Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 4. mars 2022 - Gestahöfundur er Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Laugarási

 

Þá er komið að loka skaflinum þar sem við stöndum í honum miðjum og erum að klofa yfir hann þessa dagana. Það er ótrúlegt að eftir tvö ár þá erum við loksins að sjá fyrir endann á þessu og nálgumst hjarðónæmi hröðum skrefum. Í tvö ár höfum við staðið saman frammi fyrir ótrúlega erfiðum verkefnum sem engan óraði að gæti komið fyrir. Fyrir mitt leiti þá verð ég að segja, að sem betur fer vissi ég ekki það sem ég veit í dag þegar við hófum þessa vegferð hvernig næstu tvö árin yrðu.  Ég held mér hefði fallist hendur hefði ég vitað að við ættum eftir að takast á við þennan veirufjanda í tvö löng ár.

Þar sem við stöndum núna vonandi í síðasta skaflinum og líklegast þeim erfiðasta þá erum við farin að sjá merki þess að eðlilegt líf er að taka við sér í þjóðfélaginu eins og það var fyrir covid. Já það verður allt í framtíðinni borið saman við fyrir eða eftir covid. Við höfum lært ýmislegt á þessum tveimur árum því má ekki gleyma, jú reyndar má alveg gleyma nokkrum atriðum eins og tveggja metra reglunni, grímunotkun, fjöldatakmörkunum, bannað að knúsa fólk og kyssa vini og ættingja.

Það sem stendur hins vegar upp úr er fyrst og fremst frábært samstarfsfólk sem hefur í gegnum þessi tvö ár lyft grettistaki með samhug, samvinnu og krafti þegar allt virtist svo ótrúlega erfitt, verkefnin óyfirstíganleg og ætluðu engan enda taka. Það er alveg magnað að sjá hvað allir sem einn hafa lagt sig fram við að sinna íbúum af kærleika og umhyggju í þessu erfiða ástandi.  Það er nákvæmlega þetta sem hefur gert okkur kleift að komast áfram og yfir skaflana og mun koma okkur núna yfir síðasta skaflinn.

Já ég ætla að trúa því að þetta sé loka skaflinn, og með því hugarfari ætla ég að horfa til vorsins og sumarsins björtum augum og full tilhlökkunar.

Góða helgi!

Sigrún Stefánsdóttir,

Forstöðumaður Hrafnistu í Laugarási.

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur