Top header icons

COVID spurt og svaraðRannsóknarsjóður HrafnistuHrafnista á Facebook

 
 

Hrafnista Boðaþing 10 ára

 

Þann 19. mars var haldið upp á 10 ára afmæli Hrafnistu í Boðaþingi. Hátíðarhöld voru lágstemmd vegna aðstæðna en það er oft á svona tímamótum sem þykir við hæfi að líta yfir farinn veg.

Margt hefur breyst á þessum tíu árum en þegar heimilið var opnað var hugmyndafræði Boðaþings nokkuð ný af nálinni. Það að vera ekki í vinnufatnaði, að bera fram matinn á fötum og leyfa dýrahald, var ekki óþekkt en ekki algengt og hvað þá allt á sama staðnum. Einnig þótti það nýjung að hafa jafna mönnun morgna og kvölds og virðing fyrir sjálfræði íbúa var mjög sterk. Starfsfólk og íbúar eru stolt af að vinna og búa á þessu góða heimili en heimilisbragurinn skapast af starfsfólki og íbúum hússins hverju sinni. Það eru þeir sem starfa og búa í Boðaþingi sem gera Boðaþing að þeim stað sem hann er.

Að lifa þessa tíma þar sem er samkomubann og heimilið lokað fyrir gestum er eitthvað sem fáir áttu von á.  Það er þó ekki það sem hefur verið umræðuefnið undanfarið heldur samhugurinn, persónulegu kynnin og gleðin sem við finnum í húsinu.  Nokkrir íbúar hafa nýtt sér tæknina til að spjalla við ástvini og hefur það orðið fleirum hvatning til að skoða þá möguleika.  Íbúi í Boðaþingi sagðist hafa verið búinn að segjast aldrei myndi nota þetta tæknidrasl en enginn veit sína ævi fyrr en öll er og hann spjallaði við dóttur sína í gær í gegnum spjaldtölvu.  Allir í húsinu gera sitt besta til að létta lundina og það verður að segjast að þessu er ótrúlega vel tekið.  Það kemur vel í ljós í þessum aðstæðum hvað er mikil væntumþykja og samstaða innan heimilisins. Vinsælasta umræðuefnið í síðustu viku var að Lóan er komin.

Íbúar og starfsfólk senda öllum þakkir úr Boðaþingi fyrir afmæliskveðjurnar og hvetja fólk til að halda ró sinni. Hér sungu íbúar Lóan er komin og höfðu meiri áhyggjur af heilsu hennar þar sem veður sé enn ótryggt þessa dagana en sinni eigin.

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar haldið var upp á10 ára afmæli Hrafnistu í  Boðaþingi þar sem boðið var upp á þjóðarrétt Hrafnistu, lambakótilettur í raspi og tilheyrandi meðlæti. 

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur