Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 10. júní 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

Old letter
Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 10. júní 2016.

 

Ágæta samstarfsfólk,

 

Glæsilegur Sjómannadagur á Hrafnistu!

Á sunnudaginn var Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur á Hrafnistuheimilunum. Almennt gekk þetta mjög vel og vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn við að gera þetta allt jafn glæsilegt og raun bar vitni!

Myndir og frekari umfjöllun um dagskrá dagsins má finna hér á heimasíðunni og á facebook-síðum Hrafnistuheimilanna.

 

Kosningar á Hrafnistu!

Það hefur varla farið framhjá neinum að forsetakosningar nálgast. Undanfarið hafa frambjóðendur eitthvað verið að heimsækja Hrafnistuheimilin og hefur það bara gengið vel.

Venju samkvæmt fer fram utankjörstaða-kosning á Hrafnistuheimilunum á höfuðborgarsvæðinu. Á miðvikudaginn var kosning í Kópavogi og á morgun verður kosningin í Reykjavík. Miðvikudaginn 15. júní er svo kosning hjá okkur í Hafnarfirði. Loks verður svo kosið á Reykjanesbæjarheimilunum okkar 20. og 21. júní.

Þetta verður allt auglýst betur á hverju heimili en rétt er að geta þess að þessi kosning er aðeins fyrir íbúa Hrafnistuheimilanna. Gestir dagdvala, í hvíldarinnlögn, íbúar í nærliggjandi húsum eða starfsfólk getur ekki greitt atkvæði.

Það er um að gera að hvetja fólkið okkar til að fara á kjörstað og nýta atkvæðisréttinn. Þetta er líka tilvalin samverustund fyrir ættingja að aðstoða sitt fólk.

Svo er bara að krossa fingur að allir kjósi rétt! 

 

EM veislan byrjar í dag!

…og ef það skildi hafa farið framhjá einhverjum þá byrjar Evrópukeppnin í fótbolta í kvöld. Úrslitakeppnin fer fram í Frakklandi og er helst merkileg fyrir það að Íslandi tókst að tryggja sér þátttökurétt í fyrsta sinn í sögunni (karla megin). Það verður auðvitað mikið um dýrðir en talið er að um 8.000 Íslendingar verði á hverjum leik íslenska liðsins. Aldrei í Íslandssögunni hafa jafnmargir Íslendingar verið samankomnir á einum stað utan Íslands (þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ekki talin með).

Leikir íslenska liðsins verða sýndir á RÚV en almennt eru aðrir leikir EKKI sýndir á RÚV, heldur á sérstakri EM-rás sem send er gegnum Sjónvarp Símans og þarf að kaupa í áskrift og einnig eitthvað á Skjá 1. Ánægjulegt er að segja frá því að Síminn hefur boðið Hrafnistuheimilunum aðgang að útsendingum á leikjum á EM í sumar, endurgjaldslaust. Síminn þarf að opna fyrir það í gegnum alla myndlykla – hvort sem þeir eru frá Vodafone, Símanum eða Stöð 2.

Endilega verið í sambandi við húsverði og/eða rafvirkja á ykkar heimilum til að láta opna fyrir þetta.

Við hér á Hrafnistu höfum oft gert einhverja skemmtun tengda þessari keppni og vil ég hér með hvetja alla til að skoða með að halda EM-partý þegar leikir Íslands fara fram; skreyta með fánum, baka, poppa og skapa stemningu. Hugmyndirnar eru óþrjótandi.

Leikir Íslands eru eftirfarandi:

Þriðjudagur 14. júní kl 19:00 Portúgal – Ísland

Laugardagur 18. júní kl 16:00 Ísland – Ungverjaland

Miðvikudagur 22. júní kl 16:00 Ísland – Austurríki

…svo er bara um að gera að njóta.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 273 af 330

Til baka takki