Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Gleðilegar páskakveðjur frá Hrafnistu!

pskakveja-2020.jpg

 

Ágætu íbúar Hrafnistuheimilanna og aðstandendur,

 

Nú eru sannarlega óvenjulegir tímar í íslensku samfélagi, sem og heiminum öllum. Þetta eru aðstæður sem sjálfsagt enginn hefur búist við að upplifa.

Á Hrafnistuheimilunum átta búa um 800 manns í um fjórðungi hjúkrunarrýma á landinu og þar starfa alls um eitt þúsund og fimm hundruð manns.Ykkur til upplýsinga vildum við segja frá því að íhópi starfsliðs Hrafnistu hafa nú rúmlega 100 einstaklingar farið í sóttkví frá upphafi faraldursins en aðeins tveir reynst smitaðir, sem betur fer. Enn hefur enginn íbúi greinst smitaður af veirunni og óska þess allir heitt og innilega að svo verði áfram. Á heimilunum er fylgt skýrum verkferlum og viðbrögðum með tilliti til veirunnar enda eru nær allir íbúar í áhættuhópi og markvisst ferli fer í gang um leið og einhver íbúi sýnir möguleg einkenni. Neyðarstjórn Hrafnistu fundar daglega á fjarfundi um stöðu mála. Þessar aðstæður kalla á mikilar breytingar í daglegu lífi íbúanna okkar eins og þið þekkið.

Undanfarið höfum við á Hrafnistuheimilunum verið að fá mikið af gjöfum frá fyrirtækjum og félagasamtökum. Það er hreint magnað að upplifa hvað margir hugsa hlýtt til okkar þessa dagana og fyrir allan þennan hlýhug erum við mjög þakklát.

Hér neðar á síðunni má nálgast nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Hrafnistubréfið er fréttablað Hrafnistu sem er í A4 broti og er gefið út tvisvar á ári í 2.500 eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna allra Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl í samfélaginu; til annarra hjúkrunarheimila, alþingismanna, sveitarstjórnarfólks og fleiri. Blaðið er með hefðbundnu sniði en óvenju efnismikið enda mikið búið að vera að gerast hjá okkur á Hrafnistu síðustu mánuði.

Sjálfsagt hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægara að gefa út blaðið. Með því að senda ykkur blaðið sem viðhengi í tölvupósti viljum við tryggja að það berist til ykkar allra, en ljóst er að hefðbundin dreifing verður brösuleg í þetta skiptið.

Hrafnistubréfið gefur aðeins innsýn í hið fjölbreytta starf sem er í gangi á Hrafnistuheimilunum. Við hvetjum ykkur svo til að skoða facebook-síður sem hvert Hrafnistuheimili hefur komið upp en þar er að finna nær daglegar fréttir úr starfinu og daglegu lífi.

Að lokum viljum við nota þetta tækifæri og óska ykkur öllum - íbúum, aðstandendum og góðvinum Hrafnistu og fjölskyldum þeirra, gleðilegrar páskahátíðar í þessum óvenjulegu aðstæðum sem nú rýkja í samfélaginu!

 

Starfsfólk Hrafnistuheimilanna

 

Hrafnistubréfið 1. tbl. 47. árg. apríl 2020 - smelltu til að skoða

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur