Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Þrautseigja sjómanna

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2022_rautseigja-sjmanna_grein--mbl-eftir-Arel.jpeg

Í Morgunblaðinu föstudaginn 8. apríl sl. birtist eftirfarandi grein eftir Aríel Pétursson formann Sjómannadagsráð.

Þrautsegja sjómanna

Íslensk þjóð varðveitir nánast endalausar sögur um þrautseigju sjómanna sinna. Þær tengjast sjávarháska og björgunarstörfum jafnt sem veiðum og verðmætasköpun og öllu þar á milli. Hin aldna ímynd sjómannsins er gjarnan tengd hörkutólum sem kölluðu ekki allt ömmu sína, dugnaðarforkum sem sóttu björg í bú af harðfylgi og tefldu öryggi sínu jafnvel í tvísýnu með því að róa í vályndum veðrum.

Þessi hrjúfa mynd á sér þó aðra mýkri, rétt eins og að tvær hliðar eru á hverjum peningi. Þar hef ég í huga ríflega áttatíu ára sögu Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins og þá ákvörðun þess að hefja uppbyggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn, eiginkonur þeirra og ekkjur. Þjóðin öll fylkti sér að baki verkefninu frá fyrsta degi og afrakstur þessa mikla hugsjónastarfs er vafalítið orðinn margfalt meiri en jafnvel bjartsýnustu frumkvöðlarnir létu sig dreyma um.

Þrautseigja sjómanna í þessu brýna þjóðþrifaverkefni hefur nefnilega ekki verið minni en í sókn þeirra á sæ í gegnum aldirnar. Að baki eru ófáir brimskaflar sem brotist hefur verið í gegnum en starfið engu að síður einkennst af því að stöðugt meira hefur verið færst í fang. Aldraðir njóta góðs af langt út fyrir raðir sjómanna og óháð fyrri störfum sínum eða stöðu. Í dag rekur Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins starfsemi sína á 96 þúsund fermetrum, veitir um 800 íbúum skjól á hjúkrunarheimilum sínum, þjónustar um 350 aðra íbúa í leiguíbúðum SDR og að auki mikinn fjölda fólks í eigin íbúðum í nágrenni þjónustukjarnanna. Félagið veitir um 1.500 manns atvinnu og veltir u.þ.b. 13 milljörðum króna á ári. Að baki Sjómannadagsráði standa stéttarfélög sjómanna á höfuðborgarsvæðinu. Það trausta eignarhald hefur aldrei í hinni löngu sögu félagsins greitt sér út arð heldur nýtt allan afgang frá rekstri í áframhaldandi uppbyggingu. Ekkert bendir til annars en að svo muni verða áfram um langa framtíð.

Starfsemi Hrafnistuheimilanna og annarrar þjónustu sem út frá henni hefur sprottið hefur þess vegna vaxið og dafnað jafnt og þétt. Velvild og traust landsmanna hefur í þeim efnum skipt miklu máli og sömuleiðis öflugur stuðningur sveitarfélaganna sem ávallt hafa lagt sitt af mörkum til þessarar mikilvægu starfsemi. Fyrir allt það góða samstarf verður seint fullþakkað.

En betur má ef duga skal. Á biðlistum eftir plássi á hjúkrunarheimili eru hundruðir aldraðra og veikra einstaklinga. Það er þjóðarskömm og fyrrnefndir brimskaflar hafa því miður oft tengst skilningsleysi eða forgangsröðun stjórnvalda. Margt bendir sem betur fer til þess að um þessar mundir blási fremur byrlega í sölum Alþingis hvað þann þátt varðar og það lag hyggjumst við nýta til hins ítrasta við frekari uppbyggingu og stækkun lífsgæðakjarna Sjómannadagsráðs.

Upphaflegt markmið sjómanna um örugga höfn á ævikvöldinu er óbreytt og verður án vafa áfram hið sama um langa framtíð. Valkostirnir hafa hins vegar breyst. Fjölbreytni er meiri en var og fullvíst má telja að sú þróun haldi áfram í krafti aukinnar þekkingar heilbrigðissviðsins í þjónustu við aldraða og ekki síður ráðstöfun frekara fjármagns til málaflokks aldraðra. Ekki veitir af enda öllum ljóst hve öldruðum á eftir að fjölga mikið á næstu árum vegna hækkandi lífaldurs landsmanna.

Í þessum efnum mun SDR ekki láta sitt eftir liggja. Hugsjónir sjómanna um áhyggjulaust ævikvöld að löngum og ströngum vinnudegi loknum hafa ekki breyst. Þeir eru staðráðnir í því að standa áfram í stafni fyrsta flokks þjónustu við aldraða Íslendinga og heita á þjóðina til áframhaldandi samstarfs og stuðnings. Í þeim efnum leika 63 þjóðkjörnir einstaklingar stórt hlutverk og full ástæða er til að eggja þá til dáða með öllum tiltækum ráðum.

Höfundur er formaður Sjómannadagsráðs.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur