Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Eitt stærsta framleiðslueldhús landsins vígt á Hrafnistu

 

Hrafnista hefur tekið í notkun eitt stærsta framleiðslueldhús landsins eftir viðamiklar endurbætur og stækkun upprunalega eldhússins á Hrafnistu í Laugarásnum sem tók til starfa við vígslu heimilisins á Sjómannadaginn árið 1957. Með þessari stækkun munu framleiðsluafköst fara úr 850 í 1.800-2.000 skammta á sólarhring fyrir Hrafnistuheimilin fimm á höfuðborgarsvæðinu auk nýs Hrafnistuheimilis sem tekur til starfa í Fossvegi í byrjun næsta árs. Eftir breytingu verður eldhúsið eitt af stærstu framleiðslueldhúsum landsins. Formleg vígsluathöfn eldhússins fór fram í gær, þriðjudaginn 26. nóvember, þar sem rúmlega 100 manns heiðruðu okkur með nærveru sinni. Á dagskránni voru ávörp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra, Ölmu D. Möller landlæknis og Hálfdans Henryssonar stjórnarformanns Sjómannadagsráðs auk skemmtilegs tónlistaratriðis Valgerðar Guðnadóttur söngkonu og Helga Hannessonar píanóleikara. Í lok athafnarinnar klipptu ráðherra, landlæknir og formaður Sjómannadagsráðs á borða, vígslunni til staðfestingar og Björgvin deildarstjóri Fasteigandeildar Sjómannadagsráðs (eiganda Hrafnistu) afhenti Ólafi, yfirmanni elhúsa Hrafnistu, forláta pönnu sem tákn um afhendingu Sjómannadagsráðs á eldhúsinu til Hrafnistu.

Aukin framleiðsluafköst á 1.050 fermetrum

Gólfflötur eldhússins er í dag alls 1.050 fermetrar eftir tæplega 400 fermetra stækkun. Auk stækkunar og skipulagsbreytinga á nýtingu rýmisins voru nær öll tæki til starfseminnar endurnýjuð eins og nauðsynlegt var vegna aukinna framleiðsluafkasta og er raforkunotkun eldhússins undir fullum afköstum svipuð og hjá 500 vísitölufjölskyldum. Fjárfesting Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistu, vegna verkefnisins nemur vel á sjötta hundrað milljónum króna sem aflað var að mestu með arði frá Happdrætti DAS, rekstrarfé Hrafnistuheimilanna, sjálfsaflafé úr eigin sjóðum og með framlagi frá Framkvæmdasjóði aldraðra. Í eldhúsinu eru um 20 stöðugildi.

Margir komu að framkvæmdum við stóreldhúsið

Allur undirbúningur og umsjón með verkefninu var á höndum fasteignadeildar Sjómannadagsráðs í náinni samvinnu við stjórnendur og starfsfólk eldhúsa Hrafnistu. Því fylgdi mikil áskorun að koma nýju eldhúsi fyrir í gömlu húsnæði, en það tókst vel og verkefnið var framkvæmt innan kostnaðaráætlunar og tímaætlunar. Það tók aðeins 10 mánuði að koma þessu flókna verkefni í framkvæmd. Verkefnið naut liðsinnis THG arkitekta og verkfræðihönnuða Mannvits og Eflu. Aðalverktaki framkvæmda var JE Skjanni og að undirverktöku komu Rafmiðlun, Blikksmiðurinn, Landslagnir, Ísfrost, Borgarvirki, Fastus, Bakó Ísberg og Nesvélar.

Á svona stundum er efst í huga þakklæti til þeirra fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn við þessa flóknu en flottu framkvæmd, sem og þakkir til starfsfólks, íbúa og gesta Hrafnistu í Laugarásnum sem hafa þurft að æfa sig töluvert í þolinmæði undanfarna mánuði. Einnig er mikilvægt að koma á framfæri þakklæti til starfsfólks í Hraunvangnum þar sem bráðabirgðaeldhús hefur verið staðsett síðustu 10 mánuði og ýmsu hefur þurft að hliðra til svo allt gangi upp. Bestu þakkir til ykkar allra. 

 

 

  • Til baka takki

    Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
    Samþykkja kökur