Top header icons

COVID spurt og svaraðRannsóknarsjóður HrafnistuHrafnista á Facebook

 
 

Ragnhildur Árnadóttir íbúi á Hrafnistu í Laugarási fagnar 100 ára afmæli sínu í dag

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2020_ragnhildur-100-ra-laugars.jpeg

 

Ragnhildur Árnadóttir býr á Hrafnistu í Laugarási og fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Við á Hrafnistu færum henni hjartans hamingjuóskir í tilefni dagsins.

 

Viðtal við Ragnhildi birtist í Morgunblaðinu í dag - Ragnhildur Árnadóttir sér fram á bjartari tíð.

 

Ragnhildur Árnadóttir sér fram á bjartari tíð. Heldur upp á 100 ára afmælið innilokuð vegna veirunnar.

„Þetta fer allt að lagast,“ segir Ragnhildur Árnadóttir, sem er 100 ára í dag. Hún býr á Hrafnistu í Reykjavík og vegna kórónuveirunnar hefur hún verið innilokuð á sinni hæð og heimsóknir takmarkaðar. En hún sér fram á bjartari tíð. „Þetta fer að lagast,“ segir hún.

„Boðið verður upp á kaffi og rjómatertu í tilefni dagsins,“ heldur afmælisbarnið áfram og segir að sonurinn Oddur Garðarsson flugvirki og tengdadóttirin séu væntanleg. „Oddur og Racel, kona hans, fá að koma en ég á ekki von á öðrum vegna flensunnar.“

Ragnhildur fæddist á Njálsgötu í Reykjavík en síðan flutti fjölskyldan upp í Þverholt, þar sem faðir hennar keypti hús. „Þverholtið þótti vera uppi í sveit,“ rifjar hún upp.

Ýmis minningarbrot koma upp í hugann og Ragnhildur segist hafa upplifað margt en lífið hafi gengið sinn gang, rétt eins og hjá öðrum. Hún hafi því enga sérstaka sögu að segja. „En Reykjavík hefur breyst mikið síðan ég ólst upp, var að leika mér, passaði krakka, fór í skóla og vinnu.“

Eftir tveggja ára nám í Ingimarsskóla að loknu barnaskólanámi fór Ragnhildur að vinna í Mjólkursamsölunni. Eiginmaður hennar, Garðar Ólafsson tannlæknir, sem andaðist 1978, fór í nám til Bandaríkjanna og bjuggu þau í Portland í fjögur ár. „Þegar við komum til baka var ekki hægt að fá gjaldeyri til að kaupa nauðsynleg tæki í tannlæknastofuna nema hún væri á Selfossi eða í Keflavík. Við vorum næstum því flutt út aftur en ákváðum síðan að setjast að í Keflavík. Þar var prýðilegt að vera og mér þykir vænt um Keflavík.“

Hjónin ferðuðust mikið á meðan, en Ragnhildur segir lítið um að vera um þessar mundir. „Ég hef lesið mikið, fræðibækur og fleira, en það er lítið hægt að gera annað en lesa svona innilokuð.“

Langlífi er þekkt í fjölskyldunni. „Mömmu vantaði bara þrjá mánuði upp á 100 árin,“ segir Ragnhildur, en foreldrar hennar voru Branddís Guðmundsdóttir, sem varð 99 ára, og Árni Jónsson verkamaður, sem varð 95 ára. Ragnhildur er yngst fjögurra systra og varð ein þeirra 94 ára. „Ég tóri enn og má þakka fyrir það,“ segir Ragnhildur.

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur