Fréttasafn

Gáfu öllum átta hundrað íbúum Hrafnistuheimilanna páskaegg

Lesa meira...

 

Sjónvarpsþátturinn Lífið er lag, sem sýndur er á Hringbraut, fjallar um stöðu, hagsmuni og framtíðarsýn eldra fólks á Íslandi. Aðstandendur þáttarins komu í vikunni færandi hendi til Hrafnistu með um átta hundruð Góupáskaegg að gjöf handa öllum íbúum Hrafnistuheimilanna sem búsettir eru á átta heimilum sem Hrafnista starfrækir á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

Að sögn Sigurðar K. Kolbeinssonar þáttastjórnanda er gjöfin framlag þáttarins til íbúanna sem um þessar mundir geta því miður ekki þegið heimsóknir frá aðstandendum á meðan faraldur Covid-19 veirunnar gengur yfir. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir gjöfina góðan vitnisburð um þann samhug og hlýju sem einstaklingar og fyrirtæki sýna þessa dagana í garð ýmissa þjóðfélagshópa, ekki síst aldraðra á hjúkrunarheimilum, þar sem tónlistarfólk hefur einnig komið saman fyrir utan hjúkrunarheimili um allt land til að syngja fyrir íbúa.

Meðfylgjandi mynd var tekin í nýrri þjónustubyggingu Sjómannadagsráðs við Sléttuveg þegar Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistuheimilanna veitti gjöfinni viðtöku. Hrafnista starfrækir um 25% hjúkrunarrýma á landinu og starfa þar um 1500 manns.

 

 

Lesa meira...

Slysavarnarfélagið Dagbjörg færir íbúum á Hrafnistu Nesvöllum og Hlévangi í Reykjanesbæ góðar gjafir

Lesa meira...

Það má með sanni segja að það er mikill samtakamáttur og samhugur í samfélaginu á þessum sérstöku tímum. Um helgina kom slysavarna deildin Dagbjörg færandi hendi með ýmislegt til dægrastyttingar fyrir íbúa Nesvalla og Hlévangs. Púsluspil, ýmis borðspil og þrautir, kast hringur og minigolf. Hafið innilegar þakkir fyrir þessar frábæru gjafir kæra Dagbjörg.

 

 

Lesa meira...

Hugleiðingar til íbúa Hrafnistuheimilanna og aðstandenda þeirra

Lesa meira...

 

Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn að fara tala um óvenjulegt og fordæmalaust ástand í starfseminni okkar hér á Hrafnistu síðustu daga. Í dag eru þrjár vikur síðan Neyðarstjórn Hrafnistu tók þá erfiðu ákvörðun að takmarka með stífum hætti heimsóknir til íbúanna okkar. Hrafnista er lang stærsti aðilinn sem kemur að starfsemi hjúkrunarrýma hér á landi; starfrækjum nú átta hjúkrunarheimili í fimm sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Hjúkrunarrýmin eru alls um 800 og starfsfólk heimilanna tæplega 1.500. Það var því ljóst að aðgerð sem þessi hefði bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga.

Hverjar eru ástæðurnar fyrir þessum aðgerðum?

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og það er í raun ástæðan fyrir þessum aðgerðum sem eru án fordæma í sögunni.
Þar sem íbúar Hrafnistu, rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Því færri sem koma inn á heimilin því minni líkur á smiti.

Þetta er hins vegar þungbær ákvörðun sem er tekin að vel yfirlögðu ráði. Okkur þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun, en þetta er gert með velferð íbúanna okkar að leiðarljósi og höfum við beðið fólk að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki. Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa.

Starfsfólk hjúkrunarheimila veit mjög vel um mikilvægi samvista aðstandenda og íbúa; það þarf ekkert að eyða mikilli orku í ræða þau mál - en jafnframt er gott að hafa í huga að takamarkanir á heimsóknum á hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir eru í flestum löndum kringum okkur, t.d. Danmörku, svo þetta er ekkert séríslenskt fyrirbrigði eins og kannski einhverjir hafa látið í veðri vaka.

