Top header icons

 

Fyrir starfsfólk

 


Örugg skjalamótttaka


Örugg skjalamótttaka


Fyrir starfsfólk


Hrafnista á Facebook

 

Nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu fyrir 99 manns vígt í dag við Sléttuveg í Fossvogi

Í dag var nýtt hjúkrunarheimili fyrir 99 íbúa vígt við Sléttuveg í Fossvogi að viðstöddu fjölmenni gesta, þar á meðal heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, borgarstjóra Reykjavíkur, Degi B. Eggertssyni og Hálfdani Henrýssyni, formanni Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins, sem fluttu stutt ávörp. Heimilið er í eigu ríkissjóðs (85%) og Reykjavíkurborgar (15%) sem samdi við Sjómannadagsráð og Hrafnistu um reksturinn og sem jafnframt höfðu umsjón með framkvæmdum, sáu um allan undirbúning, skipulagsmál, útboð og samninga við hönnuði, verktaka og birgja. Á heimilinu, sem er hið 8. sem Hrafnista starfrækir á suðvesturhorni landsins, eru um 100 stöðugildi.

Kærkomin fjölgun hjúkrunarrýma

Við opnun hjúkrunarheimilisins verður kærkomin fjölgun hjúkrunarrýma að veruleika en erfitt ástand í starfsemi Landspítala undanfarin misseri hefur ekki síst stafað af miklum skorti á slíkum rýmum eins og stjórnendur spítalans, landlæknir og fleiri hafa ítrekað bent á. Fyrstu fjórir íbúarnir eru þegar fluttir inn og í lok næstu viku verða íbúar orðnir um 30 talsins.

Hjúkrunarheimilið er mikilvægur hluti nýs lífsgæðakjarna

Með tilkomu þessa nýja hjúkrunarheimilis verða hjúkrunarrými Hrafnistu um 800. Heimilið er mikilvægur hluti nýs lífsgæðakjarna sem Sjómannadagsráð og samstarfsaðilar þess, ríki og borg, byggja upp í Fossvogsdal og hefur fengið nafnið Sléttan. Vígsla heimilisins markar fyrsta áfanga verkefnisins, en aðrir eru vígsla þjónustumiðstöðvar Sléttunnar sem tekur til starfa í áföngum frá og með apríl og síðan upphaf á útleigu 60 nýrra leiguíbúða Naustavarar, dótturfélags Sjómannadagsráðs, á komandi sumri í nýrri samtengdri byggingu.

Allar rekstrareiningarnar tengjast miðlægt

Hjúkrunarheimilið er í eigu ríkis og borgar og annast Hrafnista reksturinn. Þjónustumiðstöð Sléttunnar er í eigu Sjómannadagsráðs, og byggð á vegum þess, milli hjúkrunarheimilisins og leiguíbúða Naustavarar og gegnir miðstöðin m.a. hlutverki sameiginlegs inngangs í allar rekstrareiningar. Árið 2022 mun Naustavör svo taka í notkun 80 leiguíbúðir til viðbótar þeim 60 í sumar og verður síðari áfanginn einnig tengdur öðrum húsum á Sléttunni. Lífsgæðakjarninn á Sléttunni er sá fjórði sem Sjómannadagsráð hefur þróað í 80 ára sögu sinni og búa Sjómannadagsráð og Hrafnista yfir mikilli sérfræðiþekkingu á sviði umönnunar og þjónustu við aldraðra.

Samlegðaráhrifin forsenda hámarkshagkvæmni á færri fermetrum

Frá því að fyrsta skóflustunga að byggingu hjúkrunarheimilisins var tekin í nóvember 2017 eru liðnir 27 mánuðir og fyrstu íbúarnir þegar fluttir inn. Allar tímaáætlanir hafa staðist ásamt því sem verkefnið er vel innan setts fjárhagsramma, sem Reykjavíkurborg fól Sjómannadagsráði að hafa eftirlit með. Ljóst er að heildarkostnaður vegna heimilisins, sem er aðeins um 2,9 milljarðar króna, verður mun lægri en sambærileg framkvæmdaverkefni í þágu aldraðra. Ástæðan er hvernig verkefnið var skipulagt og framkvæmt þar sem höfuðáhersla var á mikla samnýtingu húsnæðis Sléttunnar til að geta boðið meiri og betri aðstöðu og þjónustu á sama stað án þess að byggingarmagn yrði óviðráðanlegt í fjárfestingu. Húsin samnýta t.d. aðalanddyri, upplýsingatorg og móttöku, verslun, veitingasal, fjölnotasal, virkniþjálfun og heilsueflingu, dagdvöl, vörumóttöku, tæknirými, geymslur, búningsherbergi, aðstöðu húsvarða og fl. Þar að auki verða sjúkraþjálfun, matarþjónusta, kaffihús, fótsnyrting, hárgreiðsla og fleira í boði í húsnæði Sléttunnar. Án þessarar samnýtingar má gera ráð fyrir að húsakosturinn hefði í heild orðið rúmlega eitt þúsund fermetrum stærri en raunin verður ef þessir þrír aðilar hefðu byggt húsin hver í sínu lagi, án samvinnu.

Ýmsar nýjungar í hönnun og rekstri

Ýmsar nýjungar einkenna hjúkrunarheimilið hvað varðar hönnun, skipulag og rekstur. Heimilið er t.d. hið fyrsta sem byggt er miðað við 65 fermetra á hvern einstakling, en áður var viðmið í reglugerð 75 fermetrar. Nýja hjúkrunarheimilið er því 6.435 fm2 að stærð og samanstendur af níu 11 manna deildum og eru átta deildanna samliggjandi til að auðvelda samstarf og samnýtingu starfsfólks milli deilda. Í hverju herbergi er sér baðherbergi og pláss fyrir sófa og sjónvarp. Þá eru öll herbergi búin loftlyftubúnaði svo unnt sé að flytja rúmliggjandi einstaklinga til innan herbergisins, svo sem til og frá baðherbergi íbúðarinnar. Þá var ekki lagt fyrir sérstökum síma- eða sjónvarpslögnum heldur fara öll samskipti um internet sem aðgengileg eru í öllu herbergjum. Öryggiskerfi í byggingunum eru einnig tengd þráðlausu neti auk þess sem boðið verður upp á sérstakan gestaaðgang að veraldarvefnum. Margar þessara nýjunga og fleiri ónefndar voru þróaðar í samráði við Hrafnistu og tóku mið af áratugalangri reynslu við að veita heimilisfólki og öðrum þjónustuþegum góða umönnun.

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur