Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Lífið á Hrafnistuheimilinum

Lífið á Hrafnistu gengur sinn vanagang og margt er gert til að íbúum okkar líði sem allra best.

Sl. föstudag kom sönghópurinn Lóurnar til okkar á Hrafnistu í Hraunvangi og söng fyrir íbúa okkar eins og þeim einum er lagið. Þetta gerðu þau öll í sjálfboðavinnu og erum við þeim óendanlega þakklát fyrir þeirra frábæra framlag við að stytta heimilisfólkinu okkar stundirnar.

Til þess að svona viðburður geti átt sér stað um þessar mundir þarf mikila undirbúningsvinnu og starfsfólk sá til þess að allir færu með gát. Listafólkið fór inn um sérstakar dyr og sprittuðu sig bæði við komu og brottför. Einungis gestir úr dagvistuninni höfðu kost á að vera viðstaddir í Menningarsalnum en tónleikunum var sjónvarpað í sjónvörp í öllum setustofum hússins þar sem íbúar létu fara vel um sig og fylgdust með á skjánum.  Einnig gat heimilisfólk á öðrum Hrafnistuheimilum fylgst með viðburðinum en honum var streymt beint í gegnum facebook.

Íbúar og starfsfólk í Hraunvangi klæddust litríkum fötum en það var þema dagsins. Svo var fjör á vinnustofunni og í tækjasalnum, Helena var með leikfimi, það var spilahópur, boccia og kaffihópur.

Brot af söng Lóanna má sjá með því að smella HÉR 

Á Nesvöllum var haldin föstudagsgleði þar sem varpað var á tjald söng Lóanna í Hafnarfirði og þegar henni lauk var fallegri íslenskri tónlist varpað á tjaldið. Allir voru duglegir að taka undir í söngnum og sumir stigu dansinn. Ekki var slegið af gönguæfingum og um helgina var fylgst með tónleikum í sjónvarpi.

Á Hlévangi var einnig fylgst með tónleikum á Hrafnistu Hraunvangi í gegnum facebook og allir sammála um samverustundin hafi verið virkilega skemmtileg þar sem falleg íslensk lög voru sungin. Um helgina var haldinn hattadagur sem vakti mikla lukku meðal íbúa.

Á Hrafnistu í Boðaþingi var list í hávegum höfð og dundað var m.a. við hárgreiðslu, félagsvist var spiluð og húslestur fór fram fyrir kaffið.

Í Skógarbæ klæddust íbúar og starfsfólk einnig marglitum fötum sl. föstudag til að lífga upp á heimilið. Fylgst var með tónleikunum frá Hrafnistu í Hafnarfirði og boðið var upp á heitt kakó með rjóma. Íbúar sögðust geyma þessa stund í hjörtum sér. Boccia keppni var svo haldin eftir hádegi. Rósa fótaaðgerðarfræðingur kom færandi hendi og gaf öllum hjúkrunardeildum túlípana. Við vitum að blómin gleðja og á þessum tímum er gott að hafa falleg blóm í vasa á matarborðum.

Nokkur fyrirtæki hafa verið svo elskuleg að færa okkur glaðning og afþreyingu þessa dagana og þökkum við af heilum hug öllum þeim sem sýnt hafa íbúum okkar á Hrafnistu hlýhug með sínum gjöfum.

Í dag var Stefán Helgi Stefánsson, söngvari, gleðigjafi og annar meðlimur Elligleði, hjá okkur í Menningarsalnum á Hrafnistu Hraunvangi og söng fyrir íbúa okkar. Viðburðinum var að sjálfsögðu sjónvarpað beint svo allir gátu fylgst með SJÁ HÉR

 

Íbúar og starfsfólk Hrafnistuheimilanna senda öllum góðar kveðjur.

 

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur