Fréttasafn

Elilebeta de la Cruz 15 ára starfsafmæli á Hrafnistu í Reykjavík

Fv. Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistuheimilanna og Elilebeta de la Cruz
Lesa meira...

Elilebeta de la Cruz, félagsliði á Hrafnistu í Reykjavík, hefur starfað á Hrafnistu í 15 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

Góðir gestir í heimsókn frá borginni á Hrafnistu í Reykjavík

Fv. María Fjóla Harðardóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Stefán Eiríksson og Sigrún Stefánsdóttir.
Lesa meira...

Í síðustu viku komu góðir gestir í heimsókn á Hrafnistu Reykjavík. Þetta voru þau Ilmur Kristjánsdóttir sem er nýtekin við sem formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar og Stefán Eiríksson, sviðsstjóri Velferðarsviðs borgarinnar. Þau funduðu með stjórnendum Hrafnistu um starfsemina og reksturinn en einnig voru framtíðarstefna og framtíðarsýn í öldrunarþjónustu mikið á dagskrá umræðnanna sem voru mjög góðar. Að lokum var þeim boðið í skoðunarferð um heimilið og leist þeim mjög vel á starfsemina.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: María Fjóla Harðardóttir framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna, Ilmur Kristjánsdóttir formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, Stefán Eiríksson, sviðsstjóri Velferðarssviðs Reykjavíkur og Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Reykjavík.

 

Ljósmyndir frá haustfagnaði á Hrafnistu í Reykjavík fimmtudaginn 17. september 2015

Lesa meira...

Það er aldrei lognmolla á Hrafnistu og nú þegar haustið er komið, þá er tími haustfagnaðanna runnin upp. Hrafnista í Reykjavík reið á vaðið fimmtudagskvöldið 17. september sl. þar sem glæsilegur haustfagnaður heimilisfólks fór fram og tókst hann vel. Söngvararnir Davíð Ólafsson og Stefán Stefánsson voru veislustjórar og skemmtu með söng og glensi.  Að loknu borðhaldi tók svo við ball með Guðmundi Hauki Jónssyni.

 

Myndir frá haustfagnaðinum má sjá í meðfylgjandi myndaalbúmi.

Lesa meira...

Nýr verkstjóri í borðsal - Hrafnista í Hafnarfirði

Þórdís Björk Georgsdóttir
Lesa meira...

Þórdís Björk Georgsdóttir hefur verið ráðin verkstjóri í borðsal á Hrafnistu í Hafnarfirði og mun hún hefja störf 21. september.

Þórdís hefur starfað sem aðstoðarverkefnastjóri í frístund fyrir börn og sem deildarstjóri á meðferðarheimili og hæfingarstöð fyrir einhverfa. Í störfum sínum  hefur hún öðlast góða reynslu af skipulagi og samskiptum.

Um leið og við bjóðum Þórdísi velkomna í Hrafnistuhópinn þökkum við Ástu fyrir vel unninn störf í þágu Hrafnistu og óskum henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur.

 

Verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

Halldór Eiríksson
Lesa meira...

Halldór Eiríksson (1965) hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra innkaupa og rekstrar hjá Hrafnistu.

Um er að ræða nýtt starf í skipuriti Hrafnistu og heyrir það undir Rekstrarsvið. 

Halldór mun hafa yfirumsjón með öllu sem viðkemur innkaupum á Hrafnistu;  reglum og ferlum, samningagerð, hagkvæmni, kostnaðareftirliti og fleira. 

Einnig mun verkefnastjóri vera forstöðumönnum og öðrum stjórnendum til ráðgafar og stuðnings varðandi rekstrartengd málefni.  

Hann mun síðar einnig koma að verkefnum fyrir önnur félög samstæðunnar eftir því sem verkefnin þróast.

 

Halldór lauk Cand.Oecon. prófi í viðskiptafræði frá HÍ 1992 og meistaragráðu í rekstrarhagfræði af fjármálasviði frá Handelshöjskolen í Arhus í Danmörku 2002.

 

Halldór var deildarstjóri fjármáladeildar hjá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 1996-1997, verkefnastjóri Þróunarfélags Austurlands 2003-2005 og í framhaldi af því hjá Alcoa Fjarðarál/Hatch sem sérfræðingur í innkaupum 2006-2011.  Á árunum 2012-2015 rak Halldór verslun í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni. 

 

Halldór hefur störf 22.september næstkomandi.

 

Við bjóðum Halldór velkominn í Hrafnistufjölskylduna. 

Föstudagsmolar 18. september 2015 - Pétur Magnússon forstjóri

Hlutfallslega fæstir eldir borgarar á Völlunum en flestir eru í Laugardalnum!

Hagstofan gaf nýlega út hagtíðindi þar sem fjallað er um þá sem voru 65 ára eða eldri í manntalinu sem stofnunin gerið 31. desember 2011. Þar er að finna fróðlegar og tölulegar staðreyndir um þennan aldurshóp af ýmsu tagi.

Skýrsluna má finna á heimasíðu Hagstofunnar á eftirfarandi slóð: https://hagstofa.is/lisalib/getfile.aspx?ItemID=17870

Hér er smá dæmi úr skýrslunni:

Alls búa 64,1% alls mannfjöldans á höfuðborgarsvæðinu, en 35,9% utan þess. Hjá eldri borgurum landsins er þetta hlutfall örlítið annað. Í þeim hópi búa 61,8% á höfuðborgarsvæðinu en 38,2% á landsbyggðinni. Elsti hópurinn, 85 ára og eldri skiptist þó milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar í svipuðum hlutföllum og landsmenn allir (65,7% og 35,3%). Alls eru eldri borgarar um 12,8% mannfjöldans á landinu öllu. Á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið 12,4% en 13,5% utan þess. Lægst er hlutfallið á talningarsvæðinu Völlum í Hafnarfirði (3,5%) en hlutfallslega flestir eldri borgarar búa í Laugardal austur í Reykjavík, þar sem 20,6% íbúanna eru 65 ára eða eldri.

Margt mjög fróðlegt má lesa í þessari skýrslu og nú komast tölu-grúskarar í feitan bita 

 

Fundað með Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga um fagleg málefni

Í vikunni komu fulltrúar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) í heimsókn á Hrafnistu. Þeir áttu fund með okkur í framkvæmdaráði og fór fundurinn fram á Hrafnistu Hafnarfirði. Tilgangurinn var að ræða öldrunarhjúkrun á faglegum nótum en ekki kjaramál. Á fundinum sem var mjög óformlegur var farið um víðan völl í öldrunarhjúkrun, bæði á Hrafnistu og annars staðar. Meðal annars rætt um mönnunarmódel, fjármögnun þjónustunnar, kjörár hjúkrunarfræðinga á Hrafnistu, þjónustu við dvalarrými og hjúkrunarrými, RAI-mat og ýmislegt fleira.

Þetta var mjög skemmtilegur og gagnlegur fundur og var ákveðið að Fulltrúar Fíh og Hrafnistu myndu reyna að hittast árlega til að reifa ýmis fagleg mál og bera saman bækur sínar.

Gaman er líka að segja frá því að María Fjóla, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs, er nýlega kominn inn í stjórn Fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga.

 

Haustfagnaðir á Hrafnistu

Það er aldrei lognmolla á Hrafnistu og nú þegar haustið er komið, þá er tími haustfagnaðanna runnin upp. Hrafnista Reykjavík reið á vaðið í gærkvöldi þar sem glæsilegur haustfagnaður heimilisfólks fór fram og tókst hann vel. Söngvararnir Davíð Ólafsson og Stefán Stefánsson voru veislustjórar og skemmtu með söng og glensi. Að loknu borðhaldi tók svo við ball með Guðmundi Hauki Jónssyni.

Haustfagnaðir á hinum heimilum okkar verða sem hér segir.

Fimmtudagur 24. september- Hrafnista HAFNARFJÖRÐUR

Fimmtudagur 8. október - Hrafnista HLÉVANGUR

Fimmtudagur 15. októeber - Hrafnista KÓPAVOGUR

Fimmtudagur 22. október - Hrafnista NESVELLIR

Dagskrá haustfagnaðanna verður svo auglýst hér betur á heimasíðunni. Góða skemmtun!

 

Glæsileg ferð í Kerlingarfjöll

Að lokum langar mig að fá að þakka stjórn og skemmtinefnd starfmannafélagsins okkar í Reykjavík fyrir flotta ferð í Kerlingarfjöll um síðustu helgi. Þá fór vaskur hópur starfsfólks frá Hrafnistu Reykjavík ásamt mökum í mjög skemmtilega ferð í Kerlingarfjöll. Þar var blíðskaparverður og fólk gat valið sér fallegar gönguferðir við hæfi. Síðan var auðvitað grill og glens fram eftir kvöldi. Allt eins og best verður á kosið. Ég þakka ferðafélögum kærlega fyrir samveruna og sendi þakklætiskveðjur til stjórnar og skemmtinefndar starfsmannafélagsins.

 

Góða og gleðilega helgi!

Pétur

Hrafnista Hafnarfirði - Þorgerður M. Gísladóttir, stofnandi Fimleikafélagsins Bjarkar, heiðruð á 90 ára afmælisdaginn

Miðvikudaginn 9. september sl. fagnaði Þorgerður M. Gísladóttir, stofnandi Fimleikafélagsins Bjarkar 90 ára afmæli sínu. Hún og eiginmaður hennar, Jón Ólafur Bjarnason, áttu einnig 63 ára brúðkaupsafmæli þann dag.

Fulltrúar frá Fimleikafélaginu Björk birtust óvænt til að fagna afmælinu hennar og var hún heiðruð. Í tilefni dagsins tilkynntu fulltrúarnir henni að framvegis verður haldinn Þorgerðardagur árlega að hausti henni til heiðurs.

Sjá nánar frétt í Fjarðarpóstinum á bls. 14  http://www.fjardarposturinn.is/images/FP-pdf/FP-2015-32-skjar.pdf

 

Föstudagsmolar 11. september 2015 - Pétur Magnússon forstjóri

Hrönn og Bjarney stýra Reykjanesbæ og Kópavogi í að minnsta kosti eitt ár í viðbót!

Nú er liðið eitt og hálft ár síðan Hrafnista hóf starfsemi í Reykjanesbæ. Tíminn hefur liðið mjög hratt eins og yfirleitt gerist þegar það er gaman. Eins og einhver ykkar sjálfsagt muna, hefur Hrönn Ljótsdóttir, forstöðumaður í Reykjanesbæ, verið í tveggja ára leyfi frá Hrafnistu Kópavogi, til að sinna málefnum Reykjanesbæjar. Það hefur hún gert af miklum sóma.

Nú hefur verið ákveðið að framlengja leyfi hennar um eitt ár í viðbót þannig að Hrönn mun áfram gegna störfum forstöðumanns Hrafnistu í Reykjanesbæ, að minnsta kosti til febrúar 2017. Jafnframt hafa Bjarney Sigurðardóttir, sem nú starfar sem forstöðumaður í Kópavogi og Rebekka Ingadóttir, deildarstjóri í Kópavogi, samþykkt að vera áfram í störfum sínum þar, að minnsta kosti út þennan sama tíma.

Kærar þakkir fyrir það.

 

Hvað er Hrafnista margir fermetrar?

Öðru hverju kemur upp umræða um stærð og umfang starfsemi Hrafnistuheimilanna. Nánast undantekningalaust er fólk sem hlustar á kynningar og fróðleik um Hrafnistu, mjög hissa á hversu mikið og öflugt starf fer fram á okkar vegum. Ég hef stundum í þessum pistli mínum sett inn upplýsingar um ýmsa þætti starfseminnar.

Til fróðleiks fylgja hér tölur um stærðir húsnæðis okkar á Hrafnistu í Reykjavík og Hrafnistu Hafnarfirði en þessi tvö húsnæði eru alfarið í eigu okkar (Sjómannadagsráðs).

Starfsemi Hrafnistu Reykjavík fer fram í húsnæði sem er að heildarstærð 15.585 m2. Allt húsnæðið var byggt í mörgum minni áföngum, en þorri þess var tekið í notkun á tímabilinu 1957 til 1965. Allt það húsnæði var byggt fyrir fé sem félagið aflaði með ýmsum hætti, þ.a.m. með gjöfum, rekstri kvikmyndahúss, merkjasölu, tekjum af sjómannadeginum, styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og gjöfum sem félaginu barst á þessu tímabili og fleira. Nýjasti hluti húsnæðisins er H-álman sem tekin var í notkun árið 2003. Hún er um 3.825 m2 að stærð. Það húsnæði var byggt fyrir fé sem félagið aflaði sjálft, lánum sem tekin voru af því tilefni og félagið er enn að borga af og síðan einnig með stuðningi frá Reykjavíkurborg og ríkinu.

Starfsemi Hrafnistu Hafnarfirði fer fram í húsnæði sem er að heildarstærð 14.320 m2. Húsnæðið var byggt í tveimur áföngum og tekið í notkun á árunum 1978 og 1982. Byggingarkostnaður var fjármagnaður með fé sem félagið aflaði sjálft, s.s. eins og með gjöfum, rekstri kvikmyndahúss, styrkjum frá líknarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum og einnig með gjöfum sem félaginu barst á þessu tímabili.

Við þetta má svo bæta að ákvörðun um byggingu hjúkrunarheimilis var tekin af Sjómannadagsráði árið 1939 og hófst fjáröflun árið 1942. Þá fóru einstaklingar og fyrirtæki að gefa fjárupphæðir sem voru ígildi eins herbergis. Ekki hvað síst skipti það Sjómannadagsráð miklu máli að lög voru sett á Alþingi árið 1954 sem veittu heimild til reksturs Happdrættis dvalarheimilisins aldraðra sjómanna, þar sem skilyrt er að allur ágóði þess renni til uppbyggingar Hrafnistuheimilisins í Reykjavík og síðar Hrafnistu i Hafnarfirði. Það má því ekki gleyma mikilvægi Happdrættis DAS í þeirri merku sögu að gera Hrafnistuheimilin að veruleika.

Starfsafmæli á Hrafnistu í september

Í september eiga formlegt starfsafmæli nokkrir valinkunnir starfsmenn okkar hér á Hrafnistu. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Lilja Rut Ólafsdóttir á Mánateig og Ása Jónsdóttir í dagþjálfun. Í Hafnarfirði eru það Harpa Björgvinsdóttir iðjuþjálfi, Maya Marinova í borðsal og Rakel Steinsen á Ölduhrauni. Einnig Stefanía Ólöf Hafsteinsdóttir í Kópavogi.

5 ára starfsafmæli: Thelma Þorsteinsdóttir í Kópavogi, Sigríður Ingólfsdóttir í borðsal og Lilian Harpa Ragnarsdóttir á Bylgjuhrauni, báðar í Hafnarfirði og Jozefa Biermann á Miklatorgi í Reykjavík.

10 ára starfsafmæli eiga Dagný Jónsdóttir á Sólteigi í Reykjavík og Jónas Hilmarsson í Umsjón fasteigna.

15 ára starfsafmæli eiga Lourdes Dygay Yanos á Lækjartorgi og Gunnhildur Björgvinsdóttir deildarstjóri Sólteigs, báðar í Reykjavík.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir góð störf og tryggðina við Hrafnistu.

 

Nú er ég farinn í réttir og segi góða helgi!

Pétur

 

Síða 146 af 153

Til baka takki