Lionsklúbbur Hafnarfjarðar er dyggur stuðningsaðili endurhæfingardeildarinnar á Hrafnistu í Hafnarfirði og hefur um nokkurra ára skeið gefið deildinni veglegar og glæsilegar gjafir. Má í því sambandi nefna fullkominn laser, æfingatæki í tækjasalinn ásamt meðferðarbekk. Í vor sem leið færðu Lionsfélagarnir endurhæfingardeildinni fjölþjálfa af tegundinni Nustep T5XR ásamt fylgihlutum sem er kærkomin búbót við góðan tækjakost deildarinnar og þjálfunarúrræði fyrir breiðan hóp þjónustuþega Hrafnistu. Í þakkarskyni var Lionsfélögum boðið til kvöldverðar á Hrafnistu í haust þar sem tækið var formlega afhent. Bryndís Fanný Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari á Hrafnistu segir ómetanlegt að eiga velgjörðarmenn sem þessa og Lionsklúbbi Hafnarfjarðar verði seint fullþakkaður sá stuðningur sem klúbburinn hafi veitt til aukins endurhæfingarstarfs á Hrafnistu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þegar Ellert Eggertsson, fyrrv. formaður Lionssklúbbs Hafnarfjarðar, afhenti nýja fjölþjálfann formlega 8. október. Við honum tóku fyrir hönd Hrafnistu þau Pétur Magnússon forstjóri og Bryndís Fanný Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari.
Einnig má sjá þegar Magnús Ingjaldsson félagi í Lions mátaði sig við nýja fjölþjálfann.