Jafnframt hefur umferð allra annarra en nauðsynlegs starfsfólks á vakt, verið takmörkuð inn á Hrafnistuheimilin. Það á sem dæmi við um birgja með vörur, iðnaðarmenn og aðra sem þurfa að koma inn á heimilin og hafa verið gerðar sérstakar verklagsreglur í tengslum við slíka hópa. Undantekningar til aðstandenda eru leyfðar að mjög takmörkuðu leiti og er þá leyst úr því sérstaklega í hverju tilfelli.

Jákvæð viðbrögð hvetja okkur áfram

Viðbrögð ykkar íbúa og ættingja hafa verið mikil síðan þessi ákvörðun var kynnt. Fólkið okkar fylgist auðvitað vel með fréttum og hefur töluverðar áhyggjur af málum, þó fáir hafi látið þetta raska ró sinni.

Margir hafa hringt eða sent tölvupóst. Almennt er fólk mjög ánægt með þessa ákvörðun og langflestir þakka okkur fyrir að taka málin svona föstum tökum. Fólk er almennt að sýna þessu mikinn skilning með einhverjum örfáum undantekningum. Fyrir það erum við mjög þakklát og sendum ykkur bestu kveðjur fyrir stuðninginn.

Jafnframt er gaman að geta þess að fjöldi góðgerðafélaga og fyrirtækja hefur á þessum tíma sýnt Hrafnistuheimilunum mikla velvild í formi beinna gjafa (spjaldtölvur, matvörur, drykkjarvörur o.fl.) eða verulegra afsláttakjara og fyrir það ber að þakka af hlýhug.

Áhrif á daglegt starf og þjónustu

Svona ákvörðun hefur auðvitað mikil áhrif á daglega þjónustu. Þegar heimsóknir leggjast af breytist auðvitað daglegt líf á hjúkrunarheimilum mjög mikið. Við höfum því verið að endurskipuleggja þætti eins og alla sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og félagsstarf sem nú þarf að sinna með öðrum hætti en á venjulegum degi. Mig langar þó að nota þetta tækifæri og hrósa starfsfólk Hrafnistu fyrir hreint magnað starf með fólkinu okkar undanfarið. Það er ekki til nein verklagsregla eða kennslubók um hvernig dagleg starfsemi hjúkrunarheimila á að bregðast við faraldri sem þessum. Það eru því ný mál að koma upp á hverjum degi sem þarf að leysa. Allir virðast vera á tánum og eldmóður og kraftur við að leysa úr hlutunum er einstakur, hvort sem það er varðandi bókhaldið okkar eða almennt starf inn á hjúkrunardeildum.

Jafnframt höfum við verið að hvetja starfsfólk til að vera alveg sérstaklega duglegt að aðstoða íbúana okkar til að vera í nánu sambandi við ættingja og vini. Þar er tilvalið að nýta sér einfalda hluti eins og myndsímtöl gegnum Messenger, Facetime og fleiri aðferðum. Venjuleg símtöl er líka alltaf mikilvæg.

Næstu skref

Ykkur til fróðleiks, þá tekur Neyðarstjórn Hrafnistu símafund með sýkingavarnastjóra (og fleirum) nánast daglega þannig að mál og viðfangsefni eru í sífelldri endurskoðun. Einnig er reglulega fundað með fulltrúum almannavarna og embættis landlæknis. Markmiðið er að hagsmunir íbúa og starfsfólks séu í forgrunni. Með hverjum deginum sem líður án þess að veiran sé komin inn á hjúkrunarheimilin erum við betur í stakk búinn til að mæta málum ef þau koma upp. Vonandi styttist þó í að við komumst í eðlilegt ástand aftur en þangað til höldum við áfram að vera dugleg að finna aðrar lausnir; með velferð fólksins okkar að leiðarljósi.

Ágætu íbúar, aðstandendur og samstarfsfólk – þið eigið eindregnar þakkir skyldar fyrir ykkar merka starf og þátttöku á þessum óvenjulegu tímum. Ég er gríðarlega stoltur samstöðunni og er sannfærður að við komumst í gegnum þessa erfiðleika fyrr en síðar!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Lesa meira...

Allir í stíl eins og Alma

Lesa meira...

 

Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um starfið okkar og rætt við Árdísi Huldu Eiríksdóttur forstöðumann á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði.

 

Föstudagar eru þemadagar á Hrafnistu í Hafnarfirði.

„Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af gamla fólkinu okkar þó svo það sé ekki hægt að heimsækja það“, segir Kristrún Steinarsdóttir í pósti til Morgunblaðsins og vekur athygli á góðu starfi starfsfólks Hrafnistu í Hafnarfirði.

Árdís Hulda Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður á Hrafnistu, segir að í þessu erfiða ástandi, þegar þurft hafi að loka heimilinu vegna samkomubanns á meðan kórónuveiran raskar lífi fólks, sé reynt að brjóta upp alla daga. „Það er auðvitað gríðarlega erfitt fyrir alla að aðstandendur megi ekki koma í heimsókn og því ákváðum við strax að leggja aukalega í hvern dag.“

Auk hefðbundinnar dagskrár, sem samanstendur meðal annars af öflugu félagsstarfi, iðjuþjálfun og sjúkraþjálfun, hefur einkum verið lagt upp úr því að gera kaffitímana ánægjulega með sérstökum glaðningi. Árdís Hulda segir að til dæmis hafi verið boðið upp á sherrýstaup með kaffinu, ís og ávexti. „Eitthvað sem vekur ánægju,“ eins og hún orðar það.

Gleðinni deilt til aðstandenda

Stefnt er að því að vera með sérstakan þemadag fyrir íbúa og starfsmenn á föstudögum. Fyrir viku var ákveðið að allt starfsfólk mætti til vinnu í litríkum fötum og íbúar tóku virkan þátt í glensinu rétt eins og föstudaginn þar á undan þegar haldinn var sérstakur hattadagur. Í dag verður þemað helgað stíl Ölmu Möller landlæknis. „Alma er ekki bara glæsileg kona sem er flott í fatavali heldur einnig framúrskarandi í sínu starfi og hver vill ekki vera eins og Alma á þessum tímum,“ segir Árdís Hulda. „Þessi nýbreytni hefur vakið mikla ánægju og aukið gleðina.“

Í salnum á jarðhæðinni er hljóðkerfi og þrátt fyrir samkomubannið hefur listafólk getað komið á svæðið og notað kerfið. Listamennirnir standa fyrir framan myndavél og míkrófón, við tökum upp og vörpum á öll sjónvarpstæki hjá okkur, „segir Árdís Hulda og leggur áherslu á að allt listafólkið geri þetta endurgjaldslaust. Auk þess hafi mörg fyrirtæki tekið mjög vel í að gleðja íbúa og starfsmenn með gjöfum eins og gosdrykkjum og sælgæti. „Þessi glaðningur hefur vakið mjög mikla ánægju og ekki síst rausnarleg gjöf frá Lionsklúbbnum Ásbirni og Kaldá, sem færðu okkur 16 spjaldtölvur, heyrnartól og magnara fyrir þá sem eru með mikið skerta heyrn, um liðna helgi. Tölvurnar eru komnar í notkun og íbúar geta notað þær til þess að tala við sitt fólk.“

Þrátt fyrir mikla röskun er grunntónninn á Hrafnistu að halda uppi gleði og deila henni til aðstandenda. Heimilið er með Facebook-síðu, handverksheimilið Hrafnista. Þar eru birtar fréttir af starfinu og hvað er á dagskrá. Hver deild er auk þess með lokaða aðstandendasíðu. Árdís Hulda segir vegna persónuverndarlöggjafarinnar hafi verið þrengt að þessum upplýsingasíðum en í ljósi breyttra aðstæðna hafi með samkomulagi við ættingja og íbúa verið opnað meira á síðurnar, sem séu áfram lokaðar fyrir alla nema þá. „Þarna setjum við inn myndir daglega, hvað við erum að gera og höfum ekki fundið fyrir neinu nema þakklæti vegna þessa. „segir Árdís Hulda. „Það er ekki þannig að við sitjum bara og gerum ekki neitt.“ Allir leggjast á árarnar, jafnt íbúar sem starfsmenn. „Allir eru svo samtaka og jákvæðir í að láta hlutina ganga vel„ áréttar Árdís Hulda.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði í dag.

Lesa meira...

Íbúum á Nesvöllum og Hlévangi færðar spjaldtölvur að gjöf

Lesa meira...

