Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Heimsóknabannið bjargaði fjölda mannslífa hér á landi

 

Fréttablaðið birti um nýliðna helgi niðurstöður úr rannsókn á hagkvæmni heimsóknarbanns á dvalar- og hjúkrunarheimilunum Grund og Mörk í Reykjavík og Ási í Hveragerði, tímabilið mars til maí 2020. Rætt var m.a. við Gísla Pál Pálsson, forstjóra Grundarheimilanna sem einnig er einn skýrsluhöfunda.

„Heimsóknabannið bjargaði fjölda mannslífa hér á landi“

Ný rannsókn sýnir að ef ekki hefði komið til heimsókna­banns á dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi í upphafi farsóttarinnar, hefðu 10 til 20 prósent heimilismanna látist úr Covid-19

Ef heimsóknabann á dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi hefði ekki tekið gildi í upphafi kórónaveirufaraldursins á útmánuðum 2020 hefði dánartíðni fólks orðið margfalt meiri en hún varð í raun.

Þetta er meginniðurstaða rannsóknar á hagkvæmni heimsókna­banns á dvalar- og hjúkrunarheimilunum Grund og Mörk í Reykjavík og Ási í Hveragerði, á tímabilinu frá mars 2020 til maí sama ár, en þar dvelja að jafnaði tæplega 400 manns.

„Niðurstöðurnar tala sínu máli – og það mjög skýrt,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna og einn skýrsluhöfunda. „Við misstum engan úr Covid-19 á þessu tímaskeiði – og ég þakka það heimsóknabanninu, en ef við hefðum ekki gripið til þessa ráðs má ætla að minnst 40 og allt að 80 manns á heimilunum hefðu látist af völdum farsóttarinnar á þessu þriggja mánaða tímabili þegar hún lagðist af fullum þunga á samfélagið,“ segir Gísli Páll.

„Þetta er í samræmi við dánartíðni fólks á erlendum hjúkrunarheimilum,“ bendir hann enn fremur á „en þar létust á milli 10 og 20 prósent heimilismanna úr Covid-19 á þessum tíma þar sem óheftar heimsóknir aðstandenda og annarra voru áfram leyfðar.“

Róttækar aðgerðir margborguðu sig

Hann segir niðurstöðu rannsóknarinnar ekki hafa komið sér á óvart. „Ég hafði allan tímann frá upphafi faraldursins tilfinningu fyrir því að algert heimsóknabann væri bæði skynsamlegt og hagkvæmt, en ég gat ekki sannað það,“ segir Gísli Páll. „Þess vegna afréðum við að hefja rannsókn á áhrifum heimsókna­bannsins og byggja hana á gefnum forsendum og staðreyndum.“

Auk Gísla Páls unnu hagfræðingarnar Bergþóra Þorvaldsdóttir, Guðný Halldórsdóttir og Þórólfur Matthíasson að rannsókninni, svo og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands.

„Það sem er hvað áhugaverðast við þessa rannsókn,“ segir Tinna Laufey „er að við þurftum að setja ákveðna virðistölu á gæði sem eiga sér ekki markaðsverð, það er að segja mannslíf og heilsu, en jafnframt að skoða vægi félagslegra samskipta,“ bætir hún við. „Í þessu tilviki erum við í raun og sann að kaupa líf og heilsu og borga fyrir með félagslegum samskiptum,“ útskýrir hún betur.

„Hagfræðilega niðurstaðan er sú að þessar róttæku aðgerðir á dvalar- og hjúkrunarheimilunum margborguðu sig í fyrstu bylgju faraldursins með þjóðina óbólusetta, í kringumstæðum þar sem engar áhrifaríkar leiðir þekktust til að takast á við sjúkdóminn,“ segir Tinna Laufey.

„Í reynd var spurningin þessi á vormánuðum 2020,“ segir Gísli Páll, „hvað hefði fólk vilja borga það dýru verði að fá að heimsækja ástvini sína áfram?“

Hann bendir að lokum á að menn megi ekki gleyma aðstæðum hér á landi við upphaf faraldursins, en þá hafi fátt annað verið ljóst en að veiran legðist hvað verst á aldraða. Á þeim tímapunkti hafi fá lyf, önnur en verkjalyf og súrefnisgjöf verið tiltæk. Það hafi verið á grundvelli þessara takmörkuðu upplýsinga sem ákveðið var að grípa til heimsóknabanns á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

„Og það var eins gott að við gerðum það. Rannsóknin sýnir það glöggt,“ segir Gísli Páll Pálsson.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur