Top header icons

COVID spurt og svaraðRannsóknarsjóður HrafnistuHrafnista á Facebook

 
 

Lífið á Hrafnistuheimilunum vikuna 1. - 8. apríl 2020

 

Laugarás

Skemmtilegur viðburður átti sér stað á dögunum þegar hópur barna úr Laugaráshverfinu tók sig saman og mættu í garðinn á Hrafnistu Laugarási til að gleðja heimilisfólk með söng. Íbúar voru mjög ánægðir með heimsóknina og fylgdust með börnunum út um gluggann. Þar hefur ekki verið setið auðum höndum síðustu daga frekar en á öðrum Hrafnistuheimilum. Horft var m.a. á Djöflaeyjuna og spjallað um braggalífið í kjölfarið á meðan aðrir sátu og hlustuðu á sögu, gripu í liti og flettu gömlum ljósmyndum. Spilað var bingó og skálað í serrýtári. S.l. föstudag var haldinn hattadagur og í dag var haldinn gulur dagur.

Hraunvangur

Í Hraunvangi hafa síðustu dagar einnig verið fjölbreyttir. Sjúkra- og iðjuþjálfar eru uppi á hæðum með gönguþjálfanir, hjól og alls kyns æfingatæki, boccia, söng-og hreyfistundir, og ekki má gleyma leikfimi með Helenu sem nú er varpað upp á allar hæðir. Allt þetta gerir daginn heldur betur skemmtilegan og styrkir, bætir og kætir.

Dundað hefur verið við páskaföndur og sl. föstudag var þemað „Gulur dagur“ þar sem starfsfólk og íbúar voru hvattir tl að klæðast einhverju gulu í tilefni þess að páskarnir eru á næsta leyti. Eins og myndirnar bera með sér létu íbúar ekki sitt eftir liggja og skörtuðu fögrum gulum lit í tilefni dagsins. Ýmislegt var á döfinni eins og bingó, boccia, leikfimi og bíó og svo var að sjálfsögðu sherrý, Bailys og Lemonchello í boði með kaffinu í tilefni dagsins 

Boðaþing

Í Boðaþingi kepptu íbúar og starfsmenn í boccia og höfðu mikið gaman af. Farið er reglulega í göngutúra og láta íbúar mjög vel af því að fá fríska loftið í lungun þó svo kuldinn hafi bitið í kinnar. Einnig er mikið spilað, lesið og hjólað. Það er gaman að sjá hvað íbúar eru tilbúnir til að nýta sér tæknina og hún er meira að segja nýtt til að spjalla á milli hæða!

Skemmtilegt viðtal var tekið við Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem býr hjá okkur á Hrafnistu í Boðaþingi. Viðtalið má lesa með því að smella HÉR

Nesvellir

Gleði, kærleikur og góðar samverustundir einkennir heimilislífið á Hrafnistu Nesvöllum.  Íbúar hafa nóg fyrir stafni alla daga við að spila, sauma, púsla, horfa á bíósýningar og spjalla um lífið og tilveruna. Stólaleikfimin er ávallt á sínum stað og á dögunum fór fram páskabingó.

Hlévangur

Bjórkvöld var haldið á dögunum á Hlévangi og var mikil ánægja með það á meðal íbúa. Þar voru sagðar skemmtisögur og brandarar. Búið er að páskaskreyta allt hátt og lágt og spilað var páskabingó þar sem í boði voru ýmiskonar vinningar.   

Ísafold

Á Ísafold er hreyfing stunduð á hverjum degi eins og á öllum Hrafnistuheimilinum. Katrín íþróttakennari stjórnaði m.a. spurningaleik það sem spurningarnar snérust um fjöll á Íslandi, Eystrarhorn, Keili, Hafnarfjall, Tindastól o.fl. Mikil þátttaka og virkni var á meðal íbúa í þessum leik og allir skemmta sér vel. Einn íbúi átti stórafmæli á dögunum og því var að sjálfsögðu fagnað með kökuveislu. Haldnar hafa verið söngstundir og skálað í sheerý. Þann 6. apríl fagnaði Hrafnista Ísafold sjö ára afmæli, þá gerðu íbúar og starfsfólk sér dagamun, dúkuðu upp borð og gæddu sér á kótilettum og ís í hádeginu. Síðan voru bakaðar vöfflur með kaffinu.

Skógarbær

Skógarbær nýtir vel DVD diska sem Sagafilm gaf heimilinu um daginn. Iðju- og sjúkraþjálfun flokkaði diskana og bjó til vídeóleigu í Félagsbæ. Íbúar geta farið yfir listann, hringt á videóleiguna og fengið myndina senda á sína deild. Á Hólabæ varð Mary Poppins fyrir valinu á meðan íbúar á Heiðabæ horfðu á Chaplin. Allaf er eitthvað í gangi, ýmist úti í góða veðrinu eða horft á bíó, föndrað, lesið og spjallað. Íbúar sem hafa átt afmæli í Skógarbæ hafa fengið sendan glaðning frá ættingjum í tilefni dagsins sem aðrir íbúar hafa einnig fengið að njóta.
Árlega kemur Lionsklúbburinn Engey í Skógarbæ og býður íbúum og aðstandendum þeirra í kaffi með öllu tilheyrandi. Þar sem nú ríkir heimsóknarbann gátu Engeyjarkonur ekki komið en í dag afhentu þær Katrín og Þórunn frá Lionsklúbbnum Engey íbúum á heimilinu páskaegg. Kærar þakkir til ykkar Engeyjarkonur fyrir hönd íbúa í Skógarbæ.

 

Starfsfólk á Hrafnistuheimilunum nýtir tæknina og aðstoðar íbúa við myndsímtöl og erum við á Hrafnistu ákaflega þakklát fyrir þær gjafir sem okkur hafa borist sem gera það kleift að íbúa okkar ná sambandi við sína aðstandendur í gegnum myndsímtöl.

Við erum ótrúlega þakklát fyrir alla þá sem hafa hjálpað okkur að gera síðustu vikur fjölbreyttar og skemmtilegar.  Undanfarið höfum við á Hrafnistuheimilunum fengið mikið af gjöfum frá fyrirtækjum og félagasamtökum. Það er hreint magnað að upplifa hvað margir hugsa hlýtt til okkar þessa dagana og fyrir allan þennan hlýhug erum við mjög þakklát.

Dæmi um þá glaðninga sem okkur hafa borist á undanförum vikum og dögum má sjá á þessum lista hér fyrir neðan og er þessi listi alls ekki tæmandi...

Ís frá Emmesís
Ís frá Kjörís
Æðibitar og Hraunbitar frá Góu
Flatkökur frá HP kökugerð
Skyrkaka frá Ásbirni Ólafssyni
Alls konar drykkjarföng frá CCEP
Söngur frá sönghópnum Lóunum
Páskaeggjabrot frá Nóa Sirius
Súkkulaðikúlur frá Omnom
Prins Polo frá Innnes
Söngur frá Stefáni Helga í Elligleði
Snakk frá Stjörnusnakk
Þristur frá Sambo
Páskaöl frá Ölgerðinni
Sælgæti frá Freyju
Handáburður frá Distica
Frá Samherja fengu öll Hrafnistuheimilin DVD diska með upptöku af Fiskideginum á Dalvík frá árunum 2014-2019.

 

Kærar þakkir til ykkar allra.

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur