Lykillinn að hjónabandshamingjunni er að rífast sjaldan og tala frekar saman.
„Ein þeirra eru þau Ásbjörn Guðmundsson og Guðrún Sigurðardóttir sem giftu sig 14. júlí 1945 með forsetaleyfi upp á vasann. Brúðurin var þá nýorðin tvítug, brúðguminn var 19 ára og vegna ungs aldurs þurfti leyfisbréf frá Sveini Björnssyni, forseta Íslands. „Ég þurfti að fara út á Bessastaði og tala við forsetann,“ segir Ásbjörn þegar hann rifjar þetta upp. „Hann sagði að þetta væri allt í lagi og þetta gekk allt eins og í sögu.“ Veislan var haldin á heimili foreldra Guðrúnar og ungu hjónin fengu margt nytsamlegt að gjöf, m.a. sparistell, potta og pönnur.
Þau ólust upp í Hafnarfirði, gengu bæði í Lækjarskóla þar í bæ og fermdust saman. 14 ára gömul voru þau send til sumardvalar í sömu sveitina. „Þá kynntumst við betur,“ segir Guðrún. „Svo týndum við hvort öðru, hann fór á sjóinn og ég fór að læra saumaskap.“ Örlagaríkt síðkjólaball Leiðir lágu saman nokkrum árum síðar, þá þurfti Ásbjörn að bjóða dömu á síðkjólaball og varð hugsað til æskuvinkonunnar. „Þá kynntumst við aftur og ákváðum fljótlega að vera saman,“ segir Guðrún. Hjónin eignuðust fjögur börn, eina dóttur sem er látin og þrjá syni. Ásbjörn, sem er pípulagningameistari, hafði umsjón með öllum pípulögnum á sviði Varnarliðsins og auk heimilisstarfa vann Guðrún við saumaskap. Þau voru lengst af búsett í Njarðvík, fluttu til Hafnarfjarðar þegar börnin voru uppkomin og núna býr Ásbjörn á Hrafnistu í Hafnarfirði og Guðrún kemur þangað í dagvistun. Hver er lykillinn að löngu og farsælu hjónabandi? „Gott samkomulag,“ segir Guðrún. „Við höfum sjaldan rifist, við tölum heldur saman um hlutina,“ segir Ásbjörn.“
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. JÚLÍ 2015, bls. 4