Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í blíðviðri í gær, sunnudag.  Að venju hófst dagskrá Sjómannadagsráðs með minningarathöfn, um sjómenn sem hafa drukknað eða týnst í sjó, við Minningaröldur Sjómannadagsráðs við Fossvogskirkju í gærmorgun. Við athöfnina stóðu m.a. heiðursvörð fulltrúar frá Landhelgisgæslunni ásamt sjóliðum hollenska, portúgalska og þýska sjóhersins. Að athöfn lokinni fór fram sjómannadagsmessa í Dómkirkjunni, þar sem Sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur prédikaði. Líkt og mörg undanfarin ár lögðu Halldór Guðmundsson og fjölskylda blómsveig á leiði týnda sjómannsins í Fossvogskirkjugarði á meðan á messu stóð.

Heiðrun sjómanna
Heiðrun sjómanna fór fram með athöfn í Hörpu kl.14.00. Lúðrasveit Reykjavíkur setti athöfnina með laginu Íslands Hrafnistumenn, Gerður G. Bjarklind var kynnir og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti ræðu. Karlakórinn Fóstbræður tók lagið og Guðmundur Helgi Þórarinsson, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, var ræðumaður dagsins fyrir hönd sjómanna.

Eftirtaldir aðilar voru heiðraðir fyrir farsæl störf og björgun mannslífa: Guðjón Hafsteinn Guðmundsson, Sjómannafélagi Íslands, Finnbogi Aðalsteinsson, Sjómannafélagi Íslands, Valdimar H. Sigþórsson, Sjómannafélagi Íslands, Helgi Vignir Kristinsson, Sjómannafélagi Íslands, Sigurður Ólafsson, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Kristinn Daníel Hafliðason, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ægir Kristmann Franzson, Félagi skipstjórnarmanna, og Ingvar Friðriksson, Félagi skipstjórnarmanna.

Hrafnistuheimilin í hátíðarbúning
Það var mikill hátíðarbragur yfir Hrafnistuheimilunum öllum í gær enda er sjómannadagurinn einn helsti hátíðisdagur okkar hér á Hrafnistu þar sem öllu er tjaldað til. Öll Hrafnistuheimilin voru með skipulagða dagskrá og buðu upp á kaffiveitingar í tilefni dagsins. Í garðinum á Hrafnistu í Laugarási spilaði Lúðrasveit Reykjavíkur af sinni alkunnu snilld. Séra Jón Ragnarsson, prestur í Áskirkju, annaðist guðsþjónustu, og Guðrún Árný Karlsdóttir söngkona sá um söng og píanóleik fyrir gesti í Skálafelli. Á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ spiluðu og sungu bræðurnir Hjörleifur og Eiður í bandinu Heiður fyrir íbúa, gesti og starfsfólk, svo eitthvað sé nefnt.

Fjölbreytt dagskrá sjómannadaginn
Við Grandagarð fór fram viðamikil og fjölbreytt dagskrá sem hófst kl. 13 og sótti fjölmenni hátíðina. Helstu bakhjarlar hátíðarinnar voru Sjómannadagsráð, Brim og Faxaflóahafnir, en undirbúningur hátíðarinnar stóð yfir í hálft ár í samstarfi við Önnu Björk Árnadóttur hjá  viðburðarfyrirtækið Eventum og Elísabetu Sveinsdóttur markaðskonu. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Við erum þakklát öllum þeim sem tóku þátt í að gera dag sjómanna eftirminnilegan.

Að lokum má geta þess að 85. árgangur Sjómannablaðsins var gefið út á fimmtudaginn. Hægt er að lesa blaðið á vefslóðinni https://sjomannadagurinn.is/sjomannadagsbladid/

 

  •  

     

    Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur