Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu handhafi FKA-viðurkenningarinnar 2021

Langar að gera enn betur - viðtal við Maríu Fjólu í Fréttablaðinu 28. janúar 2021 

María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, er handhafi FKA-viðurkenningarinnar 2021. Hún segir hana gefa sér aukið sjálfstraust í starfi forstjóra og að FKA veiti konum tengsl og tækifæri.

Viðurkenningin kom sannarlega á óvart. Fyrst hugsaði ég: „Af hverju ég?“ því það koma svo margar aðrar konur til greina, en svo hugsaði ég: „Af hverju ekki ég?“,“ segir María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu.

María Fjóla er handhafi FKA-viðurkenningarinnar sem er veitt fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna, eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd.

Hún segir viðurkenninguna gefa sér aukið sjálfstraust í starfi forstjóra.

„Í vinkvennahópnum heyrir maður stundum að konur séu oft haldnar einhvers konar fullkomnunaráráttu og því tregari til að taka að sér verkefni nema að þekkja alla þætti þess aftur á bak og áfram, en svo áttar maður sig á að það er ekki nauðsynlegt og að við getum þetta alveg. Ég er því auðmjúk og þakklát fyrir viðurkenningu FKA og ekki síður fyrir stjórn Sjómannadagsráðs fyrir að hafa trú á mér. Ég hef oft dáðst að FKA því við konur þurfum að örva tengslanet okkar því það skilar tækifærum og góðu starfi. Ég er svo auðvitað ekki ein í mínu starfi, ég er heppin að hafa með mér sterkan, stóran og kraftmikinn hóp starfsfólks sem gengur í takt og brennur fyrir starfi sínu.“

Forstjóri sem er jafningi

María Fjóla er hjúkrunarfræðingur að mennt og með meistarapróf í verkefnastjórnun. Hún byrjaði starfsferilinn á HSS, sjúkrahúsinu í Keflavík.

„Ég var alltaf staðráðin í að vinna við hjúkrun. Sjúkrahúsið í Keflavík var einstaklega góður skóli því þar fékk maður tækifæri til að sinna mjög svo fjölbreyttri hjúkrun. Eftir tveggja ára starf fór ég svo yfir á hjúkrunarheimilið Hlévang í Keflavík sem var hárrétt ákvörðun og ég fann hvað öldrunarhjúkrun átti vel við mig,“ segir María Fjóla sem síðar varð deildarstjóri á Hlévangi.

Hún er fyrsta konan sem gegnir starfi forstjóra Hrafnistuheimilanna, en frá árinu 2015 var hún framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu.

„Hér áður fyrr hugsaði ég stundum með mér hvort ég gæti mögulega orðið forstjóri, en gerði mér þó aldrei í hugarlund að það yrði að veruleika. Það er mikilvægt að konur telji sér ekki trú um að bara karlar geti stýrt fyrirtækjum og stofnunum, við getum það líka, jafnvel þótt við kunnum ekki öll störfin um borð. Ég er meðvituð um að hafa afar hæft fólk með mér og ég veit að ég hef ekki sömu hæfileika og til dæmis fjármálastjórinn, mannauðsstjórinn, rekstrarstjórinn, forstöðumenn eða aðrir stjórnendur Hrafnistu. Ég get hins vegar látið fólkið mitt fá úlpu, vettlinga og húfu til að stýra þessu í höfn með mér. Það er enda mikilvægt að treysta fólkinu sem maður starfar með og ég vona að ég hafi rutt svolitla braut til að fleiri konur sjái sér fært að starfa við stjórnvölinn, en því miður virðast færri konur en karlar fá að stíga upp sem stjórnendur. Ég get samt ekki sagt það um Hrafnistu þar sem konur eru í meirihluta í stjórnun, en mikilvægt er að viðhafa jafnvægi og ekki gott að hafa of fáa karlmenn heldur. Við þurfum að hjálpast að við að laga það. Konur eiga hiklaust að sækja í stjórnunarstörf en þau snúast um að velja með sér rétta fólkið; ekki að kunna allt sjálfar.“

Fær starfsfólk til að blómstra

Sem stjórnandi segist María Fjóla líta á sig sem jafningja.

„Ég trúi á þjónandi leiðsögn. Mitt hlutverk er að sjá til þess að þessi flotti hópur geti unnið sín sértæku störf, með því að ryðja veginn með tólum og tækjum og hverju sem til þarf. Þar er ég. Ég trúi ekki á gagnsemi þess að stjórna yfir öxlina á fólki, heldur er mitt hlutverk að greina hæfni, áhuga og styrkleika og vera ekki að setja sérfræðing í verkefni sem hann hefur litla þekkingu á, eða áhuga, það er ekki sanngjarnt. Mitt hlutverk er einnig að skapa sýn með hópnum um hvert við viljum fara og halda stefnunni ásamt því að velja inn hæft fólk og gefa því vald, ábyrgð og traust til að vinna verkefnin. Mikilvægt er svo í framhaldi að ræna ekki starfsmann vel unnu verkefni heldur fagna sigrinum með honum. Það er minn sigur að sjá fólk ná árangri í sínu starfi. Með því nærðu að virkja frumkvæðið og metnaðinn til að gera betur og fylgja eftir góðum hugmyndum. Þannig græða þeir sem þurfa á þjónustunni að halda en einnig fyrirtækið sjálft. Þetta er svo mikið „common sense“,“ segir María Fjóla.

Hún hefur þá framtíðarsýn að skapa vinnuvænt umhverfi og jákvæðan, kraftmikinn vinnustað á Hrafnistuheimilunum.

„Hrafnista er mjög góður vinnustaður í dag en mig langar að gera enn betur. Markmiðið er ekkert óraunhæft að mínu mati en stjórnvöld verða þá líka að taka þátt; við viljum að íbúarnir fái þá þjónustu sem þeir þurfa og að starfsfólkinu líði vel, því ég veit að líði starfsfólkinu illa getum við ekki veitt góða þjónustu. Ég legg mig fram við að skilja starfsemina og hlusta, þannig að ég geri ekki óraunhæfar kröfur til starfsfólksins. Ég legg áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu, gott umhverfi og að störf þess séu metin. Þannig fær maður starfsfólk til blómstra og skila árangri. Mitt markmið er að fyrirtækið sigli áfram þó svo að eitthvað kæmi fyrir mig. Að mínu mati er það góður stjórnandi.“

Eiga skilið góða umönnun

María Fjóla segir ótrúlegt ævintýri að vinna á Hrafnistu.

„Ég hef stundum hugsað hvort ég ætti að prófa eitthvað annað en ég hef einfaldlega ekki áhuga á því, mér finnst þetta starf svo spennandi og fjölbreytt. Það er enginn dagur eins og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Okkur leiðist aldrei að tala um það við nema og aðra gesti hvað öldrunarþjónusta og þjónusta til þeirra sem þurfa sólarhringsþjónustu er áhugavert og fjölbreytt starf. Hrafnistuheimilin reka ekki aðeins hjúkrunarheimili heldur einnig dagdvalir, dagendurhæfingu og dagþjálfun fyrir einstakling með heilabilun. Jafnframt reka þau flest þjónustumiðstöðvar sem íbúar í kringum heimilin nýta sér ásamt íbúum heimilanna. Ákveðnar þjónustumiðstöðvar eru reknar í samstarfi við sveitarfélögin. Hrafnista vinnur einnig náið með dótturfyrirtæki Sjómannadagsráðs sem rekur leiguíbúðir á almennum markaði sem eru tengdar við þjónustumiðstöðvarinnar,“ upplýsir María Fjóla.

Sem forstjóri ætlar María Fjóla að halda áfram að berjast fyrir bættri þjónustu fyrir þá sem þurfa á sólarhringsþjónustu að halda og fyrir því að stjórnvöld tryggi fjármagn fyrir þeirri þjónustu sem ríkið óskar eftir að kaupa. Þannig sé staðan því miður ekki í dag.

„Því ég veit að það er skakkt gefið, það eru gerðar meiri kröfur á þjónustu en er greitt fyrir og það er brýnt að leiðrétta það því sá sem líður fyrir það er sá sem þarf á þjónustunni að halda. Starfsfólkið líður fyrir að geta oft og tíðum ekki veitt þá þjónustu sem krafa er um. Við þurfum að koma þessu á rétt ról og finna jafnvægið. Þetta er kynslóðin sem er að afhenda okkur landið og hún á skilið að við hugsum vel um þau.“

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur