Top header icons

Fyrir starfsfólk
Örugg skjalamótttaka Örugg skjalamótttaka Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 
 
 

Föstudagsmolar 12. ágúst 2022 - Gestahöfundur er Rebekka Ingadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Skógarbæ og Hrafnistu Boðaþingi

 

Sumarfríið á enda
Ég er nýkomin úr sumarfríi og mikið óskaplega var gott að fara í frí með fólkinu sínu og hlaða batteríin. Ég nefndi það við nokkra áður en ég fór í fríið að ég hafi aldrei verið jafn spennt að fara í frí eins og þetta sumarið. Ástæðan fyrir því tel ég vera sú að síðastliðinn vetur var krefjandi, erfiður, verkefni sem tengdust covid tóku auka orku frá okkur en mikið svakalega stóðum við okkur öll vel. Klapp á bakið til okkar allra. Ég náði svo sannarlega að hlaða batteríin í fríinu þar sem ég ferðaðist um landið með fjölskyldunni minni og dásamlegu vinum okkar. Ég var umvafin náttúrunni sem gefur manni orku og minnir mann sífellt á hvað við búum í stórkostlegu landi. Þegar þessi pistill fer í loftið er ég nýkomin úr gönguferð að Grænahrygg með vinkonuhópnum mínum frá því í menntaskóla. Svei mér þá ef þetta sumarfrí er ekki bara uppá 10 og ég vona að allir starfsmenn Hrafnistu hafi náð að hlaða batteríin eins og ég.

Lækna- og hjúkrunarnemar í sumarstörfum
Í sumar hef ég verið svo lánsöm að kynnast og vinna með lækna- og hjúkrunarnemum sem starfa í Skógarbæ og í Boðaþingi. Nemarnir koma til starfa eftir vorprófin og vinna ýmist með hjúkrunarfræðingum á vöktum eða með hjúkrunarfræðing á bakvakt, allt eftir því hvar þeir eru staddir í náminu. Margir af þessum nemum hafa unnið á heimilunum með skóla í vetur og þá unnið kvöld og helgarvaktir. Í sumar höfðu þeir tök á að vinna einnig dagvaktir og fá þannig aðra sýn á starfið þar sem að á daginn eru unnin fleiri rútínubundin verkefni. Þar sem ég vinn að öllu jafna bara á virkum dögum var ég því svo lánsöm að kynnast þeim betur þetta sumarið. Allt eru þetta harðduglegir nemar sem eiga eftir að standa sig vel í sínum störfum í framtíðinni. Þeir eru sjálfstæðir, sýna ábyrgð en um leið leita þeir til fagfólks og fá ráðleggingar þegar þess þarf. Það að koma í sumarstörf á Hrafnistu mun gefa nemunum mikið í lærdóms-bakpokann. Öll samskiptin við samstarfsfólk, íbúa, aðstandendur og aðra þjónustuþega Hrafnistu getur maður nefnilega ekki lært inni í skólastofu heldur er mikilvægt að læra í aðstæðunum. Ég hvet ykkur sem eruð að byrja í heilbrigðistengdu námi í haust að sækja um störf á Hrafnistu næsta sumar og fá þannig ómetanlega reynslu sem á eftir að reynast ykkur vel í framtíðinni.

Haustið og verkefnin framundan
Haustið er uppáhalds tíminn minn hvað varðar starfsárið á Hrafnistu. Allir koma úthvíldir eftir sumarfrí, nýjir starfsmenn bætast jafnvel við í hópinn okkar og allir til í allt einhvern veginn. Verkefnin framundan eru fjölbreytt og skemmtileg. Í Skógarbæ erum við að taka húsnæðið í gegn og erum strax farin að sjá mun. Skógarbær er gamalt húsnæði sem hefur ekki fengið nægt viðhald á síðustu árum og því eru verkefnin stór og mörg. Eitt skref í einu og þá komumst við einhvern tímann á leiðarenda.

Ég hlakka til að hitta ykkur öll, sólbrún, úthvíld og tilbúin í haustið sem mun vonandi færa okkur skemmtileg verkefni sem við vinnum saman. Svo fer að styttast í árshátíð……………það verður nú eitthvað.

Eigið góða helgi!

Rebekka Ingadóttir, forstöðumaður Hrafnistu Skógarbæ og Hrafnistu Boðaþingi.

Myndin sem fylgir molanum er tekin á Hvestu á Vestfjörðum í júlí.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur