Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 15. janúar 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 15. janúar 2016.

 

Gleðilegt ár!

Kærar þakkir fyrir samstarfið og ykkar framlag til Hrafnistu og aldraðra á liðnu ári. Ég vona að allir hafi átt ánægjulegar stundir og komi vel undan hátíðunum.

Ég hlakka mikið til að takast á við árið 2016 með ykkur!

 

Ný framkvæmdaáætlun hjúkrunarheimila loks kynnt í gær – stækkun Kópavogs og Hrafnista Sléttuvegi færast skrefinu nær!

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í gær að heilbrigðisráðherra kynnti framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Þrjú ný heimili hafa nú fengið grænt ljós frá Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir en áætlaður heildarkostnaður við byggingu hjúkrunarheimilanna nemur 5,5 milljörðum króna.

Þetta er sannarlega fagnaðarefni fyrir alla enda skortur á hjúkrunarrýmum verið mikið í fréttum undanfarið. Jafnframt er þetta langþráð fyrir okkur en þessi þrjú heimili eru stækkun Hrafnistu í Kópavogi (seinni áfangi heimilisins) og nýtt hjúkrunarheimili við Sléttuveg sem er samstarfverkefni okkar og Reykjavíkurborgar. Þriðja heimilið er svo í Árborg og tengist okkur ekki.

Það verður því nóg að gerast í Hrafnistu-lífinu á næstunni og vonandi verður hægt að hefja framkvæmdir við bæði þessi heimili fyrr en síðar.

 

Fundur um starfsemi hjúkrunarheimila í dag

Í dag halda Samtök fyrirtækja í Velferðarþjónustu (SFV) félagsfund á Hrafnistu í Kópavogi um starfsemi hjúkrunarheimila en þessi málefni hafa fengið mikla athygli fjölmiðla í vikunni. Það er í rauninni mjög gott þar sem þessi málefni hafa almennt ekki þótt spennandi fyrir fjölmiðla gegnum tíðina. Fundurinn í dag verður mjög athyglisverður. Við höfum í mörg ár barist við að fá sanngjörn daggjöld til okkar starfsemi en greiðslur ríkisins verða óraunhæfari með hverju árinu sem líður. Við svo búið verður ekki unað lengur og við verðum að láta vel í okkur heyra. Umfjöllun um okkar mál undanfarið er mikilvæg en án athygli fjölmiðla virðist því miður lítið gerast.

Stóra tækifæri hjúkrunarheimilanna til að fá leiðréttingu sinna mála er gerð þjónustusamninga þar sem þjónustan sem á að veita er skýrt skilgreind og kostnaðargreind – og í framhaldi greitt sanngjarnt daggjald. Þetta ferli hefur tekið mikinn tíma og mikið þras - og tókst ekki að klára fyrir áramót enda ætlum við að nýta tækifærið okkar vel og vanda til verka.

Í vikunni hafa verið bæði fréttir frá Garðabæ og Akureyrarbæ sem hafa verið að greiða yfir hundrað milljónir árlega með sínum hjúkrunarheimilisrekstri. Þar á bæ hafa menn fengið nóg af slíkri meðgjöf með rekstrinum enda er það ekki þeirra hlutverk.

 

Fækkun dvalarrýma í Hafnarfirði

Þessa dagana er verið að fækka um 10 dvalarrými á Hrafnistu í Hafnarfirði. Við höfum fengið leyfi fyrir 5 hjúkrunarrýmum í húsinu í staðinn. Með þessu fækkar um 5 íbúa í húsinu. Rétt er að taka fram að þessi breyting er gerð að okkar ósk. Við höfum lengi bent á að greiðslur fyrir dvalarrými séu alveg orðnar barn síns tíma enda ná þær ekki að vera 50% af greiðslum fyrir hjúkrunarrými. Engu að síður er kostnaður hátt í að vera sá sami fyrir dvalarrými og hjúkrunarrými og stundum algerlega sambærilegur. Við þetta verður ekki unað lengur. Herbergin fimm sem verða ekki notuð lengur verða nýtt í annað en tvö þeirra eru varla búsetuhæf lengur. Við þetta eru tekjur heimilisins sambærilegar og áður en álag á starfsfólki ætti að verða aðeins minna. Ljóst er að við óbreyttar aðstæður, munum við fækka um fleiri dvalarrými á næstu misserum og fá þeim breytt í hjúkrunarrými.

 

Starfsafmæli í desember

Nokkrir glæstir starfsmenn okkar fögnuðu formlegum starfsafmælum nú í desember og hafa fengið afhentar gjafir samkvæmt starfsvenjum okkar. Þessir starfsmenn eru:

 

5 ára starfsafmæli: Kristín Alísa Eiríksdóttir í Kópavogi. Dagbjört Bryndís Reynisdóttir á Ölduhrauni og Jocelyn A. Maglangit í ræstingu, báðar í Hafnarfirði.

10 ára starfsafmæli: Friðbjörg Proppé í ræstingu í Hafnarfirði.

15 ára starfsafmæli: Kristín Sigurðardóttir á Miklatorgi í Reykjavík.

Hjartanlega til hamingju allar og bestu þakkir fyrir góð störf fyrir Hrafnistu gegnum tíðina!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Síða 292 af 330

Til baka takki