Fréttasafn

Þorrablót á Hrafnistu í Hraunvangi og Hrafnistu Boðaþingi

 

Árlegt þorrablót var haldið í hádeginu í gær á Hrafnistu Hraunvangi og Hrafnistu Boðaþingi.

Veislustjóri á Hrafnistu í Hraunvangi var Svavar Knútur og Bragi Fannar spilaði á harmonikku fyrir íbúa og starfsfólk í Boðaþingi.

Vegna aðstæðna er ekki hægt að bjóða gestum á þorrablótin á Hrafnistu í ár.

 

Lesa meira...

Mikil spenna á Hrafnistu í kringum EM í handbolta

Eins og svo margir í samfélaginu höfum við á Hrafnistu fylgst með Evrópumótinu í handbolta þar sem leikmenn íslenska karlalandsliðsins hafa sýnt stórkostlegan kartakter og spilað frábæran handbolta svo að öll þjóðin, sem og aðrar þjóðir reyndar líka, hefur hrifist með af frammistöðunni. Við á Hrafnistu notum hvert tækifæri til að búa til stemningu þegar tilefni gefst til og hvatt íbúana okkar til að vera með í fjörinu og það hefur svo sannarlega verið mikil handboltaveisla undanfarnar vikur hér á Hrafnistuheimilunum.

Meðfylgjandi myndir hafa verið teknar undanfarna daga á Hrafnistu þar sem íbúar og starfsfólk hefur fylgst spennt með gangi mála hjá strákunum á mótinu.

 

Lesa meira...

Bóndadagsgleði og þorrablót á Hrafnistuheimilunum

 

Á bóndadaginn var mikið um að vera á Hrafnistuheimilunum og í hádeginu var boðið upp á þorramat með öllu tilheyrandi.

Á Hrafnistu Hraunvangi er hefð fyrir því á bóndadaginn að Hrafnistukonur klæðist herrafatnaði (t.d. í skyrtu með bindi, hatt o.s.frv.) og gefi Hrafnistustrákum sem eru á vakt smá glaðning í tilefni dagsins.

Herramennirnir sem mættu á Viðey í dagdvöl á Hrafnistu Laugarási fengu afhentar bláar rósir í tilefni dagsins og þökkuðu þeir fyrir sig með því að fara með Minni kvenna. Bragi Fannar mætti og spilaði listilega vel á harmonikkuna nokkur vel valin þjóðleg lög við góðar undirtektir dagdvalargesta.

Á Hrafnistu Nesvöllum og Hrafnistu Ísafold var árlegt þorrablót haldið í hádeginu. Þau Hólmfríður og Sveinn spiluðu á harmonikkur undir borðhaldi á Ísafoldinni og á Nesvöllum voru sungin voru þjóðleg lög og dansað eftir matinn. 

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Báruhrauni Hrafnistu Hraunvangi

 

Aðalbjörg Ellertsdóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri á Báruhrauni Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði. Aðalbjörg lauk B.Sc. námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2017. Hún hóf fyrst störf á Hrafnistu Hraunvangi sem hjúkrunarnemi árið 2015 en gegnir núna stöðu hjúkrunarfræðings á Báruhrauni og mun taka við sem aðstoðardeildarstjóri þann 1. febrúar 2022.

 

 

 

 

Lesa meira...

Rætt við Sigurð Ólafsson, stjórnarmann í Sjómannadagsráði

Morgunblaðið birti í morgun viðtal við Sigurð Ólafsson sem situr í stjórn Sjómannadagsráðs:

Það er ekki mitt að ákveða hvernig fólk skemmtir sér í ellinni

Ef það er einhver sem lítur á eldri borgara sem óæðri þjóðfélagsþegna, sem þarf að hafa vit fyrir, ætti sá hinn sami að hitta Sigurð Ólafsson vélfræðing, sem er allt í senn ljúfur, fyndinn og skemmtilegur. Hann kaus með þeirri hugmynd að sækja um vínveitingaleyfi á Hrafnistu og sér ekkert því til fyrirstöðu að boðið verði upp á þungarokk og diskókúlu þar líka.

