Fréttasafn

Nýtt Hrafnistubréf komið út

Lesa meira...

Nýtt Hrafnistubréf er komið út en það er gefið út  tvisvar á ári í um tvö þúsund eintökum. Blaðinu er dreift til íbúa Hrafnistuheimilanna og íbúa í þjónustuíbúðum við Hrafnistu. Því er einnig dreift til annarra hjúkrunarheimila á landinu, heilsugæslustöðva, sveitarstjórnarmanna, alþingismanna, fjölmiðla og fleiri aðila.  

Hrafnistubréfið er hægt að finna hér á heimasíðu Hrafnistu. Með því að fara á forsíðu Hrafnistu er það í stiku til hægri á síðunni og auðvelt að lesa það með því að smella á myndina.

 

 

Lesa meira...

Kjörár fyrir nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga

Efri röð f.v. Jenný, Ragnhildur, Birna og Ásthildur
Lesa meira...

Hrafnista býður upp á spennandi valkosti fyrir nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga. Um er að ræða Kjörár þar sem hjúkrunarfræðingum gefst kostur á að kynnast öldrunarhjúkrun í víðum skilningi.

Á meðfylgjandi mynd eru kjörársnemar Hrafnistu 2015 – 2016, efri röð frá vinstri: Jenný, Ragnhildur, Birna og Ásthildur

Sjá nánari upplýsingar hér

 

 

Lesa meira...

Jóhanna B. Guðmundsdóttir 10 ára starfsafmæli á Hrafnistu í Reykjavík

F.v. Dagný, Jóhanna, Sigrún og Pétur.
Lesa meira...

Jóhanna B. Guðmundsdóttir, starfsmaður í aðhlynningu á Sólteigi Hrafnistu í Reykjavík, hefur starfað á Hrafnistu í 10 ár. 

Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Dagný Jónsdóttir aðstoðardeildarstjóri á Sólteigi, Jóhanna B. Guðmundsdóttir, Sigrún Stefánsdóttir forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík og Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu.

 

 

 

 

Lesa meira...

Kristín Hafsteinsdóttir 10 ára starfsafmæli á Hrafnistu í Hafnarfirði

F.v. Guðríður, Kristín og Pétur.
Lesa meira...

 

Kristín Hafsteinsdóttir, sjúkraliði á Sjávar-/Ægishrauni Hrafnistu í Hafnarfirði, hefur starfað á Hrafnistu í 10 ár. 

Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Guðríður Sigurðardóttir deildarstjóri á Sjávar-/Ægishrauni, Kristín Hafsteinsdóttir og Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu.

 

Svipmyndir frá heimsókn Karlakórsins Heimis laugardaginn 12. mars

Lesa meira...

Karlakórinn Heimir hélt tónleika í Skálafelli á Hrafnistu í Reykjavík laugardaginn 12. mars. Það var mikil eftirvænting hjá heimilisfólki enda um að ræða 70 manna kór úr Skagafirðinum. Um 140 manns hlýddu á tónleikana og var stemningin gríðarlega góð. Sama dag var kórinn með tónleika í Grafarvogskirkju. Kórfélagarnir gistu á hóteli í grend við Hrafnistu og að sögn kórstjórans fannst þeim tilvalið að kíkja við á Hrafnistu áður en þeir skelltu sér þangað.

Kórmeðlimir komu færandi hendi og færðu heimilismönnum geisladiska sem karlakórinn hefur gefið út.

Við þökkum karlakórnum Heimi kærlega fyrir tónleikana og þá gleði sem þeir færðu heimilisfólki á Hrafnistu.

 

Með því að smella á slóðina hér fyrir neðan má hlýða á kórinn syngja „Undir bláhimni“ sem alltaf er gaman að hlusta á.

 

 

https://drive.google.com/file/d/0BxnmismDal2BdkZQTlRsV0hKR1E/view

 

 

Lesa meira...

Rithöfundar í heimsókn á Hrafnistu í Reykjavík

Lesa meira...

Starfsfólk á vinnustofu Hrafnistu Reykjavík eru að lesa upp úr bók Helgu Guðrúnar Johnson Saga þeirra sagan mín. En þar skráir Helga Guðrún ótrúlega kynslóðasögu þriggja sjálfstæðra kvenna og sviptir hulunni af sögum sem hafa legið í þagnargildi alltof lengi.  Í vikunni kom svo sjálfur höfundurinn í heimsókn og las upp úr fyrrnefndri bók við mikinn fögnuð heimilismanna.

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur kom einnig í heimsókn í vikunni náði upp mikilli stemningu með lestri úr bók sinni Litlar byltingar. Litlar byltingar eru sögur af tíu konum sem spanna í senn eitt kvöld, eitt ár og heila öld. Hér óma raddir mæðgna, systra og dætra sem dreymir um betri daga, sléttar götur, frjálsar konur og börn sem lifa. Heimilisfólkið okkar vildi heyra meira og meira. Hún kemur aftur til okkar og þá verður framhald. Mjög skemmtilegt þegar höfundar eru gjöfulir á verkin sín.

Þökkum þeim Helgu Guðrúnu og Kristínu Helgu kærlega fyrir góðar stundir. 

 

Lesa meira...

Föstudagsfræðsla á Hrafnistu í Reykjavík, föstudaginn 11. mars

Lesa meira...

Soffía S. Egilsdóttir, félagsráðgjafi, verður með fræðslu fyrir starfsfólk, heimilisfólk og dvalargesti Hrafnistu í dag föstudaginn 11. mars kl. 13:40 í samkomusalnum Helgafelli 4. hæð Hrafnistu í Reykjavík.

 

Fræðsluerindi dagsins er: Hlutverk aðstandenda

Alhæfingar um starfsemi hjúkrunarheimila

Lesa meira...

Grein eftir Pétur Magnússon, forstjóra Hrafnistuheimilanna, sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

 

Alhæfingar um starfsemi hjúkrunarheimila

Á undanförnum misserum hafa birst á samfélagsmiðlum nokkrar ófagrar lýsingar á þjónustu við aldraða, meðal annars á hjúkrunarheimilum landsins. Langflest þeirra eru aðilar að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu þar sem unnið er markvisst að því alla daga ársins að veita öldruðum þá bestu þjónustu sem völ er á. Stöðugur árangur þeirrar viðleitni er meðal annars sá að sums staðar erlendis er litið til Íslands sem fyrirmyndar í þjónustu við aldraða. Þeir sem kynna sér málið af eigin raun komast að því sanna í þeim efnum. Það er því leitt þegar birtast ljótar lýsingar þar sem alhæft er um heila starfsgrein eins og því miður hefur gerst að undanförnu.

Undirritaður hefur starfað í öldrunarþjónustu í átta ár. Vinnustaðurinn telur rúmlega eitt þúsund starfsmenn. Á landinu öllu má gera ráð fyrir að vel á fimmta þúsund manns starfi í greininni. Í starfsliðinu eru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, félagsliðar, læknar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, íþróttakennarar, félagsráðgjafar, skrifstofufólk, matreiðslumenn, tómstunda- og félagsmálafræðingar, iðnaðarmenn, umönnunaraðilar og svona mætti lengi telja.

Flest erum við venjulegt fólk sem höfum metnað fyrir daglegum störfum okkar sem felst í því að varðveita lífsgæði íbúa hjúkrunarheimila og annarra sem sækja þangað daglega þjónustu. Við erum synir og dætur, feður og mæður, systur og bræður, frænkur og frændur, vinir og kunningar, rétt eins og raunin er með starfsfólk í öðrum atvinnugreinum. Í mínu starfi vinn ég með miklum fjölda fólks sem ég myndi hiklaust treysta fyrir eigin velferð og minna nánustu ef svo bæri undir. Þrátt fyrir það erum við í öldrunarþjónustunni alls ekki hafin yfir gagnrýni. Við erum ekki fullkomin frekar en annað fólk. Þess vegna er það markmið okkar og ásetningur að hlusta vel á málefnalega gagnrýni og ekki síst góðar ábendingar um það sem betur má fara í störfum okkar. Við verðum jafnframt að vera óhrædd við að gera breytingar þegar við sjáum fram á jákvæð áhrif þeirra á lífsgæði íbúanna. Við þurfum líka að hafa kjark til að biðjast afsökunar verði okkur á mistök. Við vitum til dæmis að sumum hentar ekki að starfa við umönnun aldraðra og sem betur fer hverfa slíkir einstaklingar oftast fljótt til annarra starfa sem henta þeim betur. Þjónusta við aldraða krefst fagmennsku, þolinmæði, hjartahlýju og einlægs áhuga á því að vera með öldruðum.

Engri starfsstétt hefur tekist að ráða undantekningarlaust rétta starfsmanninn. Það verða alltaf einhverjir sem ekki uppfylla væntingar okkar, íbúa hjúkrunarheimilanna og aðstandenda þeirra. Það er eins í okkar atvinnugrein sem öðrum. Til að sporna sem mest gegn neikvæðum tilvikum hafa hjúkrunarheimilin innleitt, í æ ríkara mæli, reglulegar gæðamælingar og skýrar verklagsreglur sem þó taka breytingum í samræmi við bestu rannsóknir á hverjum tíma sem sýna hvernig hægt er að auka lífsgæði í öldrunarþjónustunni.

Það er ekkert launungarmál að skert fjárframlög og stíf inntökuskilyrði hins opinbera, þar sem aðeins hinir allra veikustu fá heimild til búsetu á hjúkrunarheimili, hafa aukið mjög álag á starfsfólk. Þrátt fyrir það erum við öll að vilja gerð til að gera ávallt okkar besta í störfum okkar. Okkur þykja því sárar þær alhæfingar sem af og til birtast um slæma meðferð á öldruðum á Íslandi. Við fögnum hins vegar málefnalegri og uppbyggilegri umræðu og bendum öllum á að kynna sér starfsemina af eigin raun. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni gæti til dæmis verið heimsókn á Facebook-síður heimilanna eða heimasíður, sem eru fjölmargar. Bendi ég til dæmis á síðu Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grundar, Handverksheimilis Hrafnistu, Öldrunarheimils Akureyrar, Ísafoldar og margra annarra, þar sem nær daglega berast skemmtilegar fréttir úr starfseminni. Það yrði gaman að upplifa þann dag þegar landsmenn deildu í hundraða tali frétt um nýtt tímamótatæki í hreyfiþjálfun aldraðra á einhverju heimilanna eða þegar Laddi fer á kostum á þorrablóti heimilismanna. Það eru forréttindi að fá að vinna með öldruðum sem vita hvað það er sem er mikilvægast í lífinu.

Pétur Magnússon

Formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

 

Síða 152 af 173

Til baka takki