Íbúum á Hrafnistuheimilunum í Reykjanesbæ, Nesvöllum og Hlévangi, bárust höfðinglegar gjafir frá Lionsklúbbi Njarðvíkur, Lionsklúbbnum Æsu, Lionsklúbbi Keflavíkur og Lionessuklúbbi Keflavíkur er þau komu færandi hendi með 4 spjaldtölvur ásamt heyrnartólum. Þessar gjafir koma sér mjög vel þar sem engar heimsóknir eru leyfðar til íbúa Hrafnistu á þessum fordæmalausu tímum og geta íbúar þá haft samskipti við og séð ættingja sína með því að nota myndsímtöl.

Gjafirnar eru strax komnar í notkun og gleðja íbúa jafnt sem aðstandendur. Við þökkum þessum velunnurum okkar innilega fyrir  frábærar gjafir.

 

Lesa meira...

Tilkynning til dagdvalargesta vegna ástandsins í tengslum við COVID-19

Lesa meira...

 

Dagdvalir Hrafnistu verða áfram opnar og mun veita þjónustu þeim sem velja að mæta. Dagsvölin veitir m.a. heilbrigðisþjónustu og við erum í daglegu sambandi við sóttvarnir, landlæknisembættið og ráðuneytið. Það er vilji að við höldum opnu svo lengi sem verða má.
Við virðum sóttvarnir, beitum handþvotti og sprittun og beinum því til okkar fólks að koma aðeins í dagdvölina sé það er laust við flensulík einkenni eins og kvef, h
ita eða hósta. Einnig höfum við gert ráðstafarnir með fjarlægð á milli gesta eins og hægt er og er samgangur við hjúkrunarheimilin ekki leyfður. Við biðjum ykkur að fylgjast vel með pósti og hér á heimasíðu Hrafnistu þar sem allar breytingar verða tilkynntar. 

 

 

 

 

 

Lesa meira...

Lífið á Hrafnistuheimilinum

Lesa meira...

Lífið á Hrafnistu gengur sinn vanagang og margt er gert til að íbúum okkar líði sem allra best.

Sl. föstudag kom sönghópurinn Lóurnar til okkar á Hrafnistu í Hraunvangi og söng fyrir íbúa okkar eins og þeim einum er lagið. Þetta gerðu þau öll í sjálfboðavinnu og erum við þeim óendanlega þakklát fyrir þeirra frábæra framlag við að stytta heimilisfólkinu okkar stundirnar.

Til þess að svona viðburður geti átt sér stað um þessar mundir þarf mikila undirbúningsvinnu og starfsfólk sá til þess að allir færu með gát. Listafólkið fór inn um sérstakar dyr og sprittuðu sig bæði við komu og brottför. Einungis gestir úr dagvistuninni höfðu kost á að vera viðstaddir í Menningarsalnum en tónleikunum var sjónvarpað í sjónvörp í öllum setustofum hússins þar sem íbúar létu fara vel um sig og fylgdust með á skjánum.  Einnig gat heimilisfólk á öðrum Hrafnistuheimilum fylgst með viðburðinum en honum var streymt beint í gegnum facebook.

Íbúar og starfsfólk í Hraunvangi klæddust litríkum fötum en það var þema dagsins. Svo var fjör á vinnustofunni og í tækjasalnum, Helena var með leikfimi, það var spilahópur, boccia og kaffihópur.

Brot af söng Lóanna má sjá með því að smella HÉR 

Á Nesvöllum var haldin föstudagsgleði þar sem varpað var á tjald söng Lóanna í Hafnarfirði og þegar henni lauk var fallegri íslenskri tónlist varpað á tjaldið. Allir voru duglegir að taka undir í söngnum og sumir stigu dansinn. Ekki var slegið af gönguæfingum og um helgina var fylgst með tónleikum í sjónvarpi.

Á Hlévangi var einnig fylgst með tónleikum á Hrafnistu Hraunvangi í gegnum facebook og allir sammála um samverustundin hafi verið virkilega skemmtileg þar sem falleg íslensk lög voru sungin. Um helgina var haldinn hattadagur sem vakti mikla lukku meðal íbúa.

Á Hrafnistu í Boðaþingi var list í hávegum höfð og dundað var m.a. við hárgreiðslu, félagsvist var spiluð og húslestur fór fram fyrir kaffið.

Í Skógarbæ klæddust íbúar og starfsfólk einnig marglitum fötum sl. föstudag til að lífga upp á heimilið. Fylgst var með tónleikunum frá Hrafnistu í Hafnarfirði og boðið var upp á heitt kakó með rjóma. Íbúar sögðust geyma þessa stund í hjörtum sér. Boccia keppni var svo haldin eftir hádegi. Rósa fótaaðgerðarfræðingur kom færandi hendi og gaf öllum hjúkrunardeildum túlípana. Við vitum að blómin gleðja og á þessum tímum er gott að hafa falleg blóm í vasa á matarborðum.

Nokkur fyrirtæki hafa verið svo elskuleg að færa okkur glaðning og afþreyingu þessa dagana og þökkum við af heilum hug öllum þeim sem sýnt hafa íbúum okkar á Hrafnistu hlýhug með sínum gjöfum.

Í dag var Stefán Helgi Stefánsson, söngvari, gleðigjafi og annar meðlimur Elligleði, hjá okkur í Menningarsalnum á Hrafnistu Hraunvangi og söng fyrir íbúa okkar. Viðburðinum var að sjálfsögðu sjónvarpað beint svo allir gátu fylgst með SJÁ HÉR

 

Íbúar og starfsfólk Hrafnistuheimilanna senda öllum góðar kveðjur.

 

 

Lesa meira...

Hrafnista Boðaþing 10 ára

Lesa meira...

 

Þann 19. mars var haldið upp á 10 ára afmæli Hrafnistu í Boðaþingi. Hátíðarhöld voru lágstemmd vegna aðstæðna en það er oft á svona tímamótum sem þykir við hæfi að líta yfir farinn veg.

Margt hefur breyst á þessum tíu árum en þegar heimilið var opnað var hugmyndafræði Boðaþings nokkuð ný af nálinni. Það að vera ekki í vinnufatnaði, að bera fram matinn á fötum og leyfa dýrahald, var ekki óþekkt en ekki algengt og hvað þá allt á sama staðnum. Einnig þótti það nýjung að hafa jafna mönnun morgna og kvölds og virðing fyrir sjálfræði íbúa var mjög sterk. Starfsfólk og íbúar eru stolt af að vinna og búa á þessu góða heimili en heimilisbragurinn skapast af starfsfólki og íbúum hússins hverju sinni. Það eru þeir sem starfa og búa í Boðaþingi sem gera Boðaþing að þeim stað sem hann er.

Að lifa þessa tíma þar sem er samkomubann og heimilið lokað fyrir gestum er eitthvað sem fáir áttu von á.  Það er þó ekki það sem hefur verið umræðuefnið undanfarið heldur samhugurinn, persónulegu kynnin og gleðin sem við finnum í húsinu.  Nokkrir íbúar hafa nýtt sér tæknina til að spjalla við ástvini og hefur það orðið fleirum hvatning til að skoða þá möguleika.  Íbúi í Boðaþingi sagðist hafa verið búinn að segjast aldrei myndi nota þetta tæknidrasl en enginn veit sína ævi fyrr en öll er og hann spjallaði við dóttur sína í gær í gegnum spjaldtölvu.  Allir í húsinu gera sitt besta til að létta lundina og það verður að segjast að þessu er ótrúlega vel tekið.  Það kemur vel í ljós í þessum aðstæðum hvað er mikil væntumþykja og samstaða innan heimilisins. Vinsælasta umræðuefnið í síðustu viku var að Lóan er komin.

Íbúar og starfsfólk senda öllum þakkir úr Boðaþingi fyrir afmæliskveðjurnar og hvetja fólk til að halda ró sinni. Hér sungu íbúar Lóan er komin og höfðu meiri áhyggjur af heilsu hennar þar sem veður sé enn ótryggt þessa dagana en sinni eigin.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar haldið var upp á10 ára afmæli Hrafnistu í  Boðaþingi þar sem boðið var upp á þjóðarrétt Hrafnistu, lambakótilettur í raspi og tilheyrandi meðlæti. 

 

Lesa meira...

Síða 16 af 141

Til baka takki