Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 26. febrúar 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

Daggjöld hjúkrunarheimila 2016

Um síðustu helgi kynntu stjórnvöld daggjöld hjúkrunarheimila fyrir árið 2016.

Tekjur hjúkrunarheimila til starfseminnar eru nánast eingöngu í formi svokallaðra daggjalda. Upphæð daggjalda er ákvörðuð einhliða af ríkinu en viðurkennt er af ríkinu að upphæð daggjalda byggi ekki á kostnaðargreiningu þeirrar þjónustu sem á að veita heldur virðist það oftast byggja á ógegnsæjum uppreikningi daggjaldsins frá árinu áður. Svokallað RAI-mat hefur áhrif á upphæð daggjaldanna milli heimila en grunndaggjaldið byggir engu að síður ekki á kostnaðargreiningu raunverulegrar þjónustu sem veitt er né heldur þeirra þjónustu sem ætti að veita samkvæmt velferðarráðuneyti.

Það að daggjald til starfseminnar fyrir árið 2016 sé birt í lok febrúar 2016 er auðvitað argasti dónaskapur svo ekki sé meira sagt. Nú fyrst geta hjúkrunarheimilin farið að fínstilla rekstrar- og fjárhagsáætlanir fyrir árið 2016, eitthvað sem við eðlilegar aðstæður í eðlilegri starfsemi hefði átt að gerast síðasta haust, eða að minnsta kosti um leið og fjárlög er ljós. Skýringar stjórnvalda á þessum seinagangi eru furðulegar og staðfesta í reynd ákveðið virðingarleysi sem virðist því miður ríkja í garð hjúkrunarheimila.

Áður hefur verið fjallað hér (og í fjölmiðlum) um gerð þjónustusamninga Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu við Sjúkratryggingar Íslands um starfsemi hjúkrunarheimila en þær viðræður hafa nú staðið yfir í 14 mánuði og gengið misvel. Ennþá hafa stjórnvöld ekki getað komið fram með stóra þætti í viðræðunum eins og hvaða kröfulýsing þjónustulýsing á að vera (þ.e. hvaða þjónustu á nákvæmlega að veita á hjúkrunarheimilum) og hvort núverandi mönnunarmódel hjúkrunarheimila sem Embætti landlæknis hefur sett fram eigi að gilda eða einhver útgáfa á því. Vonandi næst nú að klára þessi samningamál fyrir árið 2017 því núverandi ástand er að verða algerlega óboðlegt.

Daggjöld ársins 2016 sem kynnt voru hafa þegar ollið nokkrum vonbrigðum þar sem svo virðist að raungildi þeirra sé að lækka milli ára í enn eitt skiptið. Beðið er þó eftir nánari útskýringum á útreikningum af hálfu stjórnvalda.

Við látum þó ekki deigan síga og klárum rekstraráætlun ársins á næstu dögum. Einnig höldum við áfram að berjast fyrir sanngirni og réttlæti fyrir hönd hjúkrunarheimila, það hlýtur að koma að því einn daginn að einhver ráðamaður þessarar þjóðar hafi kjark til að gera málefni hjúkrunarheimila skýr og gegnsæ og sé tilbúinn fyrir hönd stjórnvalda að láta sanngjarnt fjármagn fylgja faglegum kröfum þjónustunnar.

 

Þróunarhópur Sjómannadagsráðs

Tímar og þjónusta breytast hratt. Þessu verðum við að fylgjast með. Nýlega var settur í gang vinnuhópur sem á að hafa frumkvæði að því að innan Hrafnistu/Sjómannadagsráðs séu tæknilausnir og tækninýjungar í velferðarþjónustu, sem og ný tækifæri til þjónustu (allt mögulegt) skoðuð með markvissum hætti.

Í hópnum sitja Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs, María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs og Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs í Hafnarfirði.

Hópurinn mun gera tillögur að áhugaverðum verkefnum sem unnið verður nánar með og þá er reiknað með að ýmsir aðilar gæti komið til liðs við hópinn, eftir eðli verkefnisins.

Miðað við að nefndin starfi í eitt ár til að byrja með og verður forvitnilegt að fylgjast með hvert þessi vinna leiðir okkur.

 

 

Hollvinasamtök Hrafnistu

Á síðasta ári sendi Þóra Ingbjörg Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá okkur í Kópavogi inn formleg erindi, til framkvæmdaráðs Hrafnistu þar sem hún hvatti til að stofnuð yrðu Hollvinasamtök Hrafnistu.

Í kjölfarið hefur málið skoðað, meðal annars hvernig þessu er farið hjá öðrum heilbrigðisstofnunum sem margar hverjar hafa slík hollvinasamtök í gangi.

Eftir skoðun á málinu hefur verið ákveðið að skipa vinnuhóp sem útfærir slík hollvinasamtök og var ákveðið að velja Hrafnistu Hafnarfirði fyrir tilraunaverkefni. Við sjáum fyrir okkur að slík Hollvinasamtök gætu haft tvenns konar hlutverk. Annars vegar fjáröflun til kaupa á tækjum eða einhverju öðru sem nýtist viðkomandi heimili. Það gæti verið formi árgjalda félagsmanna og/eða sérstakra safnanna/átaka. Hins vegar gæti hlutiverk slíkra samtaka verið sjálfboðaliðastarf af einhverju tagi í þágu viðkomandi heimilis.

Mikilvægt er að skilgreina vel hvernig slík samtök eru uppbyggð og hvernig hugmyndin er að starfsemin haldist gangandi.

Vinnuhópurinn er nú að fara í gang en í honum sitja Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Hrafnistuheimilanna, Þóra Ingibjörg Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur í Kópavogi og Anna Björg Sigurbjörnsdóttir samskiptafulltrúi í Hafnarfirði.

Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með þessu máli.

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 286 af 330

Til baka takki