Samkvæmt venju var sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á Hrafnistuheimilunum. Gestkvæmt var á öllum heimilum og boðið var upp á sérstaka hátíðardagskrá í tilefni dagsins.
Á Hrafnistu í Laugarási hóf Lúðrasveit Reykjavíkur hátíðina venju samkvæmt út í garði en vegna hvassviðris var hörfað inn í hús. Séra Sigurður Jónsson leiddi hátíðarguðsþjónustu og í kjölfarið sáu Hjördís Geirs og DAS bandið um fjörið og sungu sjómannalögin á kaffihúsinu í Skálafelli.
Á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði hóf Lúðrasveit Hafnarfjarðar daginn á því að spila yfir utan Menningarsalinn. Sr. Sighvatur Karlsson prestur í Hafnarfjarðarkirkju sá um helgihaldið í Sjómannamessu og Matthías Ægisson sá um undirleik á píanóið. Í hádeginu var boðið upp á dýrindis kótilettur og strax eftir hádegið hélt dagskráin svo áfram og söngkonan María Bóel söng nokkur gömul og þekkt lög við góðar undirtektir. Í kaffinu var svo boðið upp á kaffiveitingar fyrir gesti og gangandi.
Matthías Ægisson og Heiða Hrönn Harðardóttir spiluðu og sungu fyrir íbúa á Hrafnistu Nesvöllum og Hrafnistu Hlévangi í Reykjanesbæ, í tilefni dagsins og margir tóku margir undir í söngnum.
Á Sléttunni lífsgæðakjarna, Hrafnistu Sléttuvegi, sá hljómsveitin Sóló um fjörið.
Meðfylgjandi myndir eru frá sjómannadeginum á Hrafnistuheimilunum.