Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Árangur hjúkrunarheimila á Íslandi í baráttunni við COVID

 

Í Fréttablaðinu í dag fjallar Teitur Guðmundsson, læknir og framkvæmdastjóri Heilsuverndar, um þann árangur sem náðst hefur á hjúkrunarheimilum á Íslandi í baráttunni við COVID.

Umfjöllun í Fréttablaðinu: Árangur hjúkrunarheimila á Íslandi í baráttunni við COVID

Það má með sanni segja að okkur hafi tekist vel á Íslandi að glíma við þennan vágest sem kórónu­veiran er og er það eftirtektarvert í samanburði við önnur lönd heimsins. Yfirvöld eiga hrós skilið með þríeykið í fararbroddi frá upphafi sem hefur leiðbeint með stuðningi fagfólks, yfirvegun og góðri daglegri upplýsingagjöf. Okkur tókst það sem stefnt var að, að draga sem mest var mögulegt úr smiti, fjöldanum og sinna þeim veiku með beinum og nýstárlegri hætti en áður hefur þekkst með COVID-göngudeild Landspítala. Heilsugæsla og Læknavakt unnu samræmt sem einn maður að uppvinnslu og sýnatöku auk hins mikla stuðnings sem fékkst frá Íslenskri erfðagreiningu og almannavörnum í viðbragði við faraldrinum. Þannig var stefnan að verja heilbrigðiskerfið fyrir ofálagi, og okkur hin, en einna mest þá sem veikastir voru fyrir. Þjóðin brást við og hlýddi Víði og félögum með mjög góðum árangri.

Á hjúkrunarheimilum var tekin sú ákvörðun snemma í faraldrinum líkt og á Landspítala og víðar að loka fyrir heimsóknir, slíkt hefur aldrei gerst áður í sögunni með þeim hætti og sætti talsverðri gagnrýni. Það var ekki það eina sem var gert heldur voru teknir upp verkferlar varðandi aðföng og innkaup, hólfun eininga og aðskilnaður innan hvers húss var skipulagður í þaula. Starfsmenn voru fræddir og þjálfaðir til meðvitundar um þá áhættu sem þeir sem slíkir báru með sér væru þeir smitaðir. Verulega var hert á skoðunum og uppvinnslu þeirra sem voru með minnstu einkenni og starfsmenn héldu sig heima þar til niðurstaða fékkst úr skimprófi fyrir veiru. Samstarf við Heilsugæslu og Læknavakt var mikið og framlínustarfsmenn hvort heldur sem voru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkra-/iðjuþjálfar, starfsfólk í aðhlynningu, eldhúsi, þrifum, húsverðir sem og læknar voru á tánum að verja hina veikustu. Árangurinn er að mínu mati heimsmet á þessum viðsjárverðu tímum þar sem flest lönd í kringum okkur hafa misst hvað flesta einstaklinga sem einmitt eru íbúar hjúkrunar- og dvalarrýma. Tölurnar eru ógnvekjandi þegar horft er til mismunandi landa í þessum hópum.

Það er mikilsvert að hrósa þeim sem það eiga skilið, það hefur vissulega farið mest fyrir umræðunni um hversu margir eru veikir í samfélaginu, liggja á spítala og gjörgæslu og í hvaða átt faraldurinn var og er að þróast, sem er eðlilegt. Heilbrigðisþjónustan hefur staðið sig með mikill prýði og verður áhugavert að sjá uppgjör að leikslokum, sumpart var mikið álag, annars staðar minna en í venjulegu árferði. Við höfum séð minna af ýmsum vanda eins og pestum, kvefi, flensu og slíku sem alla jafna fer vítt og breitt í samfélaginu. Á hjúkrunarheimilum höfum við orðið áþreifanlega vör við mun minni tíðni sýkinga en áður, en það á eftir að taka saman endanleg gögn og birta þar um.

Ég vil hrósa sérstaklega, og alls ekki gleyma, þeim hópi sem stóð vaktina með bravúr á hjúkrunarheimilum, allir sem einn um landið allt. Hrósa því hvernig hópurinn vann saman að bæði lokun heimsókna, nálgun á vinnu og ferla sína, erfiða umönnun í krefjandi kringumstæðum, stóð í fæturnar þrátt fyrir gagnrýni og gekk í málið með það að leiðarljósi að vernda íbúa sína, foreldra ykkar, ömmur og afa, bræður, systur, frænkur og frændur. Fólkið sem byggði þetta land og á allt gott skilið var verndað og þann undraverða árangur sem náðist ber mikið að þakka starfsfólki hjúkrunarheimila.

Hann er einsdæmi í heiminum nánast hvar sem við berum niður. Takk fyrir!

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur