Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 16. júní 2016 - Gestaskrifari er Eygló Tómasdóttir deildarstjóri á Lækjartorgi, Engey og Viðey Hrafnistu Reykjavík

Old letter
Lesa meira...

Föstudagsmolar 16. júní 2016

 

Fyrstu kynni

Núna í ágústbyrjun er ár síðan ég hóf störf sem aðstoðardeildarstjóri á Hrafnistu í Reykjavík. Mér finnst samt styttra síðan ég mætti á mína fyrstu vakt á deildina Lækjartorg, hálf skálfandi á beinunum. Tilfinningin var kannski svona svipuð því að vera að fara á fyrsta stefnumótið með einhverjum, eftirvænting og spenna en líka óvissa og kvíðahnútur í maga. Er þetta eitthvað fyrir mig og hvað finnst þeim um mig? Pössum við saman?

Ég fékk heldur betur góða móttökur frá starfsfólkinu og heppnaðist þetta fyrsta deit bara ljómandi vel ef svo má segja. Það sem heillaði mig við fyrstu kynni er hversu jákvætt og létt andrúmsloft ríkir á Hrafnistu, mikil samvinna og áberandi lítil stéttaskipting. Svo er ekki verra að fá hláturskast af og til í vinnunni, það hefur gerst þó nokkuð oft á þessu tæpa ári enda vinnufélagarnir með þeim skemmtilegri.

 

Nýtt ár, nýtt hlutverk

Um áramótin tók ég við af Þóru Geirsdóttur sem deildarstjóri. Það er mikill heiður að vera treyst fyrir því krefjandi verkefni að stýra stórri hjúkrunardeild, Lækjartorgi, Engey og Viðey. Verkefnin eru mörg og stundum flókin, eins og eðlilegt er á stóru heimili. Vinnudagurinn fer stundum í eitthvað allt annað en það sem lá fyrir í byrjun dags því oft á tíðum dúkka óvænt verkefni upp á borðið sem þarf að leysa strax. Ennþá er ég að setja mig inn í starfið og aðlagast og er ég þakklát samstarfsfólki mínu fyrir að sýna mér þolinmæði.

 

Skin og skúrir

Eins og gefur að skilja eru þarfir og væntingar fólks jafn misjafnar og það er margt. Það gerir starfið bæði krefjandi og skemmtilegt. Við tökum þátt í gleði og sorgum heimilisfólksins og nánustu aðstandendum þeirra. Í störfum okkar finnum við oft fyrir miklu þakklæti í okkar garð og er það virkilega góð tilfinning að finna að það sem við erum að gera sé metið að verðleikum. Við fáum einnig ábendingar frá heimilisfólki og aðstandendum um hvað betur mætti fara og er þá reynt að bregðast við þeim óskum eins og hægt er.

Á deildinni eru 18 hvíldarrými þar sem fólk kemur og er að meðaltali í 4 vikur í senn. Oftast kemur fólk úr heimahúsi, sumir eru alveg sjálfbjarga á meðan aðrir þurfa meiri aðstoð og jafnvel alla aðstoð við athafnir daglegs lífs. Oftast er fólk mjög ánægt með dvölina hjá okkur og gerir þetta þeim kleift að búa lengur heima hjá sér. Aðstandendur þessara einstaklinga nýta oft tækifærið og fara í frí á þessum tíma, jafnvel til útlanda og koma endurnærðir til baka. Töluvert er um að aðstandendur séu í umönnunarhlutverki og finnum við að fólk er orðið langþreytt og er gríðarlega þakklátt fyrir þessa þjónustu sem við veitum. Fólk er ekki alltaf tilbúið til þess að útskrifast heima aftur frá okkur og aðstandendur ekki í aðstöðu til þess að taka að sér umönnunarhlutverk.  Það tekur á okkur starfsfólkið að þurfa að senda fólk heim eða jafnvel á Landspítalann, þá finnum við virkilega til vanmáttar okkar. Það er ljóst að margir aldraðir og aðstandendur þeirra eru í erfiðri stöðu og verðum við að vona að fjölgun verði á hjúkrunarrýmum í landinu sem fyrst. En við höldum áfram að gera okkar besta, engin spurning.

 

Eigið góða þjóðhátíðarhelgi, sjáumst kannski í bænum með candyfloss og gasblöðru eða jafnvel á tónleikum í Laugardalnum.

 

 

Bestu kveðjur,

Eygló Tómasdóttir,

Hjúkrunardeildarstjóri Lækjartorgi, Engey og Viðey

Hrafnistu í Reykjavík

 

 

 

 

Síða 272 af 330

Til baka takki