Sigurður Ólafsson kann að meta hvern dag eftir að hann hætti störfum sínum á sjó og fór að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum. Eiginkona Sigurðar er Ingibjörg Hjartardóttir og eiga þau þrjár dætur og sex barnabörn. Ungur að aldri þurfti hann að læra þolinmæði og að haga sér, langyngstur í stórum systkinahópi, sem var ekkert að deyja úr spenningi að hafa hann með. Sigurður er fæddur um miðja síðustu öld og bjó fjölskyldan þá á Ránargötu 1A. Hann hefur allar götur síðan búið vestan við lækinn, í Sörlaskjóli, á Melabraut, á Unnarbraut þar sem hann hóf búskap, á Hagamel og síðan á Bollagörðum þar sem þau hjónin búa núna. „Ég var langyngstur af systkinum mínum svo það féll í þeirra hlut að passa mig. Þau voru duglegir krakkar með nóg fyrir stafni, spiluðu fótbolta á Landakotstúninu eða bardúxuðu niðri í Slipp. Þau tóku mig með sér, lítinn í kerru, hvert sem förinni var heitið. Ég gat setið löngum stundum í kerrunni, ef bara var rifinn upp rabarbari í næsta garði fyrir mig. Þau áttu það hins vegar til að gleyma mér aðeins og þegar þau komu heim í mat á kvöldin var gjarnan spurt: Hvar er Siggi? Þá uppgötvaðist eftir nokkra leit að ég sat í kerrunni í rólegheitunum ennþá japlandi á rabarbaranum. Svona var lífið í borginni fyrir árið 1960.“

Var dröslað í kerrupoka yfir bátana

Fórstu aldrei upp úr kerrunni að leita að ævintýrunum sjálfur? „Nei að sjálfsögðu ekki, mér hefði ekki dottið það í hug. Listin í lífinu er að kunna sig og vita sinn stað. Ég var ungur þegar ég lærði það.“ Faðir Sigurðar var vélstjóri og móðir hans húsmóðir. Fjölskyldan bjó á Ránargötu þar til Sigurður var sex ára að aldri þegar hún færði sig um set í Sörlaskjólið. „Þegar maður er svona yngstur í hópnum þá eru allir að ala mann upp. Ég á aðra góða sögu af mér og Erni bróður mínum sem setti sæti á hjólið sitt, fyrir framan stýrið til að geta hjólað með mig um borgina. Einn daginn, þegar hann hafði fengið lánaðan lítinn bát niðri við höfn, fór hann með mig í kerrupokanum framan á hjólinu þangað. Hann druslaði mér í kerrupokanum þvert yfir alla hvalbátana fjóra sem lágu, líkt og þeir gera nú, við Ægisgarð. Hann kom okkur í litla bátinn og reri svo með mig um alla höfnina. Ég var í kringum tveggja ára aldurinn og hann var þá tólf ára.“

Stóð vaktina sem vélstjóri á varðskipum í þorskastríðunum

Sigurður fór í Vélskólann á sínum tíma og gerði svo samning við Vélsmiðjuna Héðinn. Hann lauk náminu í Vélskólanum árið 1973 og sveinspróf í vélvirkjun á vormánuðum árið 1974. „Ég var á varðskipum á milli bekkja í Vélskólanum og í þorskastríðinu þegar lögsagan var útvíkkuð í 50 mílur. Seinna fór ég í fasta vinnu fyrir Landhelgisgæsluna þar sem ég tók þátt í að verja 200 mílurnar og starfaði ég hjá gæslunni þar til árið 1980 þegar ég fór að sigla fraktskipum sem ég gerði til ársins 1996. Þá réð ég mig á verkstæði Dynjanda í Skeifunni.“ Sigurður réð sig seinna til Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar sem seinna varð Faxaflóahafnir, fyrst sem bryggjuvörður og síðan sem vélstjóri á dráttarbátum frá árinu 2001 til ársins 2020. „Þessi störf voru misjafnlega skemmtileg. Ég verð að viðurkenna að það var ákaflega mikil reynsla fyrir ungan mann að vera vélstjóri um borð í varðskipi, þar sem allar vélar voru keyrðar í botn. Þá skipti máli að fylgjast vel með vélunum og grípa inn í þegar þörf var á því. Ég get ekki sagt að það hafi verið notalegt að vera niðri í vélarúmi og finna þegar freigáta keyrði á okkur og svo stöðvaðist önnur vélin þegar veltiuggar freigátunnar fóru í skrúfuna á varðskipinu Óðni. Þessar minningar eru ljóslifandi í huga mér enn þá.“ Hvernig leið þér á þessum tíma? Óttaðist þú um líf þitt? „Manni bregður við, en mér bar skylda til að hugsa um vélarnar og þegar önnur vélin stoppaði þá leið mér ekki vel, en ég var bara rólegur yfir þessu, þó ég verð að viðurkenna að það hafði áhrif á mig að sjá seglin tekin af fallbyssunum og vélbyssunum, þótt það væri meira gert til að sýna mátt sinn en eitthvað annað.“ Sigurður tók þátt í fleiri sögulegum viðburðum á Íslandi, meðal annars þegar hann fór vegna Heimaeyjargossins til Vestmannaeyja ásamt tveimur öðrum vélstjórum, að búa til sköfur sem notaðar voru til að fjarlægja vikurinn af þökum þeirra húsa sem höfðu lent illa í því í gosinu. „Við fengum úthlutað vélaverkstæði þar sem við gátum smíðað sköfurnar. Ég var enn þá kornungur á þessum tíma, árið 1973, en við dvöldum þarna í rúmlega viku og gerðum okkar besta.“ Sigurður er fylginn sér og situr í dag í öldungaráði Landhelg- SJÁ SÍÐU 10 Morgunblaðið/Árni Sæberg Sigurður á fjölmörg áhugamál. Eitt þeirra er að rækta japönsk tré í garðinum sínum. Það er ýmislegt fallegt hægt að rækta í garðinum þegar góður tími gefst til þess. Morgunblaðið, 21.01.2022, síðu 46 grein stærð: 503.27 sm2 grein hæð: 19.17 sm insgæslunnar þar sem menn miðla af reynslu sinni og þekkingu. „Ég var sextán ára þegar ég skráði mig á Haförninn hjá föður mínum þar sem ég vann sem dagmaður á vélarúmi. Þar áður fór ég í túra á sumrin þegar pabbi tók mig með á skipið Kötlu, sem sigldi um margar hafnir í Eystrasaltinu, meðal annars til Leningrad. Ég man sérstaklega eftir einni ferð sem ég fór, árið 1963, þá tólf ára, þegar ég sigldi með föður mínum til Napólí á Ítalíu með saltfisk. Það má því segja að ég hafi verið vel sigldur áður en ég fór að vinna á hinum ýmsum skipum sem ungur maður.“ Það er mikilvægt að hafa góða vinnu og að sýna fyrirhyggju þegar kemur að framtíðinni að mati Sigurðar. „Að borga í lífeyrissjóði svo ekki sé talað um aðra sjóði sem brýnt er að stofna og eiga fyrir efri árin. Það er nefnilega ýmislegt skemmtilegt hægt að gera í ellinni, eins og ég og konan mín höfum verið að upplifa. Við höfum varla stoppað eftir að við fórum á eftirlaun. Að sjálfsögðu hefur kórónuveiran aðeins haldið aftur að okkur, en við höfum verið að ferðast og skemmta okkur eins vel og við kunnum. Ástandið verður vonandi ekki langvarandi og þá erum við farin af stað aftur.“

Berst fyrir auknum félagslegum réttindum aldraðra

Sigurður hefur setið í stjórn Hrafnistu síðastliðin tíu ár, fyrir hönd Félags vélstjóra og málmtæknimanna. „Ég hef haft mjög gaman af því að sitja í stjórn sjómannadagsráðs og tel ég oft og tíðum fólk ekki gera sér grein fyrir því hvað þetta er stórt fyrirtæki. Í raun er Hrafnista næststærsta heilbrigðisstofnunin á Íslandi. Eigendur fyrirtækisins eru stéttarfélög sjómanna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Eignir Hrafnistu eru 250 íbúðir sem leigðar eru út og hjúkrunarheimilin eru sex talsins sem sjómannadagsráð rekur. Svo eigum við eitt kvikmyndahús, Laugarásbíó.“ Þeir sem þekkja Sigurð vita að hann hefur lengi barist fyrir mannsæmandi lífi fyrir eldra fólk í landinu. „Að mínu mati þarf að laga núverandi kerfi, sem er þannig að fólk er látið borga allt nema níutíu þúsund krónur af ellilífeyrissjóðnum sínum. Það finnst mér gamalt og úrelt kerfi. Í Danmörku er það þannig að einstaklingar sem fara á hjúkrunarheimili borga leigu og eiga svo allan sinn afgangspening fyrir sig. Annað er mjög valdeflandi kerfi og hitt er jöfnunarkerfi sem byggir á forræðishyggju. Eldri borgarar eru frjálst fólk, með sínar eigin langanir og þarfir. Ég styð baráttu Gráa hersins.“ Sigurður var einn þeirra stjórnarmanna sem samþykkti að Hrafnista fengi vínveitingaleyfi. „Já, að sjálfsögðu tók ég þátt í að koma á þeirri breytingu. Ég skildi aldrei umræðuna um barinn á Hrafnistu á sínum tíma. Eldra fólk á að geta fengið sér áfengi líkt og aðrir. Af hverju að vera að gera mál úr því? Það eru ákveðin mannréttindi að eldra fólk geti setið í huggulegu umhverfi, og barinn er nú bara matsalurinn, en þar getur fólk nú fengið sér einn drykk og maður sér aldrei fullt gamalmenni, með göngugrind og glas í hendi. Ég get lofað ykkur því.“

Það á að vera mjög mikið stuð eftir sjötugt

Er þá ekkert stuð eftir sjötugt? „Jú, jú, það er mjög mikið stuð eftir sjötugt, enda er fólk að fara svo miklu betur með sig nú en áður. Við verðum líka að muna að nú eru kynslóðirnar sem eru með húðflúr á leiðinni inn á hjúkrunarheimilin.“ Hvernig sérðu það fyrir þér? Verður eftirspurn eftir þungarokki og diskókúlu? „Það væri allt í lagi mín vegna, enda ekki mitt að stjórna því hvernig fólk ákveður að skemmta sér í ellinni.“ Hver er lykillinn að góðu lífi? „Þegar börnin voru yngri og hlutirnir voru aðeins flóknari, þá var ég með vinnu út á sjó, svo ég þurfti nú ekki mörg verkfæri til að ráða við það, en ég á dásamlegar dætur sem öllum vegnar vel í lífinu. Að mínu mati þarf að reka fjölskylduna líkt og fyrirtæki og hjón þurfa að vera samstíga með það. Ef ég mætti deila minni reynslu og gefa öðrum mér yngri mönnum ráð, þá myndi ég hvetja alla til að mennta sig og síðan til að stunda vinnuna sína, koma sér vel fyrir og búa svo til fjárhagslegt plan fyrir framtíðina. Þú verður að eiga peninga til að njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum, sinna félagsstörfum, læra nýja og uppbyggilega hluti og að sinna áhugamálunum sem geta verið mörg.“

 

Lesa meira...

Nýr aðstoðardeildastjóri hjúkrunar á Hrafnistu Skógarbæ

 

Guðrún Lovísa hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á 2. hæð á Hrafnistu Skógarbæ frá 1. janúar 2022 í afleysingu fyrir Sigríði, sem nú er í fæðingarorlofi.

Guðrún Lovísa útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur árið 2004 frá Háskóla Íslands. Hún hefur bætt við sig námi í gjörgæsluhjúkrun auk þess sem hún er nú í MS námi í forystu og stjórnun. Guðrún Lovísa hefur starfað sem aðstoðardeildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Uppsölum, auk þess sem hún starfaði í 5 ár sem hjúkrunarfræðingur á Hrafnistu Boðaþingi.

Guðrún Lovísa hefur víðtæka klíníska reynslu s.s. af gjörgæslu, slysa- og bráðamóttöku, þvagfæra- og almennri skurðdeild.

Við bjóðum Guðrúnu Lovísu hjartanlega velkomna í okkar öfluga starfsmannahóp á Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir ráðin aðstoðardeildarstjóri iðjuþjálfunar/félagsstarfs á Hrafnistu Hraunvangi

 

Maren Ósk Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri iðjuþjálfunar/félagsstarfs á Hrafnistu Hraunvangi.

Maren er iðjuþjálfi að mennt en hún nam iðjuþjálfunarfærðin við Odense Universitet í Danmörku og lauk því námi árið 1986. Auk þess hefur hún tekið stjórnendanám við Háskólann á Bifröst. Maren hefur m.a. verið forstöðumaður hjá Heimaþjónustudeild Hornafjarðar og starfað við málefni fatlaðra hjá Sveitarfélaginu Hornafirði, bæði sem deildarstjóri og forstöðumaður, en undanfarin ár hefur hún starfað sem iðjuþjálfi við starfsendurhæfingu á Reykjalundi.

 

Lesa meira...

Nilanka I. Dewage 20 ára starfsafmæli á Hrafnistu

 

Nilanka I. Dewage, starfsmaður í býtibúri á Ölduhrauni Hrafnistu Hraunvagi,  hefur starfað á Hrafnistu í 20 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

Nilanka fékk venju samkvæmt afhenta starfsafmælisgjöf frá Hrafnistu af þessu tilefni og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri.

Á myndinni eru frá vinstri: Árdís Hulda Eiríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu Hraunvangi, Nilanka, Hrönn Önundardóttir hjúkrunardeildarstjóri á Ölduhrauni og María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu. 

 

 

Lesa meira...

Síða 19 af 175

Til baka takki