Top header icons

 

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka




Örugg skjalamótttaka




Fyrir starfsfólk




Hrafnista á Facebook

 

Hrafnistu úthlutað veglegum styrk frá fagráði Fléttunnar

 

Síðastliðinn föstudag hlaut Hrafnista í annað sinn veglegan styrk frá fagráði Fléttunnar að upphæð 10 milljónir króna við hátíðlega athöfn í Djúpinu Hrafnistu Sléttuvegi. Styrkurinn mun styðja við áframhaldandi innleiðingu og þróun smáforritsins Iðunnar á öll Hrafnistuheimilin, en undanfarið ár hefur Iðunn verið innleidd  hjá Hrafnistu Sléttuvegi, Skógarbæ, Boðaþingi, Hraunvangi og á Ísafold. Þetta er í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr Fléttunni og í ár bárust alls 44 umsóknir og var 12 styrkjum úthlutað.

Með Fléttunni gefst heilbrigðisstofnunum um allt land tækifæri til að innleiða og nýta áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka hagkvæmni og skilvirkni kerfisins. Stuðningurinn er háður því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða nýsköpun fyrirtækisins. Fléttan er því brú á milli einkaframtaksins og heilbrigðiskerfisins.

Hrafnista setur sér það markmið að veita framúrskarandi þjónustu til þess að íbúar og aðstandendur upplifi öryggi, traust og vellíðan. Liður í því er að efla faglega þekkingu starfsfólks, auka starfsánægju og bæta starfsumhverfi starfsfólks. Smáforritið Iðunn er því eitt af þeim verkefnum sem mun færa okkur nær markmiðum Hrafnistu.

Iðunn leiðbeinir starfsmönnum hvernig á að þjónusta hvern og einn íbúa og ávinningurinn verður m.a. betri yfirsýn á þarfir hvers og eins, auk ýmissa annarra þátta. Iðunn mun þ.a.l. auka öryggi og gæði í þjónustunni. Þróunin á Iðunni er samstarfsverkefni Hrafnistu og Helix. Hrafnista þakkar fagráði Fléttunnar fyrir kærkominn styrk sem mun styðja við tækniþróun og aukna skilvirkni í þjónustu hjúkrunarheimila.

Þær María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistuheimilanna, Gunnur Helgadóttir framkvæmdarstjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna og Harpa Hrund Albertsdóttir hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur á heilbrigðissviði tóku við styrknum fyrir hönd Hrafnistu. Harpa hefur ásamt Maríu Hrund Stefánsdóttur, lækni og sérfræðingi á heilbrigðissviði unnið að þróun og innleiðingu Iðunnar í góðu samstarfi við starfsfólk Helix og Hrafnistu.

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur