Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Helga Björk Jónsdóttir sendir hvatningarorð til samstarfsfólks á Hrafnistu

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2020_helga-bjrk-djkni.jpeg

 

Helga Björk Jónsdóttir, djákni og umboðsmaður íbúa og aðstandenda á Hrafnistu, sendi fallega kveðju til samstarfsfólks á Hrafnistu eftir að íbúi á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ greindist með kórónuveirusmit á dögunum.

Í ljósi atburða síðustu daga langar mig að senda ykkur kæra samstarfsfólk nokkur orð.
Þegar ég var að hugsa til ykkar í dag mundi ég eftir því hvernig alvöru perla verður til. Ef lítið sandkorn eða annað óæskilegt úr sjónum nær að skemma skelina myndast sérstakt efni til varnar skelinni og perlan byggist upp smátt og smátt innan í samlokunni. Skemmdin fær utan á sig sérstakt efni sem er inni í skelinni og líkt og einhver klæði sig í flík yfir flík verður til skínandi náttúruleg perla. Ferlið tekur langan tíma en úr skemmdinni vex mikill fjársjóður sem perlan er. Dæmið um perluna getum við notað okkur til hvatningar núna þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum tímum. Verkefnin eru stundum yfirþyrmandi en þau eru þarna eins og sandkornið. Missum ekki vonina og verum ekki óttasleginn. Ef við stöndum saman og hjálpumst að getum við á endanum fundið perluna sem erfiðleikarnir breytast í. Reynslan sem við erum að ganga í gegnum er ekki auðveld en við þurfum að vera hugrökk og standa saman og halda áfram að vinna saman að því að vernda okkar fólk. Þó við getum ekki faðmast og verið mjög nálægt hvert öðru getum við hugsað þetta í sömu átt. Sendum ljós og fallegar hugsanir hvert á annað, hvetjum, hughreystum og leyfum sandkorninu að breytast í dýrmætan fjársjóð reynslunnar. Við getum þetta saman og reynslan verður okkur dýrmæt perla.

Bestu kveðjur á ykkur öll.

Helga Björk Jónsdóttir,

Umboðsmaður íbúa og aðstandenda á Hrafnistu

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur