Top header icons

Ábendingar Fyrir starfsfólkHrafnista á Facebook

 
 

Sérstök deild tilbúin fyrir COVID-19 smitaða á Hrafnistu

Hrafnista hefur í forvarnarskyni gert sérstaka deild tilbúna til móttöku á íbúum sem reynast smitaðir af COVID-19. Deildin, sem staðsett er á nýju heimili Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík, er ætluð íbúum á öllum Hrafnistuheimilunum sex á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Hrafnista í Reykjanesbæ er langt komin með að undirbúa sambærilega aðstöðu fyrir Nesvelli og Hlévang. Á heimilunum átta búa um 800 manns í um fjórðungi hjúkrunarrýma á landinu og þar starfa alls um eitt þúsund og fimm hundruð manns.

Í hópi starfsliðs Hrafnistu hafa 92 einstaklingar farið í sóttkví frá upphafi faraldursins og einn reynst smitaður. Enn hefur enginn íbúi greinst smitaður af veirunni. Á heimilunum er fylgt skýrum verkferlum og viðbrögðum með tilliti til veirunnar enda eru nær allir íbúar í áhættuhópi. Neyðarstjórn Hrafnistu fundar daglega á fjarfundi um stöðu mála.

Komi til þess að íbúi á einhverju Hrafnistuheimilanna á höfuðborgarsvæðinu greinist smitaður af COVID-19 verður viðkomandi fluttur á deildina við Sléttuveg þar sem hann mun fá viðeigandi þjónustu meðan á veikindum stendur. Deildin sem er á jarðhæð, er með þrjá innganga meðal annars sérstakan inngang fyrir starfsfólk þar sem er að finna sérstökt rými til að klæðast hlífðarfatnaði. Á deildinni eru 11 rúmgóð einstaklingsherbergi með salerni og baði, en hægt væri að setja fleiri inn á deildina ef svo bæri undir. Hrafnista vonast þó til að aldrei þurfi að nota deildina í þessu skyni.

Ráðstöfunin hefur verið kynnt fyrir íbúum og aðstandendum sem hafa tekið mjög jákvætt í málið auk þess sem verið er að efla bakvarðarsveit heimilanna í forvarnarskyni komi til þess að fleiri í hópi starfsmanna þurfi að sæta sóttkví. Með það að leiðarljósi hefur aðstandendum m.a. verið boðið að skrá sig í bakvarðarsveitina og hafa viðbrögð í þeim hópi farið fram úr björtustu vonum. Sem stendur er þó ekki gert ráð fyrir að kalla þurfi til aðstandendur, en komi til þess munu viðkomandi starfa á öðrum heimilum en þeim sem nánustu skyldmenni búa.

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur