Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Aðventuvagn Þjóðleikhússins heimsótti íbúa á Hrafnistu Sléttuvegi

 

Aðventuvagn Þjóðleikhússins heimsótti íbúa á Hrafnistu Sléttuvegi síðastliðinn föstudag og flutti skemmtidagskrá sem nefnist „Samt koma jólin“. Er þetta eitt af þeim verkefnum sem Þjóðleikhúsið hefur boðið upp á nú í desember og felst í því að svokallaður aðventuvagn Þjóðleikhússins, ferðast um og færir fólki jólaandann.

Eins og segir á heimasíðu Þjóðleikhússins er það hópur listamanna Þjóðleikhússins sem keyrir um á sér útbúnum bíl og heimsækir staði þar sem fólk býr við einangrun vegna faraldursins. Fyrir utan húsin er flutt tuttugu mínútna skemmtidagskrá sem yljar og hlýjar á erfiðum tímum. Sungin eru jólalög úr ýmsum áttum, flutt eru jólakvæði og stuttur leikþáttur. Dagskrárinnar má njóta utan húss, á svölum og úr gluggum, en henni er jafnframt streymt fyrir þá sem ekki geta farið út, og geta þeir þá notið hennar af skjám innan dyra um leið og hún fer fram.

Aðventuvagninn hefur heimsótt meðal annars dvalarheimili, hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir og félagsmiðstöðvar aldraðra.

Hrafnistuheimilin eru meðal þeirra sem hafa þegið þetta höfðinglega boð Þjóðleikhússins og þökkum við leikhópnum kærlega fyrir þá skemmtun sem íbúar okkar hafa notið nú í desember.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar leikhópurinn heimsótti Hrafnistu Sléttuveg fyrir helgi.

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur