bréfi sem sent var út til íbúa og ættingja í gær, þriðjudaginn 31. ágúst, hafi ekki komið nægilega skýrt fram með fjölda aðstandenda/gesta í heimsóknum. Því var sett inn viðbót í þær leiðbeiningar og er sú viðbót undirstrikuð hér í textanum fyrir neðan.

Aðrar leiðbeiningar sem koma fram í bréfinu frá í gær eru óbreyttar.

   2. Fjöldi gesta í heimsókn.

  • Neyðarstjórn dregur nú til baka þá beiðni til aðstandenda/gesta að það sé sami aðilinn sem komi í heimsókn nokkra daga í röð og skipti síðan við annan.
  • Fleiri en einn aðstandandi/gestur getur komið í heimsókn á hverjum tíma.
  • Neyðarstjórnin biðlar samt áfram til aðstandenda/gesta að sýna skynsemi og horfa til stöðunnar í samfélaginu á hverjum tíma.

 

Kær kveðja,

 Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Lesa meira...

Aríel Pétursson tekinn við formennsku í Sjómannadagsráði

 

Aríel Pétursson, varaformaður Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins frá síðasta aðalfundi sem fram fór í vor, tók í dag, 1. september, við formennsku í ráðinu í stað Hálfdans Henryssonar sem starfað hefur óslitið með Sjómannadagsráði í 34 ár. Hálfdan var kosinn í ráðið 1987 þar sem hann tók að sér ritnefndarstörf fyrir Sjómannadagsblaðið og gegndi því embætti í um aldarfjórðung. Hálfdan var síðan kjörinn í stjórn Sjómannadagsráðs 1993 og hefur síðan þá gegnt starfi ritara og gjaldkera Sjómannadagsráðs auk varaformennsku sem hann gegndi um árabil, eða allt þar til hann tók við sem formaður í maí 2017.

Aríel er 34 ára, fæddur í Reykjavík 22. nóvember 1987. Aríel er menntaður í skipstjórnarfræðum frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og frá Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins í Kaupmannahöfn þaðan sem hann útskrifaðist 2020. Aríel er kvæntur Hrefnu Marín Sigurðardóttur, dönskukennara og eiga þau þrjú börn; Jökul Orra (7 ára), Esju Marín (5 ára) og Eld Hrafn (2 ára). Aríel og Hrefna eru búsett í Garðabæ. Aríel hefur hingað til starfað sem yfirstýrimaður á freigátum danska sjóhersins, en starfaði áður á togurum íslenskra útgerða, m.a. sem stýrimaður, auk skipa Landhelgisgæslunnar þar sem hann var einnig stýrimaður.

Málefni hjúkrunarheimila í deiglunni

Aríel tekur við formennsku í stjórn Sjómannadagsráðs á ákveðnum tímamótum, þar sem málefni hjúkrunarheimila og búsetuúrræði aldraðra á Íslandi eru mjög í deiglunni um þessar mundir. Sjómannadagsráð er m.a. eigandi Hrafnistuheimilanna sem starfrækir í dag átta hjúkrunarheimili í fimm sveitarfélögum á suðvesturhorni landsins, og íbúðaleigufélagsins Naustavarar, sem á og rekur ríflega 260 leiguíbúðir fyrir sextíu ára og eldri á höfuðborgarsvæðinu. Hrafnistaer ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins og rekur um fjórðung allra hjúkrunarrýma á landinu. Íbúar heimilanna eru alls um 800 og dagdvalargestir á fjórða hundrað. Um 1.700 manns vinna á Hrafnistu sem skipar henni á bekk með fjölmennari vinnustöðum landsins þar sem þjónusta er veitt allan sólarhringinn alla daga ársins.

 

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Hálfdan Henrysson fráfarandi formaður afhenti í gær, 31. ágúst, Aríel Péturssyni lyklavöldin að skrifstofu Sjómannadagsráðs sem er til húsa að Hrafnistu í Laugarási Reykjavík.

 

 

Lesa meira...

Síða 23 af 175

Til baka takki