Grein eftir Pétur Magnússon, forstjóra Hrafnistuheimilanna, sem birtist í Morgunblaðinu í gær.
Alhæfingar um starfsemi hjúkrunarheimila
Á undanförnum misserum hafa birst á samfélagsmiðlum nokkrar ófagrar lýsingar á þjónustu við aldraða, meðal annars á hjúkrunarheimilum landsins. Langflest þeirra eru aðilar að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu þar sem unnið er markvisst að því alla daga ársins að veita öldruðum þá bestu þjónustu sem völ er á. Stöðugur árangur þeirrar viðleitni er meðal annars sá að sums staðar erlendis er litið til Íslands sem fyrirmyndar í þjónustu við aldraða. Þeir sem kynna sér málið af eigin raun komast að því sanna í þeim efnum. Það er því leitt þegar birtast ljótar lýsingar þar sem alhæft er um heila starfsgrein eins og því miður hefur gerst að undanförnu.
Undirritaður hefur starfað í öldrunarþjónustu í átta ár. Vinnustaðurinn telur rúmlega eitt þúsund starfsmenn. Á landinu öllu má gera ráð fyrir að vel á fimmta þúsund manns starfi í greininni. Í starfsliðinu eru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar, læknar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, íþróttakennarar, félagsráðgjafar, skrifstofufólk, matreiðslumenn, tómstunda- og félagsmálafræðingar, iðnaðarmenn, umönnunaraðilar og svona mætti lengi telja.
Flest erum við venjulegt fólk sem höfum metnað fyrir daglegum störfum okkar sem felst í því að varðveita lífsgæði íbúa hjúkrunarheimila og annarra sem sækja þangað daglega þjónustu. Við erum synir og dætur, feður og mæður, systur og bræður, frænkur og frændur, vinir og kunningar, rétt eins og raunin er með starfsfólk í öðrum atvinnugreinum. Í mínu starfi vinn ég með miklum fjölda fólks sem ég myndi hiklaust treysta fyrir eigin velferð og minna nánustu ef svo bæri undir. Þrátt fyrir það erum við í öldrunarþjónustunni alls ekki hafin yfir gagnrýni. Við erum ekki fullkomin frekar en annað fólk. Þess vegna er það markmið okkar og ásetningur að hlusta vel á málefnalega gagnrýni og ekki síst góðar ábendingar um það sem betur má fara í störfum okkar. Við verðum jafnframt að vera óhrædd við að gera breytingar þegar við sjáum fram á jákvæð áhrif þeirra á lífsgæði íbúanna. Við þurfum líka að hafa kjark til að biðjast afsökunar verði okkur á mistök. Við vitum til dæmis að sumum hentar ekki að starfa við umönnun aldraðra og sem betur fer hverfa slíkir einstaklingar oftast fljótt til annarra starfa sem henta þeim betur. Þjónusta við aldraða krefst fagmennsku, þolinmæði, hjartahlýju og einlægs áhuga á því að vera með öldruðum.
Engri starfsstétt hefur tekist að ráða undantekningarlaust rétta starfsmanninn. Það verða alltaf einhverjir sem ekki uppfylla væntingar okkar, íbúa hjúkrunarheimilanna og aðstandenda þeirra. Það er eins í okkar atvinnugrein sem öðrum. Til að sporna sem mest gegn neikvæðum tilvikum hafa hjúkrunarheimilin innleitt, í æ ríkara mæli, reglulegar gæðamælingar og skýrar verklagsreglur sem þó taka breytingum í samræmi við bestu rannsóknir á hverjum tíma sem sýna hvernig hægt er að auka lífsgæði í öldrunarþjónustunni.
Það er ekkert launungarmál að skert fjárframlög og stíf inntökuskilyrði hins opinbera, þar sem aðeins hinir allra veikustu fá heimild til búsetu á hjúkrunarheimili, hafa aukið mjög álag á starfsfólk. Þrátt fyrir það erum við öll að vilja gerð til að gera ávallt okkar besta í störfum okkar. Okkur þykja því sárar þær alhæfingar sem af og til birtast um slæma meðferð á öldruðum á Íslandi. Við fögnum hins vegar málefnalegri og uppbyggilegri umræðu og bendum öllum á að kynna sér starfsemina af eigin raun. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni gæti til dæmis verið heimsókn á Facebook-síður heimilanna eða heimasíður, sem eru fjölmargar. Bendi ég til dæmis á síðu Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grundar, Handverksheimilis Hrafnistu, Öldrunarheimils Akureyrar, Ísafoldar og margra annarra, þar sem nær daglega berast skemmtilegar fréttir úr starfseminni. Það yrði gaman að upplifa þann dag þegar landsmenn deildu í hundraða tali frétt um nýtt tímamótatæki í hreyfiþjálfun aldraðra á einhverju heimilanna eða þegar Laddi fer á kostum á þorrablóti heimilismanna. Það eru forréttindi að fá að vinna með öldruðum sem vita hvað það er sem er mikilvægast í lífinu.
Pétur Magnússon
Formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu