Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Hugleiðingar til íbúa Hrafnistuheimilanna og aðstandenda þeirra

 

Það er líklega að bera í bakkafullan lækinn að fara tala um óvenjulegt og fordæmalaust ástand í starfseminni okkar hér á Hrafnistu síðustu daga. Í dag eru þrjár vikur síðan Neyðarstjórn Hrafnistu tók þá erfiðu ákvörðun að takmarka með stífum hætti heimsóknir til íbúanna okkar. Hrafnista er lang stærsti aðilinn sem kemur að starfsemi hjúkrunarrýma hér á landi; starfrækjum nú átta hjúkrunarheimili í fimm sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Hjúkrunarrýmin eru alls um 800 og starfsfólk heimilanna tæplega 1.500. Það var því ljóst að aðgerð sem þessi hefði bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga.

Hverjar eru ástæðurnar fyrir þessum aðgerðum?

Heilsa og velferð íbúanna okkar þarf alltaf að vera í forgangi og það er í raun ástæðan fyrir þessum aðgerðum sem eru án fordæma í sögunni.
Þar sem íbúar Hrafnistu, rétt eins og annarra hjúkrunarheimila eru flestir aldraðir og/eða með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Því færri sem koma inn á heimilin því minni líkur á smiti.

Þetta er hins vegar þungbær ákvörðun sem er tekin að vel yfirlögðu ráði. Okkur þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun, en þetta er gert með velferð íbúanna okkar að leiðarljósi og höfum við beðið fólk að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki. Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa.

Starfsfólk hjúkrunarheimila veit mjög vel um mikilvægi samvista aðstandenda og íbúa; það þarf ekkert að eyða mikilli orku í ræða þau mál - en jafnframt er gott að hafa í huga að takamarkanir á heimsóknum á hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir eru í flestum löndum kringum okkur, t.d. Danmörku, svo þetta er ekkert séríslenskt fyrirbrigði eins og kannski einhverjir hafa látið í veðri vaka.

Jafnframt hefur umferð allra annarra en nauðsynlegs starfsfólks á vakt, verið takmörkuð inn á Hrafnistuheimilin. Það á sem dæmi við um birgja með vörur, iðnaðarmenn og aðra sem þurfa að koma inn á heimilin og hafa verið gerðar sérstakar verklagsreglur í tengslum við slíka hópa. Undantekningar til aðstandenda eru leyfðar að mjög takmörkuðu leiti og er þá leyst úr því sérstaklega í hverju tilfelli.

Jákvæð viðbrögð hvetja okkur áfram

Viðbrögð ykkar íbúa og ættingja hafa verið mikil síðan þessi ákvörðun var kynnt. Fólkið okkar fylgist auðvitað vel með fréttum og hefur töluverðar áhyggjur af málum, þó fáir hafi látið þetta raska ró sinni.

Margir hafa hringt eða sent tölvupóst. Almennt er fólk mjög ánægt með þessa ákvörðun og langflestir þakka okkur fyrir að taka málin svona föstum tökum. Fólk er almennt að sýna þessu mikinn skilning með einhverjum örfáum undantekningum. Fyrir það erum við mjög þakklát og sendum ykkur bestu kveðjur fyrir stuðninginn.

Jafnframt er gaman að geta þess að fjöldi góðgerðafélaga og fyrirtækja hefur á þessum tíma sýnt Hrafnistuheimilunum mikla velvild í formi beinna gjafa (spjaldtölvur, matvörur, drykkjarvörur o.fl.) eða verulegra afsláttakjara og fyrir það ber að þakka af hlýhug.

Áhrif á daglegt starf og þjónustu

Svona ákvörðun hefur auðvitað mikil áhrif á daglega þjónustu. Þegar heimsóknir leggjast af breytist auðvitað daglegt líf á hjúkrunarheimilum mjög mikið. Við höfum því verið að endurskipuleggja þætti eins og alla sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og félagsstarf sem nú þarf að sinna með öðrum hætti en á venjulegum degi. Mig langar þó að nota þetta tækifæri og hrósa starfsfólk Hrafnistu fyrir hreint magnað starf með fólkinu okkar undanfarið. Það er ekki til nein verklagsregla eða kennslubók um hvernig dagleg starfsemi hjúkrunarheimila á að bregðast við faraldri sem þessum. Það eru því ný mál að koma upp á hverjum degi sem þarf að leysa. Allir virðast vera á tánum og eldmóður og kraftur við að leysa úr hlutunum er einstakur, hvort sem það er varðandi bókhaldið okkar eða almennt starf inn á hjúkrunardeildum.

Jafnframt höfum við verið að hvetja starfsfólk til að vera alveg sérstaklega duglegt að aðstoða íbúana okkar til að vera í nánu sambandi við ættingja og vini. Þar er tilvalið að nýta sér einfalda hluti eins og myndsímtöl gegnum Messenger, Facetime og fleiri aðferðum. Venjuleg símtöl er líka alltaf mikilvæg.

Næstu skref

Ykkur til fróðleiks, þá tekur Neyðarstjórn Hrafnistu símafund með sýkingavarnastjóra (og fleirum) nánast daglega þannig að mál og viðfangsefni eru í sífelldri endurskoðun. Einnig er reglulega fundað með fulltrúum almannavarna og embættis landlæknis. Markmiðið er að hagsmunir íbúa og starfsfólks séu í forgrunni. Með hverjum deginum sem líður án þess að veiran sé komin inn á hjúkrunarheimilin erum við betur í stakk búinn til að mæta málum ef þau koma upp. Vonandi styttist þó í að við komumst í eðlilegt ástand aftur en þangað til höldum við áfram að vera dugleg að finna aðrar lausnir; með velferð fólksins okkar að leiðarljósi.

Ágætu íbúar, aðstandendur og samstarfsfólk – þið eigið eindregnar þakkir skyldar fyrir ykkar merka starf og þátttöku á þessum óvenjulegu tímum. Ég er gríðarlega stoltur samstöðunni og er sannfærður að við komumst í gegnum þessa erfiðleika fyrr en síðar!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur